16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

6. mál, fátækralög

Pjetur Þórðarson:

Út af ummælum mínum við 3. umr. þessa máls hjer í deildinni ljet hv. frsm. (JK) í ljós óánægju yfir því, að jeg skyldi þá fara að andmæla frv., og þótti honum það ómakleg árás á málið. Í sambandi við þetta finst mjer ekki ótilhlýðilegt að láta þess getið, að síðan þetta skeði, þá hefi jeg sannfærst enn betur um það, að í frv. þessu felast ekki svo miklar rjettarbætur, að leggjandi sje kapp á að koma því fram nú, og ekki síst eftir þær breytingar, sem það hefir fengið í hv. Ed., og sem verið hafa umræðuefni hjer. Jeg ætla ekki að fara að endurtaka það, sem sagt hefir verið til andmæla um þær, en jeg vil, að það komi fram, og tel það bót í máli, að til eru menn í þinginu, sem óánægðir eru með svonefndar umbætur, sem í frv. felast, og vilja ekki láta það svo búið verða að lögum. Þeir háttv. þm. Barð. og háttv. 1. þm. N.-M. hafa glögglega sýnt fram á, hve ófullnægjandi frv. er, og var þess ekki síst þörf, þegar útlit er fyrir, að meiri hl. þings sje því fylgjandi. Það eru mörg atriði í málinu, sem standa til bóta, og jeg verð að vera þeim mönnum samdóma, sem telja það vel viðeigandi að fresta málinu, sjerstaklega þar sem kosningar standa nú fyrir dyrum og nauðsynlegt er að vekja athygli kjósenda á því. Jeg býst því við, að ef málið verður afgreitt nú, þá verði erfiðara að koma að breytingum við það á næstunni. Jeg ætla ekki að lengja umr. í von um, að jeg hafi nokkur áhrif á það, hvort frv. verður samþ. eða ekki, því að jeg álít, að ekki þurfi að óttast það, að andmæli gegn frv. muni snúa hugum þeirra hv. þm., sem ekki taka neinum sönsum eða kannast við galla þá, sem aðrir þykjast sjá á frv. Jeg vildi aðeins vekja athygli á því, að þeir menn hafa á rjettu að standa, sem vilja fá málinu frestað nú. Þegar háttv. frsm. sagði, að málið ætti rjett á sjer vegna þeirra rjettarbóta, sem það hefði tekið í hv. Ed., þá varð mjer að orði: Hverjar eru þær? Jeg get ekki kannast við, að verulegar rjettarbætur felist í frv. umfram það, sem nú er í lögum, og þó eitthvað sáralítið í þá átt megi finna þar, get jeg ekki sjeð, að það sje mikils virði.