31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (2171)

40. mál, yfirsetukvennalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir á þskj. 250, fer fram á allmikla hækkun á launum yfirsetukvenna. Jeg hygg, að meðallaun þeirra sjeu nú um 250 krónur. Jeg hefi ekki aðgætt þetta nákvæmlega, en það getur ekki skakkað miklu. Það má vel vera, að — þessi laun sjeu of lág og að þar af stafi nú einhver skortur á yfirsetukonum. En þá er að líta á hitt, hvort sú breyting, sem frv. fer fram á, felur í sjer eðlilega launalækkun, og hvort hún muni auka eftirspurnina eftir þessum stöðum. Jeg geri ráð fyrir því, að það sje meiningin með frv., þó að það sje ekki tekið fram, að láta yfirsetukonur njóta aldursuppbótar fyrir þann tíma, er þær hafa starfað, þegar lög þessi ganga í gildi. þá má gera ráð fyrir því, að svo mikill fjöldi yfirsetukvenna sje búinn að starfa lengi, að það samsvari því, að þær hefðu allar starfað í 8 ár. Þá er að athuga, hve há meðallaun þeirra mundu verða. Jeg ímynda mjer, að grunnlaunin mundu verða 400–450 krónur að meðaltali, auðvitað yrðu margar fyrir ofan þetta aldurstakmark, en nokkrar yngri fyrir neðan. Með núverandi dýrtíðaruppbót yrðu þá meðallaunin um 750 krónur. Mjer finst nú, að þegar á að hækka laun einhvers, enda þótt full þörf sje á hækkun, þá sje það ekki endilega nauðsynlegt að margfalda hin fyrri laun með 3, enda fyr viðunandi. Mjer finst það ekki hafa verið nægilega athugað, að svona stórt stökk er mjög varhugavert, enda verður ekkert samræmi milli slíks og þeirra launa, sem nú eru greidd fyrir önnur störf í sveitum, svo sem oddvita- og hreppstjórastörf.

Það hefir verið rjettilega tekið fram, að þessi hækkun mundi auka mjög útgjöld sýslusjóða, en jeg vil bæta því við, að eftir frv. er enginn efi á því, að sýslusjóðirnir yrðu einnig að greiða dýrtíðaruppbót af sínum hluta launanna. Jeg held, að það sje ótvírætt, þar sem beint er tekið fram í frv., að öll laun yfirsetukvenna skuli goldin að hálfu úr sýslu- og bæjarsjóðum og að hálfu úr ríkissjóði. Þetta held jeg að sje ómögulegt að skilja öðruvísi en svo, að sýslusjóðirnir eigi að greiða dýrtíðaruppbótina að sínu leyti. Hitt, að menn fái laun sín og dýrtíðaruppbót sitt úr hverri áttinni, væri heldur eigi í samræmi við þá reglu, sem gildir um starfsmenn ríkisins. Slíkt er aðeins til í einu tilfelli, að því er snertir barnakennara, og var sú undantekning gerð með sjerstöku lagaboði. Þetta gæti auðvitað orðið dómstólamál, en það virðist engin ástæða til að gera lagasmiðina þannig úr garði; að til slíks þurfi að koma.

Þá liggur fyrir brtt. á þskj. 258, frá þrem hv. þm., þar sem farið er fram á, að yfirsetukonur njóti, auk núverandi launa einna, dýrtíðaruppbótar eftir sömu reglum og starfsmenn ríkisins. Það er nú svo með þessa till., að hún er líka ef til vill tvíræð. Frv. segir, að á launin skuli greiðast dýrtíðaruppbót, en segir ekki, hvaðan hún eigi að greiðast, en þó er gefið í skyn, að hún skuli greidd af þeim aðiljum, sem skifta launagreiðslunni á milli sín. En till. segir, að yfirsetukonum skuli greidd dýrtíðaruppbót úr ríkissjóði, sem öðrum starfsmönnum þess. Nýjustu lögin um laun yfirsetukvenna voru sett 1919, sama ár og hin almennu launalög. Þá var ákveðin dýrtíðaruppbót á laun opinberra starfsmanna, en laun yfirsetukvenna urðu útundan, sennilega viljandi. Mjer finst ekki ástæða til að kippa sjer upp við það, þó að ríkið eigi að greiða dýrtíðaruppbót á laun yfirsetukvenna að sínum hluta, en jeg veit ekki nema það sje tilgangur flm., að það greiði hana að öllu leyti. En þar sem það stendur ekki ljóst í tillögunni, verður hún ekki skilin á aðra leið en jeg hefi sagt. Ef það er rjett, að meðallaun sjeu 250 krónur, þá er hluti ríkisins 125 krónur, og dýrtíðaruppbót á það mundi nema um 75 krónum. Það væri þá sú launahækkun, sem hjer væri um að ræða, tæpur 1/3 hluti af núverandi launum. Og getur maður ekki annað sagt, svona alment tekið, en að það væri ekki óviðeigandi úrlausn að fá 1/3 hluta bætt við þau laun, sem áður hafa verið goldin, en þó er ekki þar með sagt, að það sje að þessu sinni nóg eða hæfileg hækkun.