15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

30. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Nefndin hefir athugað þær breytingar, sem fluttar voru síðan þetta frv. var til 2. umr., og leggur til, að bæði frv. og brtt. verði feldar.

Jeg fyrir mitt leyti skal viðurkenna það, að mjer finst mjög mikil sanngirni mæla með að samþ. brtt. á þskj. 208 og 211, svo framarlega að breyting verði gerð á vegalögunum. En jeg get verið samferða með nefndarmönnum mínum, þar sem þeir leggja til, að einnig frv. verði felt. Ástæðan til þess, að nefndin hefir tekið þessa aðstöðu, og minni hl. hennar, sem lagði til við 2. umr. að frv. yrði samþ., er sú, að nú á milli umr. hefir verið samþ. fjárframlag á fjárlögum, 10 þús. krónur, til þess að gera veg að heilsuhælinu í Kristnesi og að taka hann síðan í þjóðvega tölu, þegar aðrar breytingar verða á vegalögunum.

Jeg skal ekki fara að orðlengja meira um þetta. Eins og jeg tók fram, mætti færa ýmsar ástæður fyrir brtt. á þskj. 208 og 211, en þar sem nefndin leggur til, að frv. verði felt, leggur hún auðvitað einnig til, að þær breytingar verði feldar.