29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

40. mál, yfirsetukvennalög

Ingibjörg H. Bjarnason:

Þar sem þetta mál snertir kjör kvenna, get jeg ekki setið hjá, án þess að láta í ljós ánægju mína yfir því, sem hjer er verið að breyta til bóta.

Hv. flm. (HSteins) hefir skýrt nauðsyn þess starfs, sem yfirsetukonur hafa að rækja, og lýst kjörum þeirra. Hefi jeg þar raunar engu við að bæta. Jeg vildi samt lýsa óánægju minni yfir því, að nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að láta 2. gr. standa. Þá hefði fyrst verið um verulega rjettarbót að ræða til handa þessum konum. Jeg get þó tekið undir með hv. flm. (HSteins), að vel megi una við það, sem komið er, í von um, að næst verði lengra gengið.

Í nál. er drepið á, að yfirsetukonum, sem verðskulda eftirlaun, muni auðsótt að fá styrk úr sýslusjóði. Jeg er nú hrædd um, að reynslan bendi stundum í aðra átt, bæði að því er snertir yfirsetukonur og aðra starfsmenn. Jeg vildi óska hverjum góðum starfsmanni þess, að hann fengi slíka viðurkenningu úr ríkissjóði fremur en úr sýslusjóði. Tel jeg það bæði viðfeldnara og tryggara. Vona jeg, að sú tilhögun komist bráðlega á. Hv. flm. (HSteins) kom inn á það, að yfirsetukonur legðu í lífeyrissjóð. En geta þær það með þeim launakjörum, sem þær eiga við að búa? Jeg held, að þær geti ekki sjeð af neinu til þess. Auðvitað væri æskilegast, að þær gætu lagt til hliðar af launum sínum, svo að væntanlegur styrkur yrði útborgaður sem innieign, og jeg vona, að kjör þeirra verði bætt svo, að þær verði þess megnugar.

Í nál. er eitt atriði, sem jeg sjerstaklega vildi drepa á. Þar stendur: „Því er haldið fram, — ekki að ástæðulausu, — að vinnukonur og lausakonur, sem stunda algenga vinnu, fái hærra kaup en yfirsetukonur.“ Það er víst, að vinnukonur eru þarfir starfsmenn, en yfirsetukonur eru það ekki síður. En það er óhjákvæmilegt, að yfirsetukonur njóti sjermentunar, en því fylgir talsverður kostnaður fyrir fátækar og umkomulausar stúlkur, en hinsvegar bíður þeirra ljeleg atvinna og lítið í aðra hönd. — Síðar í nál. segir: „Hinsvegar hefir nefndin ekki getað fallist á frv. eins og það liggur fyrir. Henni þótti fastákveðnu launin sett of há, aðallega með tilliti til sveitaumdæma, þar sem fáment er og lítið að gera.“ — Hjer er ekki rjett ályktað, því eftir því sem umdæmin eru minni, má búast við færri fæðingum og því minni aukatekjum. Það hefir verið tekið fram, að yfirsetukonurnar mega ekki fara út úr umdæminu nema með sjerstöku leyfi, og ekki vera frá heimili sínu nema 2–3 daga, ef jeg man rjett, og virðist þetta ákvæði hamla þeim að leita sjer annarar atvinnu.

Það þarf að bæta laun þessara kvenna svo, að þær megi vel við una. Þær munu þá sýna í verkinu, ekki síður en hingað til, hve þarfar þær eru. Þær eiga að vera trúnaðarmenn sængurkvennanna, og þær hafa aðstöðu til þess að vera menningarfrömuðir sveitanna í ýmsum efnum, bæði að því er snertir bættan þrifnað og ýmsa heimilishætti. Jeg segi þetta eftir að hafa heyrt álit mæðra í þessu efni.

Eftir atvikum læt jeg mjer nægja í bráð þær umbætur, sem hjer eru gerðar. Þetta er spor í rjetta átt, og seinna koma sumir dagar, en koma þó.