08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2823)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Jónas Jónsson:

Jeg hefi ekki sannfærst um nauðsyn þessa máls af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), þótt vera kunni, að jeg sannfærist, ef frekari rök koma. En jeg óska þess, að málinu verði ekki hraðað svo hjer í þessari hv. deild eins og gert var í hv. Nd., þar sem það var afgreitt með tvennum afbrigðum. Slíkur flýtir og undanþágur eru venjulega viðhöfð, þegar vafamál er á ferðinni.

Það er annars ýmisl., sem ástæða væri að taka til athugunar, viðvíkjandi þessari eftirgjafarbeiðni, Það er beðið um, að ríkissjóður gefi eftir 2. veðrjett fyrir veðskuld, sem fyrirsjáanlegt er að ríkissjóður verður að borga, og þessi beiðni er rökstudd með því, að tiltekin lánsstofnun vilji lána fjelaginu fje, ef þessi veðrjettur fáist eftirgefinn, og því er bætt við til árjettingar, að þessi veðrjettur ríkissjóðs, sem verið er að biðja um eftirgjöf á, sje, eins og nú standi, alveg einskis virði. Þetta verður maður að taka sem trúaratriði aðeins, — að Íslandsbanki vilji lána stórfje út á veð, sem sje einskis virði. Þá er sagt, að fjelagið muni jafnvel leysast upp í lok þessarar vertíðar. Hvað er þá unnið við, að ríkissjóður gefi Íslandsbanka eftir þennan 2. veðrjett sinn eða rjettara sagt vonina í þessum veðrjetti? Öll málafærslan í þessu eftirgjafarmáli gerir málið veikara og ótrúlegra. Hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að veðið fari mikið eftir gildi íslenskrar krónu. Eftir því mætti ætla, að ef gengið hefði ekki breyst, mundi veð ríkissjóðs í togurunum hafa verið talið allgott. Nú veit enginn, hvernig gengi peninganna verður varið í vertíðarlokin, eða eftir 1–2 ár að minsta kosti, en margir eru þeirrar skoðunar, að íslenska krónan muni hrapa í verði á næstunni, því útlitið með vertíðina sje alls ekki gott. Ef það er rjett, að gengið breyti gildi veðsins, verður að álíta veðið óútreiknanlegt; en hitt er víst, að það er verið að fara fram á, að ríkið gefi eftir alla von um, að nokkuð hafist upp úr þessum veðrjetti, ef möguleikarnir til að hafa eitthvað upp úr því, eru undir genginu komnir.

Það er ilt, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefir enga aðra skilagrein gefið um rekstur fjelagsins en þá, að hann hefir sagt frá því, að nokkur hluti tekjuskatts fjelagsins frá síðasta ári sje enn ógreiddur og að vonlaust sje um, að hann fáist nokkurntíma. En það hefir flogið fyrir, að fjelagið hafi greitt hluthöfunum stórkostlegan arð. Sje það satt, og svo hitt, að fjelagið hafi varið 150 þús. kr. í viðgerð á togaranum, en engan tekjuskatt þóst geta greitt, þykir mjer skörin vera farin að færast upp í bekkinn, er fjelagið kemur og biður um þessa eftirgjöf. Þá er heldur varla von til, að fjelagið geti rjett hag sinn, ef það hefir greitt hluthöfunum alt of háan arð. Þetta finst mjer vera athugunarefni fyrir væntanlega nefnd, sem fengi mál þetta til meðferðar. Jeg veit ekki, hvort það fer til nefndar, sem jeg á sæti í, en jeg vildi gera það að tillögu minni, að væntanleg nefnd athugaði þessi atriði, sem jeg nefndi. Mjer þætti og rjett, að nefndin athugaði, hvort ekki væri hægt að koma því til leiðar, að einstakir efnamenn innan fjelagsins tækju að sjer ábyrgð á veðinu gagnvart ríkissjóði, að einhverju eða öllu leyti. Jeg vil rökstyðja þetta með því, að það verður að teljast óeðlilegt að fara fram á tilfærslu á veðrjetti, sem er einskisverður, en það væri hann ekki, ef þessar ábyrgðir fást. En neiti fjelagsmenn að veita þessar bakábyrgðir, verður það að skoðast sem vottur þess, að þeir hafa sjálfir enga trú á framtíðarmöguleikum fjelagsins, eða þá að þeir vilja ekki hætta fje sínu til þessa og hirða ekkert um að láta fjelagið standa í skilum við ríkissjóð. Ef þeir neita að leggja þetta í hættu, eiga þeir ekki skilið að fá þessi hlunnindi hjá ríkissjóði, sem þeir biðja um.

Jeg spyr hæstv. ráðh. (JÞ): Er það siðferðilega rjett að veita þeim þessa eftirgjöf, ef þeir vilja ekki láta ríkissjóði í tje umrædda bakábyrgð? Hafi þeir þá trú á fjelaginu, að þeir geri þetta, ætti það að vera kaups kaups, að ríkissjóður veitti þeim umbeðna ívilnun. Vilji fjelagsmenn aftur á móti engu hætta til, sje jeg ekki ástæðu til að veita nokkra ívilnun eða yfir höfuð að hjálpa fjelaginu á annan hátt. Það má þá leysast upp þegar í stað. Jeg tel það alls ekki drengilega eða heiðarlega framkomu af hendi fjelagsmanna, sem eru sumir efnaðir og eiga miklar sjereignir, ef þeir hirða ekkert um að láta fjelagið standa í skilum í viðskiftum þess við ríkissjóð. Þótt þeir sjeu máske ekki lagalega til þess skyldir að fórna fje sínu til að rjetta hlut fjelagsins, eru þeir þó siðferðilega skyldir til þess.

En annars trúi jeg ekki mikið á allar þessar líkur, sem tilfærðar eru um allsleysi fjelagsins. Jeg hygg, að það sje verið að umskapa fjelagið eða að endurreisa það á öðrum og nýjum grundvelli, og að þessi tilfærslubeiðni sje aðeins tilraun til þess að komast einu skrefinu lengra í þá átt.

Jeg veit til þess, að nýlega hefir einn duglegur maður úr stjórn fjelagsins safnað um 100 þús. kr. í hlutafje meðal bænda og búaliðs í einni af sveitum landsins, og fari fjelagið á höfuðið, verða vitanlega margir þessara smáhluthafa illa úti. En gróðavonin er fyrir þá, sem kaupa eignimar og byrja á nýjan leik.

Hæstv. fjrh. (JÞ) þykist vera reyndur fjármálamaður og getur því vel skýrt þetta fyrir deildinni. Hann hlýtur að játa, að líkur eru til þess, eins og nú er ástatt fyrir fjelaginu, að einhver fjelagsmaður eða stjórnandi geti haft fyrirætlanir um að kaupa upp eignir fjelagsins og byrja þannig með það á nýjan leik, eða stofna nýtt fjelag. Jeg vil því, að fjelagsmenn verði látnir taka á sig ábyrgð á veðinu gagnvart ríkissjóði. Þeir mundu með því ávinna sjer álit, og þeir gætu ef til vill rjett við hag fjelagsins. Jeg veit líka, að eins og nú er ástatt um mörg þessi atvinnufyrirtæki, geta þau fleiri orðið þannig stödd, að tvísýnt verði um framtíð þeirra, ef þessi gengishækkun heldur áfram, eins og margir vilja láta hana gera, og verður þá erfitt fyrir ríkið að neita um svipaðar ívilnanir eða hjálp, ef þessu fjelagi verður veitt margumrædd tilfærsla á veðrjettinum.

Það var ein setning í ræðu hæstv fjrh. (JÞ), sem jeg hjó eftir. Hann sagði, að það ætti fremur að gefa veðrjettinn eftir, vegna þess, að veðið hefði batnað vegna viðgerðarinnar á togurunum. Það væri fróðlegt, ef hann vildi skýra þetta nánar. Hann er sjálfur stjórnandi í stóru einkafyrirtæki. Mundi hann vilja láta sitt fyrirtæki gera slíkt, ef það væri nú statt í sporum ríkissjóðs?

Ef það er svo, að veðrjettur þessi sje ríkissjóði einskis nýtur, en Íslandsbanki geti aftur á móti haft hans einhver not, vil jeg benda á, að með þessari ívilnun, sem beðið er um að Alþingi veiti, er verið að hjálpa til þess að ummynda fjelagið handa einhverjum núverandi stjóraanda þess. En landssjóður á, að sögn stjórnarinnar, að græða á því, að veðið hefir batnað fyrir viðgerð skipanna, einmitt um leið og hann gefur veðið eftir og lokar öllum möguleikum til að fá nokkum eyri upp í skuld sína.