28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

126. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil segja út af brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JakM) á þskj. 442, að það skiftir ekki miklu máli, hvort hún verður samþ. eða ekki, en eftir atvikum verð jeg þó að telja rjettara, að hún nái ekki fram að ganga. Hún er óákveðið eða óljóst orðuð, sem valdið gæti ruglingi, ef til þess kæmi að úrskurða um þetta „þvottaefni“. Jeg geri þó ráð fyrir, að með þessu sje átt við þvottaduft, sem er notað af sumum húsmæðrum og er hliðstætt við stangasápu, sem aðrar húsmæður nota; en stangasápa fellur undir verðtoll. Sumar húsmæður nota líka blautsápu, sem er undanskilin tolli. Mjer finst ekki samræmi í því að undanþiggja það þvottaefnið, sem sumar húsmæður nota, en ekki aðrar, en jeg skal játa, að þetta skiftir ekki miklu máli.

Út af því, sem hv. frsm. (MJ) sagði um lögreglustjórann í Reykjavík, þá er það rjett, að hann hefir sjerstöðu og hefir ekki gengið undir launalögin. Embættið er stofnað með sjerstökum lögum, en honum gafst þó kostur á að ganga undir launalögin frá 1919, en hann vildi það ekki og hefir tekið síðan laun sín án dýrtíðaruppbótar. Þetta hefir að vísu breyst, því eftir lögunum frá í fyrra gæti hann átt kröfu til dýrtíðaruppbótar, þótt jeg hinsvegar þori ekki neitt um það að segja, hvort hann ætli að nota sjer það eða ekki.

En hitt er misskilningur, að um lagalegt misrjetti sje að ræða milli hans og sýslumanna. Skrifstofukostnaður sýslumanna er ákveðinn samkvæmt lögum, eftir tilkostnaði hvers þeirra, en með þeirri ákvörðun er ekkert tillit tekið til þeirra tekna, sem þeir kunna að hafa af stimpilgjöldunum. En um raunverulegt misrjetti getur maður sagt, að sje að ræða, af því að embættið hjer er svo stórt og umfangsmikið, að tekjurnar af þessari innheimtu hljóta að verða langsamlega hæstar hjer.