16.03.1926
Efri deild: 29. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2753)

41. mál, leiga á skipi til strandferða

Jónas Jónsson:

Jeg stend ekki upp af því að jeg sje ekki samdóma hv. sessunaut mínum um, að enginn ágreiningur muni vera um þetta mál. En af því að jeg hefi haft nokkur afskifti af þessu máli, og af því að þessi tillaga er byrjun að stærra verki, vildi jeg segja nokkur orð.

Eins og sjá má af þskj. 60, höfum við, sem skipaðir vorum á síðasta þingi í milliþinganefnd þá, sem gera skyldi tillögur um skipun strandferða, lagt fyrir Alþingi nokkrar tillögur um þetta efni. Við greindum þessar tillögur sundur í aðaltillögur og aukatillögur. Nú hefir hv. samgmn. tekið síðasta lið till. og borið fram, um að leigja skip til strandferða 4 mánuði að haustinu. En því fer fjarri, að hjer sje nokkur veruleg bót ráðin á strandferðafyrirkomulaginu til frambúðar. Þær hafnir, sem verst eru settar, njóta hjer lítils af. Það er staðreynd, að útlend skip fást ekki til að koma á lökustu hafnirnar, eins og t. d. Hornafjörð og hafnirnar við innanverðan Breiðafjörð, Búðardal o. fl., nema fyrir mun hærra vátryggingargjald en borgað er fyrir strandferðaskip landssjóðs.

Jeg vildi, að hv. deild gerði sjer ljóst þegar í byrjun, að hjer er aðeins að ræða um bót á gamalt fat. Mjög bráðlega hlýtur að koma fram hörð krafa um, að bygt verði nýtt strandferðaskip, þó að slík tillaga hafi nýlega fallið í Nd. með örlitlum meiri hluta.

Það má skifta höfnum umhverfis landið í þrjá flokka. Fyrst má nefna hafnir eins og Akureyri, Seyðisfjörð, Ísafjörð og Reykjavík, sem hafa góðar samgöngur með útl. skipum og skipum Eimskipafjelagsins. Næst má t. d. nefna hafnir í Suður-Múlasýslu, Strandasýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem eru svo, að þangað getur hvert skip komið. En millilandaskipin sinna ekki þessum höfnum, nema nægar vörur sje að flytja. Þau nægja því ekki til fólksflutninga. Þó eru þessar sýslur þeim mun betur settar en þær hafnir, sem má telja til 3. flokks, að Esja kemur þar nokkuð oft. Í þriðja flokki má telja þær hafnir, sem svo eru þröngar eða grunnar, að millilandaskip koma þar aldrei og „Esja“ sjaldan. Þangað má heita að engar samgöngur nái. Í Dölum var mjer sagt í vor, að 4–5 hreppar þar myndu hafa tapað alt að 20 þús. kr. í tvöföldum farmgjöldum á því að hafa ekki betri samgöngur. Þetta leiguskip bætir alls ekki úr þörf erfiðustu hafnanna, enda er ekki gert ráð fyrir, að það verði hjer nema nokkra mánuði að haustinu. En það mun bæta dálítið úr fyrir Eimskipafjelaginu, sem á erfitt með flutninga á haustin. Í raun og veru er hjer frekar um að ræða uppbót á millilandaferðum en strandferðum, því að sennilega verður lítið farþegarúm í þessu skipi, og vegna vátryggingargjaldsins kemur það ekki á þær hafnir, sem verst eru settar.

Jeg vildi aðeins benda hv. deild á, hve skamt þetta úrræði nær. Meðan ekki er bygt nýtt skip, er helming þjóðarinnar gert rangt til.