15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

6. mál, fátækralög

Hjeðinn Valdimarsson:

Nokkrar brtt. við frv. frá mjer liggja hjer fyrir, og vildi jeg skýra þær hjer lítið eitt. Jeg gat þess við 2. umr., að mjer þættu ekki breytingar þær á fátækralögunum, sem hjer eru á ferðinni, svo ítarlegar sem búast hefði mátt við, og mundi jeg því flytja þáltill., er sýndi, í hvaða átt ætti að stefna í þessum sökum. Eftir að hafa athugað frv. nánar sá jeg, að hægt var að gera á því þær breytingar, sem til bóta mættu verða, þó að sama frumvarpsform yrði undirstaðan áfram. Þessar brtt. eru á þskj. 115. Aðalbreytingin, sem er í 8 liðum, er um það, að í stað þess, að hver hreppur sje sjerstakt framfærsluhjerað, þá sje alt ríkið gert að einu framfærsluhjeraði, og sje framfærslurjetturinn bundinn við ríkisborgararjett. Hver maður öðlast hann í dvalarsveit sinni. — Brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef) í þessu atriði gengur skemmra. Þar er farið fram á, að hver maður fái sveitarstyrk þar, sem lögheimili hans er. Jeg álít, að betra sje að hafa hjer dvalarsveit í stað lögheimilis, því að menn geta skrifað sig til heimilis hvar sem er, enda þótt þeir dvelji þar aldrei, en þar sem maðurinn er, er dvalarsveit hans ákveðin.

Með breytingunni um, að ríkið verði eitt framfærsluhjerað, mundi hverfa að mestu hin mikla skriffinska, sem nú er. Þá fjellu og niður allar deilur um sveitfesti, og ef samþykt yrði brtt. um niðurjöfnun framfærslukostnaðar hreppanna yfir alt landið, þá mundi líka bundinn endir á allan málareksturinn og deilurnar um endurgreiðslur hreppa á milli. Loks er það, að ef hver maður á framfærslurjett í dvalarsveit, þá er fátækraflutningur ekki nauðsynlegur lengur. En þeir hv. þm., sem telja sig í rauninni andvíga þurfamannaflutningi, en álíta, að hann sje nauðsynlegur, eins og nú er ástatt, geta hjer fengið bót á því með breytingu skipulagsins, ef þeim er það nokkurt áhugamál. Sú nauðsyn, sem þeir telja nú til slíks flutnings, fjelli niður, þar sem fátækrakostnaðinum yrði jafnað niður. Allir þessir 8 liðir eru um það sama, og ætla jeg ekki að tala meira um það.

Þá eru brtt. á þskj. 126. Eru það brtt., er jeg flutti við 2. umr., en komu þá ekki til atkvæða. Flyt jeg þær hjer aftur nokkuð breyttar. Önnur brtt. er á þá leið, að fátækrastjórnirnar geti ekki tekið börn frá foreldrum, nema þeir leyfi. Þó eru hjer undantekningar, ef um siðferðilega spilling á heimilinu er að ræða, eða ef illa er farið með börnin. Það er ekki óalgengt nú, að börn hafi verið tekin frá foreldrum sínum nauðugum, þótt börnin hafi verið augasteinar foreldranna. Getur hver maður gert sjer í hugarlund, hversu þungbært það hljóti að vera þeim, sem hlut eiga að máli. Hin brtt. á sama þskj. bannar fátækrastjórnunum að skilja að hjón, nema með leyfi þeirra sjálfra. En þetta á sjer stað eftir fátækralögunum, eins og þau nú eru. Jeg vona, að hv. þm. geti fallist á brtt. þessar.

Þá kem jeg að 9. brtt. á þskj. 115. Samkvæmt frv. er ekki hægt fyrir sveitarstjórnirnar að gefa upp sveitarstyrk fyr en eftir 2 ár frá því, er þurfamaðurinn þáði af sveit. Jeg sje enga ástæðu til þess að hindra það, ef sveitarstjórnin óskar að gefa upp styrkinn. Það kunna að koma fyrir þau tilfelli t. d., að sveitarstjórnirnar segi við styrkþegann: Ef þú vilt nú bjarga þjer sjálfur hjeðan í frá, skulum við gefa þjer upp styrkinn. Og þá er þetta einmitt hvetjandi og uppörvandi fyrir mann þann, sem hlut á að máli.

Þá er b-liðurinn, sem einnig á við 43. gr. Eftir allar atkvgr. við 2. umr. um þá grein, var loks samþykt, að styrkur veittur mönnum, sem orðnir væru 60 ára eða eldri, skyldi ekki afturkræfur, en svo mikið var felt af málinu kringum þessa tillögu, að hana varð að taka upp að nýju. Jeg kem nú hjer fram með brtt., sem ganga nokkuð í aðra átt. Það er ekki talað hjer um, hvort styrkurinn sje afturkræfur eða ekki, heldur er kveðið svo á, að hann verði ekki skoðaður sem sveitarstyrkur, þ. e. a. s., að styrkþegi missi ekki kosningarrjett. Jeg hefi numið burtu þá brtt., að styrkur sökum atvinnuleysis sje ekki skoðaður sem sveitarstyrkur, vegna þess, að jeg bjóst við, að það mundi ekki ná fram að ganga frekar en við 2. umr., þó að nokkuð yrði breytt til um efni. Þá hefi jeg breytt till. um ómagamenn þannig, að í stað þess, að áður þurfti 3 börn, þá þurfi nú minst 4, og 2, ef kona á í hlut, til þess að ómegð teljist, og sje styrkur sá afturkræfur, en skoðist sem lán, og varði ekki missi kosningarrjettar. Í 3. lið er talað um styrk vegna heilsuleysis þiggjanda og komi þar til vottorð læknis um, að hann hafi verið ófær til vinnu 4 mánuði vegna þessa heilsuleysis. Aftur á móti er ekki tekið til heilsuleysi hjá vandamönnum hans. Slíkur styrkur varði heldur ekki missi kosningarrjettar, en sje afturkræfur.

Í 48. gr. frv. hefir stjórnin breytt lögunum og skerpt þau svo, að það varði fangelsi, ef barnsfaðir skorast undan að borga meðlag með barni sínu. Jeg fæ ekki sjeð, að slík ákvæði sjeu til bóta, en finst þau minna helst á flengingarlög Albertis.

Þá kem jeg að síðustu brtt., sem fer fram á að jafna framfærslukostnaði alls landsins niður á hreppana. Það leiðir af till. um að maður hafi framfærslurjett í dvalarsveit sinni mikil röskun á fyrirkomulagi því sem nú er, og einnig koma fátækragjöldin mjög ójafnt niður nú og mundu þó koma enn ójafnar niður, ef ný breyting kæmi ekki til. En með brtt. þessari er ráðin bót á því. Samkv. henni skal hver hreppur senda atvrh., í lok reikningsársins, skýrslu um fátækragjöld þau, er hann hefir greitt. Síðan skal gjöldunum jafnað niður um alt land eftir efnum og ástæðum hreppanna og nánari reglum, sem jeg bind mig ekki fast við, en tek þó þar til undirstöðu fasteignamat og tekjur og eignir í hreppnum. Fá þá þeir hreppar, sem orðið hafa fyrir miklum fátækragjöldum, endurgreiðslu frá þeim hreppum, sem lítil fátækragjöld hafa þurft að greiða, á því, sem fer fram úr meðaltali framfærslukostnaðar í öllum hreppum landsins, miðað við mælikvarða eins og fyr segir. Það eru til dæmi þess, að einstaka hreppar hafa orðið afarilla úti í þessu tilliti, t. d. Bessastaðahreppur og aðrir hreppar í Gullbringusýslu, svo að þeir urðu jafnvel gjaldþrota, eða þurftu að leita til sýslunnar eða ríkissjóðs vegna þessara gjalda. En aðrir hreppar hafa aftur á móti þurft litlu til að kosta, og þó hefir það ekki altaf verið að þakka sveitarstjórnunum, heldur tilviljun. Það er nauðsynleg rjettarbót að koma jöfnuði á fátækragjöldin. En það er ekki hægt að gera það nema með slíkri lagabreytingu.

Af brtt. þessari leiðir, að falla mundu úr frv. margar greinar, því að það sýnir sig, að næstum þriðji hluti frv. fjallar um viðskifti sveitarstjórna út af sveitfestiákvæðinu, endurgreiðslum o. fl. Lögin mundu við þetta styttast og verða einfaldari í meðferð og ódýrari í framkvæmd.