22.03.1926
Neðri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

76. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Sveinn Ólafsson:

Svona stórt mál vekur eftirtekt og á virðingu skylda, og mig furðar á því, að ekki skuli fleiri hafa kvatt sjer hljóðs eftir að hafa hlustað á ræðu hv. flm. (JörB). Jeg er honum í rauninni þakklátur fyrir þá fögru drauma, sem hann hefir dreymt og skýrt hjer frá, en ýmsa fleiri hefir dreymt líka drauma um stórfeld samgöngutæki, og þeir hafa eigi rætst.

Það væri að sjálfsögðu ótilhlýðilegt, að ætla sjer að þegja slíkt mál í hel sem þetta er, enda geri jeg ráð fyrir, að því verði vísað til 2. umr. og nefndar, hvað sem eftir fer.

Jeg get sagt fyrir mig, að jeg get venjulega stutt með ljúfu geði þær till., er lúta að bættum samgöngum, því að það er trúa mín, að góðar samgöngur sjeu lyftistöng líkamlegrar og andlegrar velmegunar þjóðarinnar. En vitanlega á þetta þó því aðeins við, að mögulegt sje að veita stuðning slíkum fyrirtækjum, og að þau sje ekki ofvaxin þjóðfjelaginu og lami um leið alla viðleitni aðra til þess að búa í haginn fyrir ókomna tímann.

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) benti á eftirtektarvert atriði í sambandi við þetta mál, það atriði, sem öllum er minnisstætt, er talað var um það hjer í hv. deild fyrir fáum dögum, að ríkissjóður mætti, eigi fjárhagsins vegna leggja í kaup á litlu strandferðaskipi, til þess að greiða úr þeim samgöngum, sem mest eru á eftir tímanum. Skipið kostaði þó í mesta lagi 4–500 þús. krónur, en nú er á sama tíma ráðgert, og að því er virðist af hæstv. stjórn, að ríkissjóður ráðist í margra miljóna fyrirtæki slíkt og þetta er. Því er haldið fram, að hartnær 1/3 hluti allra landsbúa muni njóta góðs af þessu fyrirtæki, en jeg held því hiklaust fram, að miklu fleiri mundu hafa not af strandferðaskipi, sem vart kostar meira en 1/20 af brautarverðinu.

Annars virðist mjer, að þá er um er að ræða undirbúning aukinna samgagna, þá sje um þrjár leiðir að velja, er komi í þessari röð:

1. Að auka þær samgöngur, sem skemstan tíma taka, flestum verða að gagni og minst fé heimta, en það eru tvímælalaust samgöngur á sjó.

2. Að reyna að tengja saman hjeruð landsins með akfærum vegum, einkum þau, sem síst njóta strandferða, en það er skamt á veg komið enn, nema þá helst á suðvesturhorni landsins.

3. Að reyna að koma upp járnbraut, þegar hitt er fengið, þar sem flutningaþörfin er mest og einhver möguleiki til þess, að hún geti borið sig. Nú veit jeg ekki, hvort slíkir möguleikar eru á þessum stað, enda þótt jeg hafi lesið álít sjerfróðra manna um þetta. Þeir hafa að mínu áliti ekki hitt naglann á höfuðið í útreikningum sínum og víða bygt á hæpnum tilgátum. Það má þó vera, þegar fram í sækir, að það reyndist fjárhagslega kleift að reka slíkt fyrirtæki, en til þess hygg jeg að margt þurfi að breytast.

Jeg kann betur við að taka þetta fram áður en málið gengur lengra, svo að eigi verði ráðið af þögn minni, að jeg sje frv. samþykkur, eða bygðar á þögninni falskar vonir. Ef komnir væru akvegir um aðalhjeruðin og samgöngur góðar með ströndum fram, mundi mjer ekki annað kærara en styðja að því, að þetta þriðja og stærsta spor yrði stigið, ef efni leyfðu og aðrar betri leiðir vantaði. Alþingi hefir um langt skeið lagt áherslu á bættar samgöngur á landi, og eins og allir vita hefir verið fórnað miklu fje til samgöngubóta. En þær hafa alt að þessu lítið náð til annara landshluta en hjeraðanna hjer við Faxaflóa og austan fjalls.

Jeg get ekki fallist á þá kenningu hv. 2. þm. Árn. (JörB), að akvegur austur yfir fjall geti ekki að liði komið vegna votviðra og úrfella, eða að hann endist miður hjer en alstaðar ella. Fyrir þeirra hluta sakir er ekki nauðsynlegt að ráðast í þau fyrirtæki nú, er valda kyrstöðu um aðrar samgöngur um óákveðinn langan tíma. Austurland er talinn úrkomusamasti hluti landsins, — mesta úrfellismagn á landi hjer hefir reynst við Berufjörð — og ætti því að gilda hið sama um vegagerð þar og hjer að þessu leyti. En jeg hefi ekki annars orðið var, en að akfærir vegir þar –sem varla teljast aðrir en Fagradalsbrautin — hafi staðist umferð álíka vel og annarsstaðar á landinu.

Það getur verið, að jeg með þessum andmælum gegn frv. baki mjer óvild einhverra. Við því verður ekki gert, jeg verð að koma til dyranna eins og jeg er klæddur, og tel rjett að koma fram með þessar athugasemdir áður en meira er að gert.