16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) hjelt því fram, að hjer væri um að ræða litla breytingu í frv. á núgildandi lögum. Þetta er að vissu leyti satt, en það er ekki nema hálfsögð sagan, þegar hv. þm. tínir til þau ákvæði, sem á að breyta, þar sem hann verður að játa, að það er mjög mikils virði, að lögin verði sameinuð í eina heild.

Hv. þm. sagði, að andstaðan væri ekki einungis vegna bygðarleyfisins, heldur aðeins meðfram vegna þess. Jeg veit, að hann leggur mikla áherslu á það atriði, en jeg álít ákvæði um það eiga heima í löggjöf um heimilisfesti. Hv. þm. gekk inn á það og flutti þáltill. í þá átt.

Hv. þm. hjelt, að engin grundvallarhugsun lægi á bak við ákvæðið um fjögurra ára sveitfestitíma. Jeg verð að ganga út frá, að einhver hugsun liggi þar á bak við. Það er nægilegt, að síðan 1923 hafa ekki heyrst raddir um að breyta þessu.

Háttv. 4. þm. Reykv. (HjV) talaði um fátækraflutningsákvæðin og taldi stjórninni það til foráttu, að þeim hefði ekki verið breytt. Það væri nær fyrir hv. þm. að snúa sjer til samnefndarmanna sinna og hv. deildar. Þó að stjórnin fari að flytja ákvæði til að draga úr þessu, hefir það ekki svo mikil áhrif á hv. deild, að hún snúist í þeirri stefnu sinni að halda í fátækraflutning.

Hv. þm. segir, að jeg hugsi ekkert um, hvað misþungt fátækraframfærslan komi niður. Mjer finst hart, að hann skuli fara að dæma um það. Jeg hefi ekki trúað honum fyrir hugsunum mínum, enda álít jeg, að þær sjeu betur komnar á öðrum stað en hjá honum. (HjV: Það er ekki annað sjáanlegt en að hæstv. ráðh. hugsi ekkert um þetta). Jeg held, að ekki sje hægt að sjá á hv. 4. þm. Reykv., hvað hann hugsar, enda væri það lítill hagnaður.

Hv. þm. viðurkennir, að það þyrfti aðhald á sveitarstjórnir. En um það stendur ekkert í hans brtt. Hann er altaf að halda því fram, að jeg skilji ekki brtt. hans, eða vilji ekki skilja þær. Jeg tek þær eins og þær liggja fyrir, og eins og venja er að skilja mælt mál, þannig, að allir þeir menn, sem þar eru taldir, eigi að vera lausir við að endurgreiða þeginn sveitarstyrk. Ef þetta er ekki rjettur skilningur, þá verður að orða brtt. öðruvísi.