24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin fallist á frv. og vill mæla með því. Það er kunnugt, að á síðustu árum hafa heyrst raddir um, að ástand það, sem við eigum við að búa nú, sje lítt viðunandi. En mín skoðun er sú, að verði þetta frv. að lögum, þá sje úr þessu bætt mjög vel. Menn höfðu hugsað sjer þá leið, að Alþingi legði fyrir ríkisstjórnina að láta byggja skip með kælirúmi. Mun mörgum hafa þótt mikið í ráðist, bæði að byggja skipið og halda því úti. En eftir þessu frv. eru það aðeins 350 þús. kr. í eitt skifti fyrir öll, sem ríkið þarf að leggja fram til þess að fá gott skip, sem bætir úr þessari þörf. Eins og sjest á þskj. 94. hefir Eimskipafjelagið í hyggju að láta byggja nýtt skip með svipaðri gerð og Goðafoss. Á skipið að geta tekið 20 farþega á 1. og 20 á öðru farrými, og auk þess að geta flutt út lifandi fje, ef með þarf. Jeg sje ekki, að það þurfi að mæla sjerstaklega með þessu frv. Það hefir engri mótspyrnu mætt í háttv. Nd. og jeg álít, að hæstv. stjórn hafi ráðið vel fram úr þessu máli, eftir því sem um var að gera.