29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, fjárlög 1927

Klemens Jónsson:

Jeg get sannarlega lofað að vera stuttorður, því að það stendur svo á, að jeg á enga brtt. við þennan kafla, fremur en hinn. Þær till., sem jeg mundi hafa komið fram með, hafa verið teknar upp í fjárlögin. Á jeg þar við, að í fyrra bar jeg fram till. um styrk til að hefta sandfok í Rangárvallasýslu og koma upp gróðrarstöð. Þessi styrkur fjekst ekki þá, en nú hefir fjvn. eftir till. hæstv. atvrh. og búnaðarmálastjóra lagt til að hækka liðinn til sandgræðslu um 15 þús. kr., til að hefta sandfok í Rangárvallasýslu og bæta úr þeim eyðileggingum, sem af því hafa orðið. Nefndin getur þess í nál., að hún hefir fallist á það, að fjeð verði tekið til notkunar þegar á þessu ári. Jeg get ekki annað en flutt hæstv. stjórn og háttv. fjvn. þakklæti fyrir það, hve vel hefir verið sjeð fyrir þörfum minna kjósenda í þessu efni. Jeg skal taka það fram, að jeg legg engan dóm á það, hvaða aðferð sje heppilegust í þessu efni, enda er jeg ekki fær að dæma um það. Hitt er aðalatriðið, að eitthvað sje gert til að hefta frekari skemdir og bæta úr þeim spjöllum, sem orðið hafa.

Hin brtt., sem jeg bar fram í fyrra, var um að veita allstóra upphæð til framhalds landmælinga herforingjaráðsins, og sannast að segja var mjer það vonbrigði, að hún skyldi vera feld þá. Landmælingar eru nauðsynjamál, en þær voru stöðvaðar í fjöllunum milli Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu. Nú hefir stjórnin tekið þetta upp í fjárlagafrv. sitt og ekki verið hróflað við því, sem vænta mátti. Nú á að taka landmælingarnar upp af nýju. Þetta er því væntanlega fyrsti liðurinn í þeirri fjárveitingakeðju, sem ekki verður slitin fyr en alt landið er mælt. Jeg get ekki annað en verið ánægður yfir báðum þessum fjárveitingum.

En úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, þá vil jeg minnast fám orðum á einstakar brtt. Þá verður fyrst fyrir mjer 39. brtt. frá fjvn., um að fella niður ferðastyrkinn til útlanda. Hv. frsm. fjvn. (TrÞ) lýsti því yfir, að nefndin vildi ekki örva stjórnina til þess að nota slíka styrki um skör fram. Mjer er nú ekki kunnugt um, hvort stjórnin hefir misbrúkað þetta hingað til. En hitt er vitanlegt, að síðan Ísland varð sjálfstætt ríki, hefir því verið boðið að sækja marga fundi erlendis. Sumir hafa ef til vill ekki verið nauðsynlegir, en sumir hinsvegar þannig, að sómi landsins var í veði, ef ekki var mætt á þeim. Stjórnin á að hafa það á sínu valdi að mega senda menn í þeim tilfellum, er hún telur það alveg nauðsynlegt annaðhvort vegna þýðingar fundarins eða sóma landsins. Þegar þess er minst, hversu vel sendimönnum vorum er tekið, þá getum vjer ekki staðið oss við annað en halda áfram að koma fram út á við. Jeg skal taka það fram, að jeg þykist þess fullviss, að ekki mun líða á löngu, að stjórnin þurfi að hafa fje til umráða í því skyni að launa gestrisni þá, er oss er sýnd á mótum erlendis, því mjer er fullkunnugt um, að einn fundur fyrir fulltrúa norrænna embættismanna verður haldinn hjer á næsta sumri. Jeg er því á móti þessari brtt. nefndarinnar. Mjer virðist það ekki hættulegt, þótt stjórnin hefði einhverja fjárupphæð til afnota með þetta fyrir augum. Stjórnin væri ekki bundin við þá upphæð, heldur væri hún skoðuð sem áætlunarupphæð.

Jeg hefi ekki mikið að athuga við aðrar brtt. nefndarinnar og sleppi því að minnast á þær.

Að því er snertir brtt. frá einstökum þm., þá vil jeg fyrst minnast á þær brtt. frá háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) o. fl., er miða að því að styrkja leikfjelög og leikara. Jeg hefi altaf verið mikill vinur leiklistar og haft ánægju af að sækja leikhús, og er því með brtt. um að hækka styrkinn til Leikfjelags Reykjavíkur. Jeg gæti líka verið með brtt. háttv. þm. Ak. (BL). um styrk til Leikfjelags Akureyrar, en mjer finst vanta í till. athugasemd um það, að þá yrði Akureyrarkaupstaður að leggja fram eitthvað líka á móti ríkissjóðsstyrknum, eins og hjer er gert að skilyrði um framlag frá Reykjavíkurbæ í hlutfalli við styrkinn. Ef slík athugasemd kæmi frá hv. þm. Ak. inn í till., þá mundi jeg fylgja henni. Jeg er að vísu „principielt“ á móti því að binda fjárveitingu úr ríkissjóði við fjárframlag frá sveitarsjóðum eða einstökum mönnum. Jeg álít það ekki rjett, að löggjafinn geti lagt þannig lagaðar kvaðir á einstaklingana. En þetta hefir nú viðgengist hjer, sjerstaklega um þennan lið, og jeg álít ósamræmi í því, að Akureyri hafi ekki sömu skyldur í þessu efni sem Reykjavík.

Jeg mun greiða till. hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) um að styrkja frk. Önnu Borg til leiklistarnáms atkvæði mitt. Sama er að segja um utanfararstyrkinn til frú Soffíu Kvaran. Jeg álít, að í þeim sje góður efniviður og peningum sje vel varið til að gera þær færari um að iðka list sína.

Þá vil jeg að lokum fara nokkrum orðum um brtt. frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt) um styrk til einnar júbilljósmóður. Það eru nú nokkur ár síðan byrjað var á því að reyna að koma ljósmæðrastyrk inn í fjárlög hjer. Alþingi stóð langa lengi á móti; með eina var reynt þing eftir þing. Loks í fyrra tókst að koma þremur júbilljósmæðrum, að mig minnir, inn í fjárlögin. Jeg skal játa, að ljósmæður eiga alt gott skilið, en það var ekki ástæða til þess að taka þessar þrjár út úr. Ljósmæður hafa ekki mikil laun úr sveitarsjóðum, og ekki verða þær feitar af fje því, er þær fá frá foreldrum barnanna, að minsta kosti ekki í sveit. En í stað þess að taka nokkrar svona út úr ætti að gera lög um, að yfirsetukonur, sem gegnt hafa starfinu 40–50 ár, ættu að hafa rjett til eftirlauna. Þetta gengi jafnt yfir allar, en þær yrðu ekkert betur úti, sem hefðu duglega talsmenn hjer á þingi. Þessa konu, sem hjer er um að ræða, þekti jeg persónulega og vissi, að hún gat sjer góðan orðstír. Hún var fátæk, en þurfti að leggja meira á sig en flestar húsmæður, því að maður hennar var blindur frá æsku, og átti því erfiðara með að sjá fyrir heimilinu en ella. Reyndi því mjög á starfskrafta þessarar konu. Jeg hygg því, ef hinar áttu skilið að komast í fjárlögin, þá eigi þessi kona það ekki síður skilið. Annars skal jeg geta þess, að mjer liggur við að koma fram með eina brtt. svipaða þessari. Það stendur nefnilega svo einkennilega á, að ljósmóðir mín er á lífi og er júbilljósmóðir. Svo skemmir það ekki, að hún er ekkja eftir merkan mann, Friðbjörn Steinsson á Akureyri. Jeg kem nú sennilega ekki fram með þessa brtt., af því að þessi kona er ekki beint þurfandi, þó hún sje orðin æðigömul; en vera kynni, að háttv. fjvn. fyndist ástæða til þess að taka þessa gömlu heiðurskonu, ljósu mína, upp í fjárlögin.