14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

123. mál, launauppbót símamanna

Flm. (Jakob Möller):

Jeg þakka hæstv. atvrh. (MG) og þeim hv. þdm., er tekið hafa til máls, fyrir undirtektir þeirra. En jeg skal aftur taka það fram, að till. mín getur ekki verið bindandi fyrir ríkisstjórnina. Það er aðeins áskorun til hennar, ef samþ. verður, enda sjest það á því, að till. er ekki bundin við það, er þingsköp heimta, um formlegar fjárveitingatill.

Jeg skil vel afstöðu hæstv. stjórnar, því að hún á í vök að verjast. Það koma víða að umkvartanir um slæm launakjör, en þó er varla vafi á því, að þessi stjett er einna lakas.t sett. (TrÞ: Viðurkenning á því liggur í fjárlögunum). Jú, það er rjett. Í öðru lagi ber að gæta þess, í samanburði á þessum mönnum og t. d. starfsmönnum stjórnarráðsins, að það er stórmunur á vinnutíma þeirra. Þessir menn verða að vinna altaf af og til frá því kl. 8 á morgnana og fram til miðnættis, og það, sem mestu skiftir, er það, að þeim verður ekkert gagn að frítímum sínum. Þeir geta ekki stundað neina aðra vinnu. En starfsmenn stjórnarráðsins hafa ákveðinn vinnutíma og geta ráðið sjálfir yfir frítíma sínum. Þar að auki hygg jeg, að þeir hafi hærri byrjunarlaun en þessir, þótt jeg hafi ekki fyrir mjer samanburð um það efni.

Jeg vona, að hv. deild taki till. vel, eins og ræður hv. þdm. hafa bent til, og að hæstv. stjórn geri svo sitt besta.