30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal taka það fram, að jeg get ekki verið ánægður með afgreiðslu hv. fjhn. á þessu máli. Háttv 1. þm. Reykv. (JakM), sem tók að sjer framsögu í þessu máli, sagði, að ekki hefðu legið fyrir hv. nefnd neinar upplýsingar um málið af hendi ríkisstjórnarinnar. Jeg skal aðeins geta þess, að hv. nefnd hefir ekki beðið stjórnina um neinar upplýsingar, en vitanlega hefði stjórninni verið ljúft að veita nefndinni allar þær upplýsingar, sem hún hefði getað, ef þess hefði verið óskað. Hinsvegar hefir háttv. nefnd fengið mjög svo einhliða upplýsingar frá rekendum þeirra atvinnufyrirtækja, sem verða fyrir þessari gjaldalöggjöf. Mjer skildist það á hv. þm. (JakM), að háttv. nefnd viðurkendi nauðsynina á löggjöf um þetta efni, og er jeg hv. nefnd þakklátur fyrir þá viðurkenningu. Af ræðu hv. þm. og af brtt. hv. nefndar virðist mjer það vaka fyrir hv. nefnd að þjaka ekki um of með þungum álögum fyrirtækjum, sem þegar eru til í landinu og sem þegar hefir, í trausti núgildandi löggjafar, verið lagt mikið fje í. Jeg er hv. nefnd algerlega sammála í þessu efni. En mjer virðist hv. nefnd ganga nokkuð langt, þar sem hún með brtt. sínum fer fram á það, að af þeim vörum, sem ekki hafa verið gjaldskyldar áður, skuli ekki greiða meira fyrsta árið en 1/6 hluta aðflutningsgjalds, en að gjaldíð hækki annaðhvert ár upp í 1/5, 1/4 og loks 1/3 hluta aðflutningsgjaldsins. Þetta væri í sjálfu sjer ekki óskynsamlegt eða ósanngjarnt, ef það næði aðeins til þeirra framleiðslufyrirtœkja, sem þegar hafa verið stofnuð í landinu og menn því vilja ekki koma aftan að með slíkum lögum. En jeg fæ ekki sjeð, að það sje rjettmætt, að ákvæðið nái jafnt til þeirra fyrirtækja, sem óstofnuð eru, þegar litið er á hliðstæðar iðngreinir, t. d. sykurvörugerð, konfekt- og vindlagerð. Af þessari framleiðsluvöru á að greiða hluta aðflutningsgjalds, enda þótt efnin í þessar vörutegundir sjeu öll tollskyld. Til samanburðar skal jeg geta þess, að hv. nefnd ætlast til, að af kaffibæti sje í upphafi greitt 1/6 aðflutningsgjalds og að afnuminn verði um leið verðtollur af efnivörum til innlendrar tollvörugerðar. Það stendur svo sjerstaklega á um kaffibætinn, að tollurinn af honum er 75 aur. af kg. og tekjur landsins af honum um 200 þús. kr. Nú hefir fyrir nokkru verið stofnað nýtt fyrirtæki, er framleiðir kaffibæti hjer á landi, og það fyrirtæki hefir, vegna hins háa innflutningsgjalds, haft alveg sjerstaka aðstöðu. En sá maður, sem kom þessu fyrirtæki á laggirnar, er nú búinn að selja öðrum það. Framleiðsla þessa fyrirtækis er ekki meiri en svo, að hún hefir numið um 28 þús. kg. síðastliðið ár, en innflutningur á sömu vörutegund nam 300 þús. kg. Það, sem ríkissjóðurinn hefir mist þarna vegna þessarar innlendu iðju, nemur því um 21 þús. kr. Jeg veit ekki, hvort það er rjettmætt að hlynna að því, að þessi iðnaður aukist, svo að ríkissjóður missi við það miklar tekjur. Atvinnugrein þessi er svo lítils virði fyrir þjóðina, að jeg tel enga ástæðu til að ganga svo langt sem hv. nefnd gerir með brtt. í því að hlynna að henni á kostnað ríkissjóðs.

Jeg skil það vel, að menn vilja sýna fyrirtækjum, sem þegar eru komin á fót, nokkra ívilnun fyrst í stað. En jeg álít þá leið hina rjettu, að ákveða gjaldið sanngjarnlega hátt, án tillits til, hvort iðnin væri þegar komin á fót eða ekki, en veita svo þeim fyrirtækjum, sem þegar eru stofnuð, ívilnun í hlutfalli við framleiðslumagn þeirra síðasta ár áður en lögin gengu í gildi. Hv. nefnd hefði átt að koma fram með viðaukatill. við stjfrv. um lægra gjald af framleiðslumagni ársins áður en lögin gengu í gildi. Vil jeg biðja hv. nefnd að athuga þetta til 3. umr., því að þetta er vafalaust besta úrlausn málsins. Jeg get ekki sjeð, að það sje neitt harðræði við fyrirtækin, þó að þau sjeu látin bera viðunandi gjöld, þar sem líkindi eru til, að framleiðslan vaxi fram úr því, sem nú er. Aðstaðan fyrir fyrirtækin til þess að bera slík gjöld er miklu hægari, þegar framleiðslan eykst, þar eð almennur tilkostnaður vex hlutfallslega lítið fyrir það.

Um ölgerðina er alt öðru máli að gegna en um kaffibætisgerðina. Ölgerðin er þó iðngrein, sem vissulega má segja um, að sje ávinningur fyrir þjóðina að fá inn í landið. Neysla manna á þessari vörutegund hefir mjög aukist hin síðari ár, og því er það hollara fyrir þjóðina, að hin innlenda framleiðsla á henni aukist en innflutningurinn. Þó að jeg því álíti ekki till. hv. nefndar um kaffibætisgerðina miða í rjetta átt, þá tel jeg brtt. hennar um ölgerðina sanni nær. En hvers vegna hv. nefnd vill ekki láta greiða neitt gjald af sódavatnsframleiðslunni, það er mjer óskiljanlegt. Skil jeg ekki, að um það standi öðruvísi á en t. d. um kaffi, öl eða límonade, en af öllum þeim vörutegundum vill þó nefndin, að greitt sje gjald í ríkissjóð. Sjerstaklega á jeg bágt með að skilja, af hvaða ástæðum hv. nefnd vill ekki láta greiða neitt gjald af sódavatni, þegar þess er gætt, að það er opinbert leyndarmál, að það kemur ekki sjaldan fyrir, að menn bæta bragðið af því með vörum, sem ríkissjóður fær engar tekjur af, og búa þannig til munngát, sem hressir þá engu síður en kaffi og aðrir slíkir drykkir. Sódavatnsgjaldið mundi þannig verka sem neysluskattur á munaðarvöru, og jeg get ekki sjeð neitt við það að athuga. Jeg vildi leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar, hvort hún vildi ekki fallast á það að fella niður síðustu brtt. sína undir staflið D á þskj. 220, vegna þess, að ef sú till. verður samþykt á eftir aðalbrtt., þá er þar með búið að veita kaffibætisgerðinni meiri tollvernd en hún nú hefir eftir gildandi lögum, en það hygg jeg, að hafi ekki verið tilætlun hv. nefndar.