12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer finnast mótmæli hv. 5. landsk. (JBald) satt að segja nokkuð veigalítil og frekar til þess að sýnast heldur en hann meini eiginlega nokkuð með því, sem hann segir. Hann var að tala um, að endurskoðunin væri dýr. Jeg veit ekki, á hverju hann byggir þá staðhæfingu. En jeg get sagt honum það, að jeg hefi unnið það verk alt einn. Þetta frv. er því ekki dýrara en frv., sem hv. 5. landsk. flytur hjer þing eftir þing. Annar kostnaður en sá, er leiðir af prentun frv. og tilheyrandi skjala og umræðum um það á þingi, er ekki í sambandi við þessa endurskoðun.

Eftir því, sem frv. var frá hendi stjórnarinnar og er enn, þá eru þar ákvæði til þess að fyrirbyggja rjettindamissi annara en þeirra, sem öll sanngirni mælir með að heimta, að geti komist af án styrks. Þar sem nú hv. 5. landsk. viðurkennir, að slíkir menn Sjeu til, þá verður ekki annað sjeð en að hann geti verið ánægður með ákvæði frv., svo framarlega sem hann treystir sveitarstjórnum til þess að vera óvilhalt úrskurðarvald í þeim efnum.

Jeg heyrði ekki nema aðra skriflegu brtt. hv. þm. En jeg get sagt það um þessa till., að jeg er á móti því, að ekki megi flytja ómaga sveitarflutningi, nema með skriflegu leyfi hlutaðeiganda sjálfs. Oft og tíðum mundi það verða svo, að þetta leyfi fengist ekki, þótt flutningurinn væri fullkomlega rjettmætur og báðum aðiljum fyrir bestu. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje rjettara að láta þá ráða, sem ekki hafa getu til þess að sjá sjer farborða, heldur en hina, sem eiga að sjá þeim farborða. Og í frv. sjálfu eru ákvæði, sem, ef eftir er farið, fyrirbyggja, að illa sje farið með þurfalinga í slíkum flutningum. Venjulegast mun það vera svo og undantekningarlítið, ef um fátækraflutninga er að ræða, að þeir eru úr kaupstað upp í sveit, af því að uppihald er svo dýrt í kaupstöðunum, að framfærslusveit sjer sjer ekki fært að standa straum af meðlagi með heilli fjölskyldu eða öðrum ómögum þar, og vill því fá þurfalingana flutta til sín til þess að ljetta þannig kostnaðinn. Oft hafa börn ekki nema gott af því að flytjast úr fátæktinni í kaupstaðnum, eins og t. d. í Reykjavík, og upp í sveit á góð heimili; — í frv. er tekið fram, að börnum skuli aðeins komið fyrir á góðum heimilum. Hv. þm. (JBald) virtist álíta það sama sem nokkurskonar dauðadóm, en jeg álít það undir flestum kringumstæðum mikið lán fyrir blessuð börnin að vera flutt úr fátæktinni og kjallaraholunum á góða sveitabæi, þar sem þau hafa gott fæði og góða umönnun og eignast stundum fósturforeldra, sem reynast þeim meiri stoð og stytta en þeirra eigin foreldrar. — Mjer heyrist á hv. 5. landsk., að hann vilji ekki viðurkenna að hafa viðhaft þetta orð, sem jeg tiltók áðan: dauðadóm. En má jeg spyrja: Hvað meinti þá hv. þm. með líkingunni um sauðina, sem seldir væru og sendir út til slátrunar? (JBald: Þetta er útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh. Jeg talaði ekki um fje, sem væri sent til útlanda). Háttv. þm. talaði víst um fje, sem selt væri til slátrunar, og sem líking í þessu efni er sama, hvort hann meinti, að ætti að slátra því erlendis eða hjerlendis. Það lá að minsta kosti í orðum hans, að síður en svo væri um nokkur gæði að ræða fyrir fjölskylduna, sem flytja ætti.

Jeg vona, að frv. verði samþ. með þeirri einni breytingu, sem felst í brtt. frá hv. 2. þm. S.-M. (IP), svo að það geti orðið að lögum á þessu þingi.