16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

6. mál, fátækralög

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg þarf að svara hv. þm. V.-Sk. (JK) og hæstv. atvrh. (MG) nokkrum orðum.

Verð jeg þá fyrst að taka það fram, út af orðum hv. þm. V-Sk., að sú hugsun, að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði, er ekki ný. Hún hefir verið lengi á döfinni. En það, sem gerði það, að jeg kom ekki fyr fram með brtt. mínar, var, að jeg þurfti að kynna mjer vel frv. hæstv. stjórnar, en eins og menn vita, kom það ekki fram fyr en á seinustu stundu.

Hv. þm. V-Sk. virtist till. mínum fylgjandi, en hann sagði, að til þess að geta samþ. þær, þyrfti fyrst rannsókn fram að fara. En nú skyldu menn ætla, að hæstv. atvrh. hefði gert þær rannsóknir allar áður en hann lagði frv. fyrir þingið. Þó er svo að sjá, sem hann geti ekki hugsað sjer aðrar breytingar en við 43. gr., um kosningarrjettinn, að óverulegum atriðum undanskildum.

Þær rannsóknir, sem þarf að gera, eru ekki afar margvíslegar. Eitt aðalatriðið er það, hvernig sveitarþyngsli koma nú niður á sveitarfjelögum, og hvernig hægt sje að jafna þann mismun, sem er á sveitarþyngslum.

Mjer er það að vísu ekki fullkunnugt, en jeg hygg þó, að hagstofan hafi þær skýrslur í höndum, sem með þarf. Og það hefði verið hægt fyrir hæstv. atvrh. og líka hv. allshn. að leita til hennar. Þó álít jeg, að enga rannsókn þurfi í rauninni í þessu máli. Samgöngur eru nú orðnar svo góðar hjer í landi, að það hlýtur að vera betra að hafa landið alt eitt framfærsluhjerað heldur en að hafa mörg ríki í ríkinu, eins og nú er, meðan hver hreppur er sjer um fátækramálin.

Hæstv. atvrh. (MG) færði það á móti till. minni, að framfærslan yrði dýrari með þessu móti. Það fæ jeg ekki sjeð, eða hverjar ástæður ættu að vera fyrir því. Sveitarsjóðir yrðu eftir sem áður að greiða meðlög með þurfalingum, en þó ekki meira en hóflega, enda mundi það koma niður á þeim sjálfum að lokum, ef þeir hefðu bruðlað með fje, þar sem fátækragjöldin yrðu þá yfirleitt meiri, og aldrei fengju þeir endurgreitt annað en það, sem þeir hefðu fyrst lagt út, og ekki meira en það, sem færi fram úr meðaltali fátækragjalda í hreppum landsins.

Það var sparðatíningur hjá hæstv. atvrh. (MG), er hann var að fetta fingur út í það, að of mikið væri af orðinu „sem“ í brtt. mínum, og vil jeg láta honum eftir orðið um það atriði, sem auðvelt er að leiðrjetta í próförk, ef með þarf.

Ekki er það rjett hjá hæstv. ráðh. (MG), að í brtt. mínum sje dönskum ríkisborgurum ætluð önnur rjettindi en þeir nú hafa, heldur er hjer um nákvæmlega samskonar rjett að ræða og þeir hafa nú.

Viðvíkjandi frestinum frá 1. febr. til 1. júlí, sem ætlaður er til innheimtu og til þess að gera upp, hvað hver sveit á að gjalda hinum öðrum, sem meiri þyngsli hafa, þá finst mjer, að 5 mánaða frestur sje alveg nógu langur, eins og samgöngur eru hjer nú. Venjulegar viðskiftaskrifstofur mundu ekki þurfa meira en hálfan þann tíma til slíkra starfa, og ótrúlegt er, að stjórnarráðið standi öðrum skrifstofum svo að baki. En hæstv. atvrh. virðist ekki hafa lokið upp augunum fyrir því, að hjer í landi eru mismunandi fátækraþyngsli, og að það er æskilegt, að þær sveitir, er standa betur að vígi, rjetti hinum hjálparhönd.

Jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, að mælikvarðinn um niðurjöfnunina skuli vera fasteignamat og tekjur og eignir í hverjum hreppi, eins og í brtt. stendur. Það mætti líka miða við fólksfjölda, t. d. að þriðjungi, og ef hv. þdm. sýnist svo, má leiðrjetta þetta við meðferð málsins í efri deild.

Hæstv. atvrh. talaði mikið um það, hve rjettlátt væri að láta barnsfeður vinna af sjer meðlag barna sinna, sem ekki fengist greitt af þeim. Hann tók það dæmi, að ýmsir menn hjer, sem skoruðust undan að greiða barnsmeðlög, ættu reiðhesta. Mjer finst það undarlegt, að hæstv. atvrh. skuli minnast á þetta. Því að ef þetta væri rjett, sýnir það ekki annað en framkvæmdaleysi hins opinbera að ná meðlögunum. Ekki væri annar vandinn en taka hestana af þessum mönnum til greiðslu meðlagsins. En með frv. því, er hjer liggur fyrir, er verið að innleiða þá reglu, sem er löngu úrelt, að setja menn í skuldafangelsi, og það er samkvæmt frumvarpinu jafnt hægt að gera, hvort sem feðurnir ekki hafa greitt meðlögin af getuleysi eða viljaleysi.

Jeg vil að miklu leyti taka undir það, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) sagði, að fáist ekki verulegar breytingar á frv. hæstv. stjórnar, þá sje ekki mikils um vert, að það nái fram að ganga.

Að svo mæltu vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vilji ekki bera upp sjerstaklega málsgreinarnar 9,b í brtt. mínum.