13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

115. mál, bankavaxtabréf

Jónas Jónsson:

Eins og jeg hafði getið um við meðferð þessa máls í fjhn., ætlaði jeg mjer að bera fram brtt. um lánskjör og breyta lánsskilmálum þessa flokks veðdeildarinnar og öðrum lánum líka.

Jeg þykist ekki þurfa að tala langt mál um þá nauðsyn, sem hjer er um að ræða, því að flestum hv. þdm. er ljóst, hvað fyrir mjer vakir með brtt. minni, sem sje það, að búa svo um hnútana, að þeir, sem taka lán nú, verði ekki fyrir neinum skakkaföllum eða tjóni, þó að krónan hækki á næstu árum upp í gullgildi, eins og margir búast við og sumir vilja, að hún geri.

Þessi till. er því bygð á fullkomnu rjettlæti, þegar þess er gætt, að gagnvart mönnum, sem taka lán á þessum tímum, þegar krónan er aðeins 80 aura virði, en getur hækkað upp í gullgildi snemma á lánstímanum, þá er ranglátt, að skuldin hækki um fimta part, og ekki síst þegar það er þá fyrir aðgerðir ríkisvaldsins.

Fyrst þetta óhagræði um lækkun krónunnar stafar af skipun þjóðfjelagsins, fyrst og fremst með óhóflegri seðlaútgáfu Íslandsbanka á fyrri árum, og svo þegar skráning krónunnar var upp tekin með því verði, sem hún hefir nú, var það líka gert af ríkisvaldinu. Því að þessi skráning var framkvæmd samkv. vilja meiri hluta gengisnefndar, þar sem voru fulltrúi Landsbankans og fulltrúi landsstjórnarinnar, er rjeðu þeirri hækkun, sem nú er orðin. Jeg verð því að telja, að það stafi af vilja þjóðfjelagsins, ef krónan hækkar upp í hið svo kallaða gullgildi. Jeg hefi viljandi þetta orðalag „svo kallað gullgildi“, því að kunnugt er, að gull hefir fallið í verði, svo að þó að krónan komist upp í svo kallað gullgildi, þá verður hún ekki nema 66% virði, miðað við það verð, sem gull hafði fyrir stríð. Þetta er sagt til þess að lækka dramb þeirra manna, sem altaf eru að stagast á því, að krónan verði að ná sínu fyrra gildi, en sem verður þó að minsta kosti 33% lægra en raunverulegt verð krónunnar var fyrir stríð.

Um hitt mætti fremur spyrja: Á þjóðfjelagið að lokka menn til þess að taka lán með þessum afföllum? Jeg held ekki. Jeg held miklu fremur, að það sje alls enginn velgerningur við einstaklinga þjóðarinnar að bjóða þeim lán með slíkum ókjörum.

Annars vildi jeg minna hæstv. fjrh. (JÞ) á íhaldsbrjefið fræga, sem hann skrifaði skömmu eftir að hann var orðinn ráðherra, þar sem hann varaði menn við að taka lán til nýrra framkvæmda og taldi slíkar lántökur sjerstaklega hættulegar, ef krónan skyldi hækka. Hann virðist nú hafa gleymt þessu, eða er þar með fallinn frá þessari hlið íhaldsins, því að bæði var hann með því að stofna nýjan veðdeildarflokk í fyrra, og enn fylgir hann því fast, að nýjum flokki veðdeildarbrjefa sje bætt við. Af þessu er auðsætt, að hann er ekki eins hræddur við, að menn taki lán nú, eins og hann var framan af ráðherratíð sinni. Úr þessu mátti þó bæta með samþykt þessarar till. Hún gefur tryggingu fyrir því, að þeir menn, sem taka lán úr þessum veðdeildarflokki, verði ekki fjeflettir.

Hæstv. fjrh. var hörundssár fyrir því í gær, að erlent braskarafjelag yrði ekki fjeflett með því að heimta rjettmætar tryggingar móti fríðindum, sem landið veitir því. Brtt. mín fer ekki fram á annað en að innlendum mönnum verði heitið góðu um það að verða ekki fjeflettir af löggjafarvaldinu.