04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Hákon Kristófersson:

Viðvíkjandi kostnaðinum, sem hv. 2.þm. Rang. (KlJ) var að tala um, þá vildi jeg taka það fram, að jeg tel það leiða af sjálfu sjer, eins og þáltill. felur í sjer, að það sje lagt í hendur stjórninni, hvernig hún hagar framkvæmdunum, og treysti jeg henni vel til þess, ef hún á annað borð telur hag ríkissjóðs það góðan, að hann geti borið kostnaðinn af mælingum þeim, sem ætlast er til að ráðist sje í að framkvæma.

Og þrátt fyrir þá brýnu nauðsyn, sem jeg tel vera á því, að mælingarnar á Breiðafirði verði framkvæmdar sem fyrst, þá mun jeg þó ekki koma með brtt. við fjárlögin, til þess að tryggja mjer, að þær mælingar, sem jeg ber sjerstaklega fyrir brjósti, fari fram á næsta ári.

Um það, að landhelgisgæsluskipin annist eitthvað af þessum mælingum, verð jeg að segja fyrir mitt leyti, að jeg er ekki á móti því, ef það verður ekki til þess að draga úr gæslunni, svo að mjer virðist engin fjarstæða eða goðgá að minnast á þetta. Næsta ár má líka búast við, að þau verði orðin þrjú strandvarnarskipin, svo að þá ætti að verða hægra um vik fyrir þau að skifta þessu á milli sín.

En hitt verð jeg að segja, að mjer finst helst til mikið alvöruleysi skjóta hjer upp hausnum á Alþingi, þegar hv. þm. höfuðstaðarins varpa fram í deildinni þeirri spurningu (þótt að vísu væri gert með innskoti í ræðu utanbæjarþingmanns), hvort ekki mundi tími til kominn, að tjörnin hjerna í borginni yrði mæld upp. Þetta á að sýna lítilsvirðingu þeirra fyrir kröfum manna utan af landi, að það sje ekki meiri ástæða til að fjölga þeim stöðum kringum land, sem skip geta hafnað sig á, heldur en að mæla upp þennan forarpoll höfuðstaðarins. Jeg verð nú að segja fyrir mitt leyti, að hv. 2. og 4. þm. Reykv. (JBald og MJ) sjeu lítið þakkarverðir fyrir slíkt. (Fjrh. JÞ: Þeir eiga ekki allir óskilið mál þar). Það er satt. Hæstv. ráðh. (JÞ) undanskil jeg, en tveir þingmenn Reykv. hafa þó ymprað á þessu.