23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (2135)

30. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefi í rauninni engu við að bæta það, sem í nál. á þskj. 147 stendur. Þar er það tekið fram, að vegamálastjóri álíti ekki vera ástæður til eða vera rjett, að taka þennan vegarkafla í tölu þjóðvega, vegna þess, að hann telur ekki líklegt, að umferð um veginn aukist svo mjög við það, þó heilsuhælið verði reist í Kristnesi. Aftur væri það alt öðru máli að gegna um sjúkrahúsvegina hjer syðra. Hjer hefir orðið nauðsynlegt að leggja sjerstakan veg um Laugarnes og inn að Kleppi. Hins vegar hefir Vífilsstaðahælið fengið veg af þjóðveginum og að hælinu, og er þessi vegarkafli í þjóðvegatölu ásamt veginum að Laugarnesi og Kleppi. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að Kristneshælinu verði sýnd sömu skil, að ríkissjóður kosti vegalagningu af Eyjafjarðarbraut og að hælinu og hjeldi þeim vegarspotta við á sinn kostnað. Kostnaðurinn við þessa vegarlagningu, er áætlaður um 10 þús. kr., og vill meiri hl. nefndarinnar mælast til, að sú upphæð yrði veitt heilsuhælinu í Kristnesi. Nefndin getur ekki sjeð, að ástæða sje til að gera Eyjafjarðarbrautina að þjóðvegi. Brautin liggur öll innan hjeraðs, en ekki milli hjeraða, og er því ekki sambærileg við vegi, sem liggja hjeraða milli.