10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. 2. þm. S.-M. (IP) benti á það í byrjun ræðu sinnar, að erfitt væri að átta sig á málinu af því, hvernig það liggur fyrir í hinum prentuðu skjölum. Það er talsvert til í því. En ástæðan mun vera sú, að skrifstofa Alþingis hefir viljað spara endurprentun á frv. En allar þær greinar, sem breytt var við 3. umr. í hv. Nd., hafa verið prentaðar upp, og ætti engum að verða skotaskuld úr því, að átta sig á þessu. Annars beindust andmæli hv. þm. (IP) aðallega, eða svo að segja eingöngu, að 43. gr. frv. Meginatriðið í ræðu hans var það, að betra væri að hafa ekki þá grein í frv., en setja í hennar stað tæmandi ákvæði um það, hvenær sveitarstyrkur skuli vera afturkræfur, og hvenær ekki, hvenær hann valdi kosningarrjettarmissi, og hvenær ekki. En þetta tvent fer alveg saman í raun og veru, af því að stjórnarskráin mælir svo fyrir, að til þess að hafa kosningarrjett megi maður ekki standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Af því leiðir, að ekki er um kosningarrjettarmissi að ræða, þótt maður hafi þegið styrk, ef ekki er hægt að heimta hann aftur; með öðrum orðum, ef hann telst ekki skuld. En skuld hlýtur hjer að þýða fjárkröfu, sem hægt er að heimta inn með aðstoð dómstólanna. „Mórölsk“ eða siðferðileg skuld kemur hjer ekki til greina. Jeg get viðurkent, að betra væri að hafa tæmandi ákvæði um þetta í lögum. Það hefir verið reynt. Stjórnin reyndi það á þingi 1923, og háttv. 5. landsk. (JBald) hefir reynt ár eftir ár að „formulera“ slík tæmandi ákvæði með því að segja t. d., að sveitarstyrkur veittur fyrir aldurs sakir, slysa, ómegðar o. s. frv. skuli ekki endurkræfur. En í öllum þessum tilraunum hefir það komið í ljós, að ekki er hægt að orða þetta svo, að ekki sje auðvelt að benda á dæmi, er sýndu, að ákvæðin kæmu ósanngjarnlega niður.

Jeg reyndi þetta í vetur, er jeg var að endurskoða fátækralögin, en gat ekki komist að neinu orðalagi, er talist gæti fullnægjandi á ákvæðum, sem eiga að vera algerlega tæmandi. Það er auðsætt, að maður, sem þiggur af sveit, getur haft afsökun, þótt ómögulegt sje að orða þá afsökun í lögum nje taka upp í þau öll hugsanleg tilfelli. Að svo vöxnu máli er ekki hægt að finna sanngjarnari reglu í þessu efni en þá, að fela sveitarstjórnunum, sem eiga að veita styrkinn, úrskurðarvaldið um það, hvort styrkurinn skuli teljast skuld eða ekki. Þær þekkja feril mannsins best frá upphafi og til þess, er styrkurinn er veittur. Verður ekki bent á neinn annan aðila, er hafi betri aðstöðu til þess að hafa nægilega þekking á högum hlutaðeiganda til þess að fella þennan úrskurð. Veit jeg, að hann mundi jafnan feldur eftir bestu vitund. Í sveitum er þetta litlum vandkvæðum bundið; þar þekkjast menn svo vel, að sveitarstjórnin mundi sjaldan vera í vafa, hvað sanngjarnt væri í þessu tilliti. Í kaupstöðunum er það öllu erfiðara, en þó er í mörgum tilfellum auðvelt að gera út um málið, og auk þess eru fátækrafulltrúar valdir gagnkunnugir menn í hverjum bæ.

Jeg skal játa, að komið geti fyrir þau tilfelli, að nægur kunnugleiki sje ekki til staðar. En það er nú svo, að aldrei verður hægt að komast hjá einhverri rjettaróvissu í einstökum tilfellum, en minst verður rjettaróvissan með þessu móti.

Jeg vil því mælast til, að hv. deild leyfi frv. að halda áfram sína leið og láti þessi ákvæði eiga sig. Jeg er viss um, að þau munu reynast allvel. Gangi maður út frá, að sveitarstjórn láti styrkinn vera afturkræfan, ef hún er í vafa, hversu ákveða skuli, þá er afleiðingin sú, að bíða verður 2 ár til þess að fá hann eftirgefinn. Auk þess stendur áfrýjunarleiðin opin.

Það er sjálfsagt að líta með sanngirni á brtt. þær, sem háttv. 2. þm. S.-M. (IP), ætlar að bera fram við 3. umr., en jeg geri tæplega ráð fyrir, að þær verði svo, að ekki verði hægt að benda þar á veilur, með öðrum orðum, að ákvæðin reynist ófullnægjandi og ósanngjörn í einstökum tilfellum. Honum mun veitast erfitt að sigla fyrir öll þau sker. Jeg skal að vísu ekki bera brigður á, að honum kunni að takast það, og jeg skal lofa því, að svo fremi, að mjer sýnist brtt. hans betri en ákvæði frv., skal ekki standa á mjer að fylgja þeim.