14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

89. mál, eftirgjöf á skuld

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg verð að svara fyrirspurninni á þskj. 234 þannig, að stjórnin hefir ekki haft nein afskifti af þessari eftirgjöf, sem hjer ræðir um. Það hefir verið svo um tóbakseinkasöluna, að framkvæmdarstjóri hennar hefir að öllu leyti staðið fyrir rekstri hennar, án þess að það kæmi til stjórnarinnar, nema hvað ráðherra hefir samkv. reglugerð lagt samþykki sitt á verðlag, þegar verðbreyting hefir orðið á vörunni.

Jeg vissi því ekkert um þetta, þegar fyrirspurn þessi kom fram. En í tilefni af henni fjekk jeg upplýsingar hjá forstjóra Landsverslunar, sem jeg er nú reiðubúinn að leggja fram, enda skilst mjer, að það sje tilætlunin með fyrirspurn þessari að fá þær upplýsingar, sem hjer eru fyrir hendi.

Kaupfjelag Reykjavíkur skuldaði Landsverslun í ársbyrjun 1923 rúmlega 8 þús. kr. Svo á árinu 1923 fóru fram aukin viðskifti milli K. R. og tóbakseinkasölunnar, með þeim árangri, að í árslokin er K. R. komið í alt að 30 þús. kr. skuld. En umsetningin var þó meiri, eða að meðtalinni skuldinni frá í ársbyrjun um 50 þús. kr. Af þessu sjest, að fengist hefir greiðsla á um 20 þús. kr. á árinu.

Í brjefi um þetta frá forstjóra tóbakseinkasölunnar segir svo:

„Þegar farið var að gera gangskör að innheimtu skulda hjá fjelaginu, kom það í ljós, að það var komið í megnustu fjárþröng. Það varð þá að ráði með hinum stærri stofnunum, sem við fjelagið höfðu skift, að taka sameiginlega ákvörðun um það, hvað gera skyldi“.

Og forstjórinn telur upp þrjár stofnanir, sem auk tóbakseinkasölunnar tóku það ráð að gefa upp nokkurn hluta skuldanna, með því að það þótti hyggilegra en gera fjelagið gjaldþrota, eins og þá var ástatt. Meðal þessara stofnana var Landsbankinn, sem gekk inn á að gefa upp helminginn af skuld fjelagsins við hann, og ennfremur eitt útlent firma með hærri eftirgjöf og eitt innlent með ámóta eftirgjöf og Landsbankinn.

„Þótt jeg í fyrstu væri tregur til þess að ganga að þessu samkomulagi, þá hefi jeg síðan sannfærst um, að það hafi verið rjett og hyggilega ráðið að ganga að þessum nauðasamningi, ef svo mætti að orði komast, því ella mundi skuldin hafa tapast að mestu. Síðan þessi samningur var gerður hefir fjelagið staðið í skilum með afborgun og vexti“.

Þetta segir forstjórinn. Jeg hefi nú 9. apríl beiðst dálítið nánari upplýsinga um þetta og fengið hjer meðal annars afrit af samningi tóbaksverslunarinnar og K. R. hjer að lútandi. Þessi samningur er gerður 14. febr. 1925 og inniheldur ekki annað en það, að K. R. eða stjórn þess viðurkennir þessa skuld, 15 þús. kr., sem er sá hluti skuldar fjelagsins við tóbakseinkasöluna, sem ekki var eftir gefinn, og skuldbindur fjelagsstjórnin fjelagið til þess að greiða hana með 2 þús. kr. á ári fyrir 1. júlí ár hvert, auk 6% vaxta, uns hún er að fullu greidd. Trygging er engin fyrir skuldinni. Þar að auki inniheldur samningurinn venjuleg ákvæði um það, að ef umsamin afborgun sje ekki greidd í rjettan gjalddaga, þá sje skuldin öll fallin í gjalddaga fyrirvaralaust.

Loks hefi jeg spurt forstjórann, á hverju hann bygði heimild sína til þess að gefa upp slíkar skuldir, og svaraði hann því, að hann hafi litið svo á, að það fælist í umboði því, sem hann hefði til þess að annast þennan verslunarrekstur fyrir hönd ríkisins, enda hefðu ekki verið gefnar upp aðrar skuldir en þær, sem reynst hefðu ófáanlegar.