24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Ásgeir Ásgeirsson:

Með ummælum mínum átti jeg við það, að bak við yfirlýsingu bankanefndarinnar um þörf á nýjum banka lægi sú von, að ekki þyrfti að bíða nema eitt ár eftir nýrri bankalöggjöf. Jeg sagði ekki, að þörfin stafaði frá þessari löggjöf. Í brjefi nefndarinnar er hvorttveggja nefnt í senn: þörfin á nýjum banka og þörf á nýrri bankalöggjöf. Með ummælum mínum vildi jeg aðeins benda á, að nefndin telur æskilegt, að undinn verði bráður bugur að nýrri bankalöggjöf. Það mátti vitna til bankanefndarinnar um þörf á nýjum banka. En að því er þetta frv. snertir er ekki hægt að skjóta sjer undir ummæli hennar. Nefndin hefir látið það álit sitt í ljós, að hún telur rjett að skapa möguleika fyrir nýjum bönkum, sem hún játar, að þörf sje á, með því að setja hið bráðasta almenna bankalöggjöf.