13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

12. mál, kynbætur hesta

Gunnar Ólafsson:

Það var nánast til þess að rifja upp gamlar sakir, að jeg kvaddi mjer hljóðs. Þegar frv. þetta var hjer síðast til umr. í þessari hv. deild, gerðu tveir hv. þm. nokkurn hvell að frv.: það er vitanlegt, að frv. var þá í 4. sinni ti1 umræðu hjer í deildinni, en þó varð það þá fyrst, sem þessir hv. þm. komust að niðurstöðu um, að málið var ekki nógu vel athugað enn, frá þeirra sjónarmiði sjeð. Þeir báðu því hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá og fresta umr., og var það gert. Samtímis átaldi hv. 1. landsk. (SE) landbn. fyrir að hún hefði ekki lagt nógu mikla rækt við málið, nefndarálitið væri svo stutt og óljóst orðað. Hann kvaðst og ekki enn hafa haft nægan tíma til að átta sig á málinu, og varð því að fá frest á umræðunum, til íhugunar og lagfæringar. Jeg skal að vísu játa, að nál. var ekki langt, það er að finna á þskj. 119, en um leið skal jeg taka það fram, að nefndin taldi ekki rjett að gera hjer úlfalda úr mýflugu, skrifa langt mál um það, langt mál í nál., sem öllum er ljóst og margendurtekið og rætt í báðum deildum þingsins. Málið er og í sjálfu sjer ofureinfalt. Það hefir verið samþykt í hv. Nd. í annað sinn, og landbúnaðarnefnd þessarar deildar hafði ekki annað að segja um frv. eftir eina umræðu í hv. Nd. og breytingar þær, er þar voru gerðar, en að þær væru til bóta eins og frsm. nefndarinnar hafði í framsöguræðu tekið fram. Þetta segi jeg til þess að bera af nefndinni þær sakir, er á hana hafa verið bornar.

Svo kemur að því, er málið var tekið út af dagskrá samkv. ósk þessara tveggja háttv. þm., þá keppast þeir við að bera fram brtt. við frv. og flýta sjer svo að því, að þeir geta ekki einu sinni orðið samferða með þær. Háttv. 1. landsk. varð fyrri til; hann kemur strax með tillögu um að fella burtu undanþáguna konum til handa frá því að vera í kynbótanefnd. En þá var sá ljóður á brtt. hans að hún mundi ekki löglega upp borin. Og þá kemur það, að háttv. þm. A.-Húnv. ræðst í að bjarga þessu. Hann kemur með nýja brtt.brtt. sýnist að vísu vera meinlítil, fljótt á litið. En við nánari athugun sjest, að hún fer krókaleið að sama marki og fyrri brtt., frá hv. 1. landsk., sem hæstv. forseti úrskurðaði, að ekki gæti komið til umræðu eða atkvæða. Brtt. hv. l. landsk. var það skárri, að hún gekk beint framan að markinn, en þessi síðari brtt., frá hv. þm. A-Húnv., kemur krókaleiðir, á hlið við og aftan að því, sem um er að ræða.

Þegar frv. var hjer áður til umr., hafði háttv. þm. A.-Húnv. alt á hornum sjer því viðvíkjandi; hann var óánægður með frv. af ýmsum ástæðum, að hann sagði og átaldi landbn. fyrir meðferð hennar á því. Hann sagði og þá, að breytingar hv. Nd. væru vart til bóta á frv. En nú segir hann, að frv. hafi síst versnað, það sje jafnvel betra eftir að það kom aftur úr Nd. Jeg bendi á þetta til þess að sýna fram á ósamræmið í framferði hv. þm. í þessu máli. Þetta er að minsta kosti „loðin“ afstaða til málsins. En nú tekur hann skýrt fram, að frv. hafi batnað í Nd., og á hann þakkir skilið fyrir þá tilbreytni til bóta á sínu framferði. En eins og hæstv. atvrh. sagði, tel jeg ekki brtt. þessa háttv. þm. þess verða, að deildin ætti að samþykkja hana og senda síðan frv. í Sþ. Jeg tel betur sæma þessari hv. deild að samþykkja frv. eins og það kemur nú frá hv. Nd. en að vera að hringla við að ná burt úr 2. gr. þessum hjer um þrættu orðum og koma því þar með í sameinað þing. Auk þess gengur það næst móðgun við hv. deild að ætlast til þess, að hún hlaupi frá því, alveg að ástæðulausu, sem hún hefir áður samþykt í þessu máli, hvort sem brtt. koma beint fram eða eftir krókaleiðum, eins og hjer á sjer stað hjá háttv. þm. A.-Húnv.

Jeg leyfi mjer því að mælast til þess, að hv. deild samþykki frv. eins og það nú er.