29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2154)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Það þarf væntanlega ekki að tala mikið um þetta hjer, nefndin hefir á þskj. 213 gert grein fyrir stefnu sinni í málinu. Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin orðið sammála um, að óhjákvæmilegt væri að bæta kjör yfirsetukvenna. Eigi að síður hafa tveir hv. nefndarmenn skrifað undir nál. með fyrirvara, án þess þó að gera uppskátt, hvað fyrir þeim vakir. Býst jeg helst við, að þeim þyki nál. ekki ganga nógu langt í sumum atriðum þessa máls, er til hagsbóta horfa fyrir yfirsetukonurnar. Eins og nál. ber með sjer, gat nefndin ekki fallist á frv. í því formi, sem það var; þessvegna fanst henni rjettast að leggja til, að í staðinn fyrir 1. gr. frv. komi ný grein, er algerlega komi í stað 1. gr. laga nr. 76, 28. nóv. 1919. — Nefndin hefir ekki getað fallist á að hækka laun yfirsetukvenna eins og stungið er upp á í frv. Telur hún rjettara að fara hjer meðalveg og setja byrjunarlaunin nokkru lægri en gert er ráð fyrir í frv., sjerstaklega með tilliti til sveitaumdæma. Hinsvegar gat nefndin fallist á, að laun yfirsetukvenna í kaupstöðum væru ekki of hátt sett í frv., sjerstaklega með tilliti til þess, hve miklu meira er þar að gera. Hvað snertir eftirlaunin, sem frv. vill fá lögleidd, þá fanst meiri hl., eða ef til vill allri nefndinni, ekki rjett að ákveða þau með lögum, frekar en gert er í yfirsetukvennalögunum 1912. Hún lítur svo á, að yfirleitt muni sýslunefndir og bæjarstjórnir vera svo hlyntar yfirsetukonum, að treysta megi því, að heilsubilaðar eða gamlar yfirsetukonur fái styrk, ef þörf er á. Viðvíkjandi yfirsetukonum í sveitaumdæmum lítur nefndin svo á, að þær, sem stunda bú, leggi yfirleitt ekki svo mikið í sölurnar fyrir þetta starf, að þörf sje sjerstakra eftirlauna handa þeim, enda megi treysta hlutaðeigandi sýslunefndum til þess að sjá þeim fyrir styrk, ef þörf gerist. Nefndin hefir því lagt til, að 2. gr. frv. falli burt.

Ein af aðalbreytingum þeim, sem nefndin fer fram á, er sú, að ríkissjóður greiði helming af launum yfirsetukvenna í kaupstöðum eins og nú er gert í sveitum. Nefndinni þótti hjer kenna nokkurs misrjettis og vildi ekki gera upp á milli kaupstaða og sveita í þessu efni frekar en öðru. Var hún því sammála um að taka þetta ákvæði upp í frv.

Jeg held, að jeg þurfi ekki að taka fleira fram þessu viðvíkjandi. Eins og jeg mintist á áðan, hefir nefndin viljað fara meðalveg í málinu. Væntir hún þess, að hv. deild sýni því velvilja og láti það ganga fram.