14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Jónas Jónsson:

Hv. 1. þm. G.-K. (BK) hefir nú í raun og veru játað töluvert mikið af því, sem andmælendur frv. hafa sagt, þótt hann ætli samt að greiða atkv. með því. Hv. þm. játar, að hjer sje komið inn á þá braut, sem er eðlilega mjög brosleg, að vera að semja, þegar ekki er til nema annar málsaðilinn, sá, sem selur rjettindin út í hönd. Þetta eru ákaflega mikil fríðindi, en samt gerir hv. þm. ráð fyrir, að það muni ekkert hafast upp úr þessu öllu saman, það þurfi að egna betur, og þá fara kjörin ekki að verða sjerlega skemtileg, þegar þessi fríðindi, sem eru alveg óvenjuleg, nema þá ef til vill í einhverju Suður-Ameríku-ríki, þykja einskis virði. Maður verður að játa, að þessi „skattstigi“, sem hjer hefir verið búinn til, er sannarlega mildur, samanborið við það, sem maður þekkir um aðra gjaldendur nú, og að þeir muni færa sig meira upp á skaftið. Það er gleðilegt fyrir þá, sem þá sitja á Alþingi og verða að gleypa þann öngul. Hæstv. fjrh. reynir ekki að skýra, hvers vegna eigi að bjóða þessa útrjettu hönd; segir aðeins, að hjer vanti peninga. Jú, maður þekkir „Kára“fjelagið, — en af hverju fjekk það ekki lán? Ekki af því, að peningar hafa ekki verið til, heldur af því, að bankarnir vildu ekki lána því nema þeir fengju þetta ágæta veð, sem verið var að hafa út úr ríkissjóði; síðan fór því að ganga vel, því að það er ekki annað, sem menn vantar til þess, að núverandi bankastofnanir vilji rjetta hjálpandi hönd, og þegar hæstv. fjrh. er að tala um, að það vanti fje, þá er hann kominn í mótsögn við sína eldri kenningu, sem jeg held, að hafi verið miklu betri, að það gæti verið varasamt að leggja út í nýjar framkvæmdir, þegar peningaverðið er breytilegt. Væri það t. d. hyggilegt ef hæstv. fjrh. kæmist með krónuna upp í gullgildi, að hafa þá bundið nokkrar miljónir í atvinnufyrirtækjum, sem væru í andarslitrunum? Og þegar menn heyra nú, að stjórnin ætlar að reyna að fá meira fje inn í landið til þess að binda það í slíkum fyrirtækjum, og þar sem samtímis er sagt, að hún vilji líka hækka gjaldeyrinn, þá hljóta allir ókostirnir við þetta fyrirkomulag að koma fram.