26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg er þakklátur hv. allshn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli. Jeg get tekið það fram viðvíkjandi brtt. nefndarinnar, að jeg sje ekki ástæðu til að vera á móti þeim. En mjer finst álitamál, hvort laun oddvita eiga að vera 4 kr. eða 5 kr. fyrir hvern tug hreppsbúa. Það er ekki hægt að gera ágreining um það atriði, en hver verður að gera upp við sig, hvað honum þykir hæfilegt. Í fjölmennum hrepp verður 5 kr. á hvern tug töluverð upphæð, og jeg býst við, að ósamræmi yrði þá talið milli launa oddvita og hreppstjóra. En oddvitastarfið er vanþakklátt og talsvert fyrirferðarmikið, svo að vel má vera, að 5 kr. þyki ekki of mikið. Við 2. brtt. a. hefi jeg ekkert að athuga, en fyrir mjer vakti, þegar jeg samdi frv., að ábyrgðarbrjef eru oft lengi á leiðinni. Hinsvegar eru þau auðvitað tryggari.

Um brtt. undir b-liðnum ætla jeg aðeins að segja það, að það má ganga út frá því, að þessum sektum sje ekki oft beitt. Og jeg lít svo á, að jafnan þegar það upplýstist, að hlutaðeigandi, sem sektaður hefir verið, ætti ekki sök á drættinum, myndi sýslumaður fella burt sektina.

Þriðja brtt. er um það, að láta sýslunefndaroddvita hafa tvöfalt atkvæði, þegar atkvæði eru jöfn, og hefi jeg heldur ekkert við það að athuga, því að jeg get vel gengið inn á, að rjett sje að láta sömu reglu gilda fyrir sýslunefndaroddvita og hreppsnefndaroddvita, og jeg verð að játa, að jeg skildi aldrei í því, hvers vegna farið var að breyta þessu ákvæði, eftir að það hafði verið sjö ár í lögum.

Fimta brtt. er um það að setja orðið „yfirstandandi“ í staðinn fyrir „hvert“ í 44 gr., en þar var tekið upp orðalag, sem er í lögunum frá 1921, um tekjur sýslusjóða, en jeg get vel viðurkent, að orðalag hv. nefndar sje betra.

6. brtt. er rjettmæt.