10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2189)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Háttv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (MJ) hefir lýst aðstöðu sinni til þessa frv. og rakið sögu málsins, og hefi jeg ekkert við frásögu hans að athuga. Það þarf ekki langt mál til að lýsa afstöðu minni hl. Það bar að vísu ekki svo mjög á milli nefndarhlutanna, að ekki mætti færa fram nokkrar líkur fyrir því, að yfirsetukonur sjeu ekki fullvel launaðar, en það mun vera svo um marga aðra opinbera starfsmenn. Það þekkjum við frá hverju þingi. Það hafa þráfaldlega komið fram kröfur um hækkun, og nú síðast frá þeim mönnum, sem eru einna hæst launaðir, þeir hafa líka getað gert sennilegt, að þeir hefðu ekki nógu há laun. Slíkum hækkunarbeiðnum hefir jafnan verið synjað, síðan 1919, af þeirri aðalástæðu, að menn óttast, að ef opnaðar eru dyrnar, muni verða erfitt að standa á móti kröfum, sem á eftir koma, en fyrst og fremst verður þó að líta á getur ríkissjóðs.

Í þetta sinn eru launakröfurnar mjög fast sóttar, eins og skilja mátti á ræðu hv. frsm. meiri hlutans (MJ). Það er ógnað með ljósmæðraskorti og jafnvel verkfalli. Það eru einna hörðustu vopnin, og auk þess eru hækkunarkröfurnar að þessu sinni sóttar á þeim vettvangi, sem einna erfiðast er að standa á móti.

Þó að jeg vilji ekki segja, að aðrir opinberir starfsmenn standi þarna á bak við, þá mundu þeir áreiðanlega líta á það með velþóknun, ef nú yrði sveigt til og hækkað eins mikið við þessa starfsmenn og gert er ráð fyrir í frv. Og það er engin smáræðishækkun, sem hjer er farið fram á, miðað við hvað launin voru fyrir lækkunina. Það er geysimikil hækkun.

Þetta er önnur hlið málsins. Hin hliðin er annars vegar sú, hver fjárhagslega getan er, og hinsvegar, hverjir eiga að greiða launin. Ríkissjóður greiðir ekki öll yfirsetukvennalaunin, heldur aðeins að hálfu í sveitunum, en bæjarfjelögin greiða að öllu laun yfirsetukvenna í bæjunum. Hjer er því farið fram á, að sje ákveðinn útgjaldaauki fyrir aðilja, sem ekkert hafa fengið að segja í málinu, en hafa hinsvegar mjög takmarkaðar tekjur, sem segja má einkum um sýslusjóðina. Upphæðin mun nema 2–3 þúsund króna til jafnaðar í hverri sýslu. Við minni hl. menn teljum því alveg ófært að samþ. frv. nú þegar. Það gæti komið til mála, þegar búið er að ná samkomulagi við hina aðiljana.

Hinsvegar viðurkennir minni hl. nefndarinnar, að það er alls ekki sanngjarnt, hvernig farið hefir um laun þessara starfsmanna, að því leyti, að þeir einir allra opinberra starfsmanna hafa enga dýrtíðaruppbót fengið. Jeg veit ekki ástæðu fyrir því, að þessir starfsmenn skuli einir hafa orðið út undan. Líklega er það vegna þess, hvað margir aðiljar standa að því að greiða laun þeirra. Að þessu leyti er greinilegt misrjetti í launakjörunum. Við teljum því eðlilega lausn á málinu þá, að yfirsetukonum sje áskilin dýrtíðaruppbót nú þegar á ríkissjóðshluta launa þeirra og jafnframt sje skorað á hina aðra aðilja, sem hlut eiga að máli, að gera það sama. Jeg ætla því, fyrir hönd minni hl. nefndarinnar, að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá, og tek þá um leið aftur till. minni hl. að vísa málinu til stjórnarinnar:

„Þar sem þingdeildin álítur, að sanngjarnt sje, að yfirsetukonur fái dýrtíðaruppbót á laun sín eins og aðrir starfsmenn, og þar sem deildin álítur, að ríkisstjórnin geti samkvæmt ákvæðum laga nr. 16, frá 13. júní 1925, greitt yfirsetukonum dýrtíðaruppbót á ríkissjóðshluta launa þeirra, þá ályktar deildin, um leið og hún hún beinir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að greiða að sínum hluta slíka dýrtíðaruppbót og til bæjarstjórna og sýslunefnda að greiða einnig dýrtíðaruppbót að sínum hluta, eftir því sem þeim þykir fært og nauðsynlegt, — að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Jeg skal svo að lokum aðeins geta þess, að leitað hefir verið álits stjórnarinnar um það, hvort heimilt væri samkvæmt núgildandi lögum að greiða dýrtíðaruppbót af ríkissjóðshluta launánna, og hún álítur, að heimildin til þess felist í þeim lögum, sem vísað er til í dagskránni.