19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skil vel af öllum ummælum hv. 1. landsk. (JJ) út af till., sem samþykt var í hv. Nd., að hann er ekki fullánægður með afstöðu flokksbræðra sinna í hv. Nd. til stjórnarinnar. Óminn af ósigri þeim, er hann hefir beðið innan flokks síns, mátti ótvírætt heyra í ræðu hans. Jeg get sagt háttv. 1. landsk. það, að svo vel sem jeg get látið mjer lynda að sitja við hlutleysi flokksbræðra hans, væri mjer að sama skapi leitt, ef sú stjórn, er jeg veiti forstöðu, ætti að einhverju leyti að búa við hlutleysi frá hans hendi sjerstaklega.

Í ræðu hv. þm. (JJ) kom ekki neitt nýtt fram viðvíkjandi þessu, nema hvað hann færði sem sönnun fyrir því, að stjórnina skorti þingfylgi, að hún hefði ekki ráðið forsetakosningum í Nd. og Sþ. Hann var nýbúinn að vitna í ástandið í Danmörku og þingræðisstjórnina þar. En hann athugar ekki, að það stendur nú svo á þar, að stjórnin hefir ekki forseta úr sínum flokki í þjóðþinginu, sem eftir stjórnarhögum þar í landi er sú deild, sem þingræðið miðast aðallega við. Það er ávalt svo, að ekki er krafist, að stjórn hafi meiri hluta endilega úr sínum flokki einum. Þá er heldur ekki heimtað, að hún ráði forsetakosningu frekar en öðru. Stærsti flokkurinn í þinginu danska, nefnilega sósíalistar, hefir vitanlega ráðið um forsetana.

Jeg get svo látið útrætt um þennan innanflokks ágreining, sem gægst hefir fram úr orðum hv. 1. landsk. (JJ). Stjórninni nægir alveg það hlutleysi fram til næstu kosninga, er hv. formaður Framsóknarflokksins (ÞorlJ) hefir látið henni í tje í ræðu, er jeg las kafla úr.

Um fjármál sagði háttv. þm., að stjórnin hefði lifað og látið eins og engin fjárlög væru til. Og hann vitnaði í fjáraukalög því til sönnunar. Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi þar átt við fjáraukalög fyrir árið 1926, sem lögð hafa verið fyrir þetta þing. En um þau lög er svo háttað, að engar aðfinslur hafa komið fram gagnvart þeim fjárveitingum, sem þar er leitað heimildar fyrir, og því síður hefir bólað á neinni till. í þá átt að fella þessi lög. Sú eina breyting, sem á þeim var gerð, var að till. hv. fjvn. í Nd., að bætt var við einni dálítilli fjárupphæð, sem stjórnin hafði ekki farið fram á og ekki þurfti beinlínis að greiða, en verður auðvitað greidd, úr því að þingið óskar þess.

Afleiðingin af því að afgreiða fjárlög með tekjuhalla nú er sú, að óhjákvæmilegt verður að stöðva ýmsar verklegar framkvæmdir á árinu 1928. Jeg get ekki annað sagt en að það sje vandræðameðferð á fjárlögunum af hálfu þingsins, ef hrúgað er inn í þau þeim kynstrum af fjárveitingum með það fyrir augum, að stjórnin sjái sjer ekki annað fært en ganga á snið við fjárveitingarvaldið og láta framkvæmdir fyrirfarast, sem fje er veitt til samkvæmt fjárlögum. Jeg veit ekki með hverju þingið getur spilað fjárveitingarvaldinu úr sínum höndum í hendur stjórninni, ef ekki með þessari aðferð, sem hv. 1. landsk. fanst eðlileg.

Hv. þm. (JJ) spurði, hve mikið fje hefði farið til viðgerðar á húsi Jóns heitins Magnússonar fyrverandi forsætisráðherra. Jeg er ekki við því búinn að segja til, hve mikill partur það er af konungskomuupphæðinni. Jeg hefi ekki athugað það. Hv. þm. gat upp á upphæð, sem jeg, án þess að segja að sje rjett tilgreind, tel líklegt, að ekki fari fjarri sanni. En jeg hygg, að það mætti verða hinum látna forsætisráðherra til afsökunar, að hann mun ekki hafa ætlast til, að ríkið borgaði viðgerðarkostnað á húsi sínu. En úr því sem fór þótti rjett, að ríkissjóður tæki á sig kostnaðinn, þótt segja megi, að rjettast hefði þá verið að láta fjeð renna í annað hús, sem ríkið ætti sjálft.

Jeg ætla að hlífa þessari hv. deild við því að tína upp fleiri sundurlausa þanka úr hinni löngu ræðu háttv. 1. landsk. því að sundurlaus var hún. Það vantaði sem sje eitt í þá ræðu, en það var þungamiðjan. Þyngdarpunkturinn hafði einhvern veginn fallið niður.

En jeg verð þó að víkja lítillega að ummælum hv. þm. um komu forsætisráðherra Dana hingað til Íslands og þær móttökur, er hann hlaut hjer, og hinsvegar för minni til Danmerkur og viðtökum þeim, er jeg átti þar að fagna.

Þó að hv. þm. hefði ekkert út á aðgerðir stjórnarinnar að setja gagnvart þeim móttökum, ljet hann þó skína út úr orðum sínum, að þær hefðu verið fullvirðulegar og vingjarnlegar. En jeg verð að segja það, að þá er það bar við í fyrsta sinn, að forsætisráðherra sambandsþjóðar vorrar tók sjer ferð á hendur til þess að heilsa upp á Íslendinga, áleit jeg það sjálfsagða skyldu mína, — jeg hafði þá nýtekið við starfi mínu, — að halda uppi þeim viðtökum fyrir landsins hönd, að þjóðinni yrði ekki vansæmd að. Í sambandi við þetta þótti mjer æði mikill ljóður á orðbragði hv. 1. landsk., að fjórum sinnum talaði hann um Alþýðuflokkinn hjer svo sem væri hann óaldarflokkur og glæpamenni seinast nefndi hann þá stórglæpamenn. (JJ: Jeg síteraði aðeins stjórnarblaðið). Jeg veit ekki til, að nokkur stjórnmálaflokkur hafi leyft sjer að halda því fram, að Alþýðuflokkurinn verðskuldi þessi ókvæðisorð, sem hv. 1. landsk. lætur sjer sæma að nota eða skrökva upp í annara orða stað um þennan flokk. Þarna hefir honum sviðið, að því hefir verið haldið fast á lofti, að óeðlilegt væri, að flokkur, sem svo er skipaður mönnum sem Framsóknarflokkurinn, væri í bandalagi við Alþýðuflokkinn. Þó vil jeg taka það fram, að enginn hefir mjer vitanlega leyft sjer að halda því fram, að neitt væri óeðlilegt við það, að hv. 1. landsk. sje og hafi verið í nánu samræmi um skoðanir og í náinni samvinnu við sósíalista. Jeg hefi áður lýst því yfir, að öll afstaða hv. 1. landsk. bendi til þess, að hann sje sósíalisti í skoðunum, og við það stend jeg. Og því skyldi engan furða á, að hann leiti samvinnu við sína nánustu skoðanabræður. En menn verða að fá að vera frjálsir að því að álíta, að óeðlilegt sje, að rólegir og íhaldssamir bændur úti um land, sem standa föstum fótum á grundvelli núverandi þjóðskipulags, að þeir leiti stjórnmálasamvinnu við Alþýðuflokkinn, eins og skoðanir hans nú eru í þeim efnum. Enda er það svo, að háttv. 1. landsk. svíður undan því, að rjettur skilningur á þessu er óðum að útbreiðast meðal kjósenda, sem hingað til hafa fylgt Framsóknarflokknum að málum. Maður getur virt honum til vorkunnar, að hann kenni sárinda undan því ljósi, sem um síðustu mánaða skeið hefir verið brugðið upp yfir þessi óheilindi og orðið mjög til þess að rýra álit og fylgi þessarar stefnu, sem háttv. 1. landsk. er fyrirsvarsmaður fyrir.