18.05.1927
Efri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Jónas Jónsson:

Jeg þarf að segja fáein orð út af ræðu hæstv. forsrh. í dag. Hann svaraði allítarlega flestu, sem jeg spurði um, og skýrði, hvers vegna málið væri ekki fyr fram komið. Þó svaraði hann ekki aðalatriðinu, hvernig koma á í veg fyrir, að því haldi áfram, að Íslandsbanki geti ekki dregið inn seðla sína. Hæstv. ráðherra vjek að því, að við, sem nýkosnir erum í bankaráðið, kæmum til með að hafa afskifti af þessu. En hvað sem bankaráðið segir, getur það ekki breytt ákvörðun Alþingis. Og eftir því, sem nú stefnir, er ekki ómögulegt, að Íslandsbanki hafi 5 milj. kr. í seðlum í ársbyrjun 1934. Að því er snertir bankaráðið býst jeg við, að stjórnin búi svo um, að hennar andi og tillögur ráði þar, og andófsmennirnir verði fremur sem gestir eða áhorfendur en úrskurðaraðili. Jeg greiði atkv. með þessu frv. af illri nauðsyn, en það verður að koma skýrt svar frá stjórninni við því, hvers vegna þarf að brjóta svona mikið frá reglunni sem nú er gert.