15.02.1926
Efri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að vera langorður: Tilgangur þessa frv. er auðsær, sem sje sá, að koma í veg fyrir, að happdrætti og tombólur sjeu notaðar meir en góðu hófi gegnir. Það er alkunna, að hlutaveltur eru mikið notaðar af ýmsum fjelögum, og reglan mun að vísu vera sú, að leyfi lögreglustjóra sje fengið til að halda þær. En þó er það ekki skylda, en ef þetta frv. verður að lögum, þá er vissa fengin fyrir því, að hlutaveltur verða ekki haldnar án lögreglustjóraleyfis.

Það var minst á það við l. umr., að frv. væri ekki nógu skýrt til þess að útiloka happdrætti við verslanir. Nefndin tók þetta til greina, og til þess að koma í veg fyrir þessa óheppilegu verslunaraðferð, gerði hún þá breytingu á frv., að hún bætti við á eftir orðinu „happdrætti“ í l. gr. orðunum: „hverrar tegundar sem er.“ Nefndin vill álíta, að dómsmálaráðherrann muni ekki veita leyfi til slíks happdrættis, ef deildin með því að samþykkja þetta álítur það óviðeigandi.

Jeg álít ekki þörf á að fara frekari orðum um þetta að sinni, en leyfi mjer að leggja til, að frv. verði samþykt með brtt. á þskj. 21.