16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg er hræddur um, að það mundi bera mjög lítinn árangur að fara að vísa þessu máli til stjórnarinnar aftur, enda verð jeg að segja, að jeg lít svo á, eftir þeirri meðferð, sem málið hefir fengið í þinginu, að því sje þar með slegið föstu, að meiri hl. þings sje því ekki meðmæltur að hafa alt landið eitt framfærsluhjerað. En jeg skal viðurkenna, að það gæti átt sjer stað, að hlaupið væri undir bagga með ýmsum hjeruðum, sem yrðu sjerstaklega illa úti, en það er alveg eins hægt, þótt þetta frv. verði að lögum.

Annars vil jeg benda hv. 1. þm. N.M. (HStef) á það, að það er langt frá því, að ekki sje gert neitt til þess að hlaupa undir bagga með hjeruðum, sem hafa mikinn fátækrakostnað. Þarf ekki að nefna annað en 77. og 78. gr. fátækralaga frá 1905 og samskonar ákvæði í lögum frá 1921. það eru útgjöld, sem ríkissjóður verður að bera og nema 70–80 þús. krónum á ári. Auk þess má nefna berklavarnarkostnað, sem vitanlega mundi hvíla mjög á sveitunum, ef ekki væru sjerstök berklavarnarlög. Í þriðja lagi má benda á, að við erum að streitast við að koma upp geðveikrahæli, og þegar það er komið upp, þá er það vitaskuld, að það ljettir á mörgum sveitarfjelögum bagga, sem er þeim ákaflega þungbær, Jeg held því, að það sje tæpast hægt að segja, að ríkissjóður hafi ekki gert neitt til að ljetta undir með þeim sveitum, sem verða sjerstaklega illa úti vegna fátækraframfæris. En annars vil jeg benda hv. 1. þm. N.-M. á það, að það er ekki fyrirbygt, að mismunandi gjöld hvíli á mönnum fyrir því, þótt þetta gjald viðvíkjandi fátækrastyrknum komi jafnt á alla, því að það eru ýms önnur gjöld, sem hvíla á sveitarsjóðum, sem eru mismunandi eftir staðháttum, og ef á að reyna að gera fullkominn jöfnuð í þessu efni, þá finst mjer, að ástæða væri til þess að taka fleira til athugunar.

Þótt fátækraákvæði stjórnarskrárinnar segi það, að fátæklingar eigi að hafa framfæri af almannafje, þá er ekki sagt, að það sje neitt í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, þótt því fyrirkomulagi, sem nú er, sje haldið, eða að andi hennar hafi verið brotinn síðan 1874, enda hefir enginn haldið því fram. En jeg skildi hv. þm. þannig, að hann áliti það ekki brot á stjórnarskránni, en að það gæti ekki samrýmst anda hennar. En þetta ákvæði stjórnarskrárinnar hefir verið skilið þannig frá fyrstu byrjun, og jeg held, að það verði erfitt að sýna fram á, að það sje ekki í samræmi við það, sem meint var með því í byrjun. Enda var þessi hreppaskifting komin á áður en við fengum stjórnarskrána. Jeg vil þess vegna leggja það til, að þetta frv. verði samþykt, því að þó svo sje, að ekki verði allir ánægðir með það, þá er þess að gæta, að það mun seint verða svo, að allir verði sammála. Og jeg get sagt það, eftir því sem fram kom í hv. Ed., að þetta frv. hefir mjög mikið fylgi, og jeg verð að álíta, að með þeim ákvæðum, sem í frv. eru, sje bætt mjög úr þeim göllum, sem áður hefir verið talið að væru á þessari löggjöf. En það, að ekki hefir verið mjög mikið breytt yfirleitt tilhögun eða ákvæðum fátækralaganna, stafar af því, að þau lög hafa reynst svo vel og eru búin að ná svo mikilli festu í framkvæmdinni, að það þykir óhyggilegt að vera að breyta þeim ákvæðum, sem yfirleitt þykja góð og eru nú kominn inn í vitund svo að segja allra sveitarstjórna landsins og búin að fá hefð og festu með fjölda af yfirvaldaúrskurðum. Jeg vona því fastlega, að þetta frv. verði samþykt hjer.