11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Ottesen:

Í öllum þessum aragrúa af brtt. er aðeins ein lítil brtt., sem nafn mitt stendur við. En hún er um að veita Bjarna Sigurðssyni 1200 kr. styrk til húsagerðarnáms í Stokkhólmi. Það er svo ástatt um þennan pilt, að hann útskrifaðist síðastliðið vor og hafði fyrir löngu ákveðið að gera það að lífsstarfi sínu að vinna að húsagerð og afla sjer mentunar á því sviði, svo sem bestur er kostur á. Hann sótti um stúdentastyrk þann, sem veittur er 4 stúdentum árlega, en það vildi svo óheppilega til, að í ár sóttu óvenjulega margir um þann styrk. Nefndin, sem úthlutar styrknum, varð ósammála og klofnaði. Þessi piltur varð svo óheppinn, að meiri hluti nefndarinnar lagðist á móti honum og tók annan pilt fram yfir hann. Sá, sem meiri hluti nefndarinnar hallaðist að að veita styrkinn, var bæði frá öðru ári og hafði auk þess lægri einkunn, svo að í raun og veru voru ákvæði laganna brotin með því að taka hann fram yfir Bjarna þennan. En hvað sem öðru líður, varð niðurstaðan sú, að Bjarni Sigurðsson fjekk ekki styrkinn að þessu sinni. Hann vildi nú samt sem áður klífa þrítugan hamarinn og hefja þegar á þessu ári húsagerðarnámið, frekar en að láta af þeirri ætlun, er hann hafði altaf haft, og hann útvegaði sjer lánsfje til að fara utan síðastliðið haust. Honum hraus hugur við að eyða einu ári af æfi sinni í algerða kyrstöðu. Foreldrar hans eru mjög fátækir og geta ekkert styrkt hann, en lánið fjekk hann með tilstyrk góðra manna. Það var fyrir hvatning frá þeim Guðmundi Hannessyni prófessor og Guðjóni Samúelssyni byggingameistara, að hann fór til Stokkhólms, því að þeir álitu, að þar væri haldbesta þekkingu að fá í þessum efnum og best við hæfi Íslendinga. Jeg hefi nú flutt þessa brtt., af því að þessi efnilegi námsmaður ætlar sjer að loknu námi að vinna að hagnýtum störfum og er sjerþurfandi fyrir þessa hjálp, og svo hafa þeir Guðmundur Hannesson og Guðjón Samúelsson mjög hvatt hann til þess. Þeir líta svo á, að það sje mikil nauðsyn fyrir Íslendinga, að fá sem besta sjerþekkingu í byggingarfræði, og leiðir það af líkum, hve mikil og brýn þörf er fyrir haldgóða þekkingu á því sviði, þar sem þörfin á endurbótum á húsakynnum er svo brýn eins og hjá okkur. Þess vegna hafa þeir hvatt mig til að flytja till., og Guðmundur Hannesson hefir beinlínis skorað á mig að gera það, svo að það væri trygt, að þessi efnilegi piltur gæti haldið áfram námi. Jeg geng út frá því sem sjálfsögðu, að næst þegar stúdentastyrknum verður úthlutað, fái þessi piltur að njóta hans, og vil jeg því vona, ef þessi brtt. verður samþykt, að hann fái þennan styrk útborgaðan í ár, enda þótt hann standi í fjárlögum fyrir 1928. — Nú hefi jeg gert grein fyrir ástæðunum til þessarar brtt. og fel hv. þdm. að meta ástæðurnar fyrir henni, og vona jeg, að till. verði vel tekið.