08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (2979)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Eggert Pálsson:

Jeg skal fúslega viðurkenna, að hjer er ekki um þá upphæð að ræða, að ástæða sje til að telja hana eftir, ef nefndin felst á að mæla með henni, svo um það ætla jeg ekki að tala.

En það var viðvíkjandi því, sem hv. flm. (JJ) sagði um Djúpós-fyrirhleðsluna, að jeg fann ástæðu til þess að standa upp. Jeg hefi altaf heyrt því haldið fram af kunnugum mönnum, að það hafi verið meining vegamálastjóra frá upphafi að hlaða í ósinn eða teppa hann á líkan hátt og gert var. En hann vildi ekki láta það álit sitt uppi opinberlega, vegna þess, að hann gat átt á hættu, að verkið strandaði. Því hefði hann látið uppi, að teppa ætti í ósinn, þá mátti búast við, að Vestur-Landeyingar yrðu á móti því, og færðu sem ástæðu fyrir því, að vatnið mundi flæða inn í Valalæk og spilla til stórra muna víðáttumiklu engjaflæmi. Þetta hefi jeg eftir mönnum, sem töluðu einslega við vegamálastjóra og töldu einmitt, að honum hefði farist viturlega, að láta ekkert uppi um hinar endanlegu fyrirætlanir sínar. Mjer fanst ástæða til að skýra frá þessu, en sel það vitanlega ekki dýrara en jeg keypti.

Annars geri jeg ráð fyrir, að málið fari til nefndar, og verður nefndin þá, eftir þeim gögnum, sem fram koma, að skera úr, hvort bíll þessi muni okkur hentugur eða ekki.