10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gerði til mín tvær fyrirspurnir. — Hin fyrri var um lækkun á styrk til unglingafræðslu utan Reykjavíkur, hvort hún ætti eingöngu að koma niður á unglingaskólanum á Ísafirði. Jeg fyrir mitt leyti lít ekki þannig á, heldur virðist mjer, að lækkunin eigi að skiftast niður á skólana. Vitanlega hlýtur hún þá að nokkru leyti að lenda á Ísafjarðarskóla. Og þar sem hækkunin í hv. Nd. var gerð sjerstaklega vegna þessa skóla og þriggja annara, þá geri jeg ráð fyrir, að lækkunin verði hlutfallslega ekki meiri á þessum en hinum.

Hv. þm. (SigurjJ) mintist ennfremur á Hvanneyri og spurði, hvort skólastjórinn þar hefði fengið búið á leigu með sjerstaklega hagkvæmum kjörum. Já, jeg lít svo á, að kjör hans sjeu mjög hagkvæm, en það er miklu leyti að þakka breytingu á verðlagi, síðan samningurinn við hann var gerður. En þar sem hann hefir bætt jörðina afarmikið, þá á hann í raun rjettri stórfje hjá ríkissjóði, sem hann fær þó ekki goldið, ef hann fer burtu á næstu árum. Það getur aðeins komið upp í afgjaldið af jörðinni. Því held jeg, að ekki væri sanngjarnt að gera breytingu á núverandi kjörum hans. Þótt þau sýnist góð, þá etur það í kringum sig að þurfa að hafa alla þessa skólapilta á heimilinu. Af því er mikill átroðningur, enda þótt jafnframt sjeu af því nokkrar tekjur. — Hitt veit jeg ekki vel, hvort fjósið á að vera yfir nautgripi skólastjóra sjálfs eða ríkissjóðs. Jeg held, að það fjós, sem þar er nú, sje orðið mjög gamalt og ljelegt. Skólastjóri hefir t. d. sagt mjer, að þakið sje nærri ónýtt. — Skólastjóri hefir sjálfsagt fleiri nautgripi en jörðinni fylgdu, er hann kom þar. Hann hefir gert jörðinni mikið til góða og hefir eflaust fleiri nautgripi, til að hafa hennar meiri not.