05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (2914)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skilst, að hjer geti verið um tvær leiðir að ræða í þessu máli. önnur er sú að brúa öll vatnsföllin, Þverá, Markarfljót, Affallið og Álana. Annars er það ekki trygt. Hin leiðin er að veita vötnunum saman og brúa í einu lagi. Jeg skal ekki dæma um, hvor leiðin sje betri, en mjer finst skylda að rannsaka, hvort ekki sje hægt að komast af með fyrirhleðslu, því að brýr allar kosta stórfje og með þeim ekki fyrirbygðar skemdir af ánum. Með tilliti til þessa get jeg fallist á tillögu hv. samgöngumálanefndar, en jeg tek það fram, að ef það verður ljóst, að fyrirhleðslan fyrir Markarfljót hafi hepnast vel, en það aftur orðið þess valdandi, að varnargarðurinn austan þess, undir Eyjafjöllum, reynist þá ónógur eða skemmist, verður ríkið að koma til skjalanna og láta bæta þær skemdir, því að það má ekki eiga sjer stað, að vatni sje veitt af einum stað á annan og valdi þar skemdum.

Jeg tek undir það með hv. 1. þm. Rang. (EP), að þó verkið sje nú aðeins áætlað að kosta 5 þús. kr., getur vel svo farið, að kostnaðurinn verði miklu meiri. Ályktun þessi er aðeins um heimild handa ríkisstjórninni til að hefjast handa, en álíti t. d. vegamálastjórinn alls ekki fært að gera brýr eða annað, er stjórninni ekki skylt að gera það.

Um áveitur í Landeyjum hafa enn engar ályktanir verið teknar, en jeg segi hv. 3. landsk. (JJ) það, að það er leiðinlegt, að allar þessar ár, Markarfljót, Þverá, Þjórsá o. fl., bera alt sitt mikla frjómagn til sjávar, án þess það komi landbúnaðinum að neinum notum. En ef það á að fara að breyta farvegi Markarfljóts, má athuga þessa hlið málsins um leið, því enn þá hefir engin ákvörðun verið tekin um það, hvernig farið verður að því. En fyrst af öllu verður að ljúka við þær stóráveitur, sem nú eru í undirbúningi eða framkvæmd, áður en ráðist verður í aðrar stærri. Mál þetta er ekki tímabært enn þá. En mjer er ánægja að taka undir það með hv. 3. landsk. (JJ), að þetta atriði á skilið að verða rannsakað betur síðar, en ekki síst ef vel gengur með Flóaáveituna.

Garðurinn undir Eyjafjöllum vestanverðum verður áreiðanlega of veikur, ef Markarfljóti verður veitt í einn farveg; hann var aðeins bygður með það fyrir augum að standast það vatn, sem venjulega er í Markarfljóti, meðan Þverá fellur þar fram, sem hún hefir gert undanfarið. Verði Þverá veitt yfir í Markarfljót, verður garðurinn alt of veikur.