11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Pjetur Ottesen:

Það má segja um undirtektir þær, sem þetta mál hefir fengið, að sjaldan bregður mær vana sínum. Það er altaf svo hjer á Alþingi, þegar talað er um að sameina einhver störf, og það jafnvel þó að það hafi verið ákveðið áður, að þetta skyldi gert, þegar þær kringumstæður væru fyrir hendi, sem gerðu það auðvelt, en þegar svo að því kemur, að þessar kringumstæður eru fyrir hendi og á að fara að framkvæma þetta, þá rísa altaf einhverjir upp og telja þetta fjarstæðu einbera, sökum þess hve mikil störf fylgi þessu og þessu. Hjer hafa t. d. feiknin öll af störfum, sem á fræðslumálastjóra hvíla, verið talin upp, svo að mann alveg sundlar yfir þeim ósköpum, og það er víst, að ef það væri alt rjett, þá væri naumast nokkrum menskum manni kleift að anna því. En það er nú svo um þetta framtal eins og oft vill við brenna undir svona kringumstæðum, að það er gerður úlfaldi úr mýflugunni; sama starfinu eru valin mörg heiti, eins mörg heiti eins og íslenskan frekast leyfir, en hún er eins og kunnugt er, mjög auðug af orðum. Þannig var það nú, að sumt var tvítalið og sumt margtalið. Þannig var eitt af störfum fræðslumálastjóra talið það, að hann væri ráðunautur stjórnarinnar. En um hvað? Vitanlega ekkert annað en þau störf, sem búið var að telja upp. Það er vitanlega erfitt fyrir mig beinlínis að hnekkja því, að margt af því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) taldi upp, geti verið inni á verksviði fræðslumálastjóra og heyrt undir hann, en svo mikið er víst, að eins og fræðslumálastjórastarfið hefir verið rækt, og það til þessarar stundar, þá verður ekki annað. sjeð en að ýmislegt af því, sem háttv. þm. tilnefndi, heyri alls ekki starfinu til.

Þá talaði þessi háttv. þm. um, að með fræðslulögunum frá í fyrra hefðu fallið undir fræðslumálastjóra aukin störf, sem ekki hefðu heyrt undir hann áður, eins og til dæmis skipun skólanefndaformanna á öllu landinu. Þetta er alveg rjett, og jeg gat þess hjer áður sem dæmi upp á það, hve auðvelt væri að sameina þetta starf öðru starfi, að það hefði einmitt fallið í skaut hins núverandi setta fræðslumálastjóra, sem gegnir þessu embætti ásamt sínu, að gera þetta og að hann hefði komið þessu öllu vel af. Eftirleiðis liggur miklu minna starf í þessu, því að þótt skipun formanna skóla- og fræðslunefnda gildi ekki nema til ákveðins tíma, þá þarf ekki að gera ráð fyrir því, að það komi fyrir, að gera þurfi nýja skipun á þessu á einu og sama ári um alt land, Þá tók hann ekki fram, að með þessum nýju lögum stendur fræðslumálastjóri að sumu leyti betur að vígi. Þar sem telja má formenn skóla- og fræðslunefnda fulltrúa hans um fræðslumál, þá gerir það honum eftirlitið að ýmsu leyti ljettara og umfangsminna.

Þá sagði háttv. þm., að bæði þessi störf, sem hjer er gert ráð fyrir að sameina, sem sje fræðslumálastjórastarfið og kennarastarfið við kennaraskólann, væru fullkomin störf. Jeg veit, að hann lítur svo á, en þar er jeg á öðru máli, og má benda þar til fenginnar reynslu. Það horfir t. d. þannig við um kennaraembættið. Starfskraftar kennarans eru einungis bundnir við starfið í 7 mánuði; hinn tíma ársins, eða 5 mánuði, hefir kennarinn frí frá störfum og getur varið þeim tíma eftir eigin geðþótta.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að laun þessara kennara væru svo lág, að þeir yrðu að nota sumartímann til þess að vinna sjer inn fje. En hjer hverfur þessi ástæða, ef þessu er nú á annað borð svona varið, með öllu, því að sá kennaranna, sem tæki að sjer fræðslumálastjórastarfið, fær borgun fyrir þetta starf, svo að hann þarf ekki að nota tímann til að afla sjer tekna á annan hátt. En einmitt þetta verður að taka til greina, þegar verið er að ræða um, hvað sje fult starf.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að hæpið væri að binda fræðslumálastjórann við að vera skólakennari í Reykjavík; hann þyrfti að hafa ferðalög á hendi. En eftir því sem mjer er kunnugt um ferðalög fyrv. fræðslumálastjóra, Jóns sál. Þórarinssonar — og jeg veit ekki betur en að álitið sje, að hann hafi rækt embætti sitt vel og samviskusamlega — þá held jeg, að mjer sje óhætt að segja, að hann muni ekki hafa ferðast neitt í fræðslumálaerindum nema á sumrin. Það er nú einu sinni svo, að vetrarferðalög eru erfið hjer á landi, enda gera embættismenn þeir, sem eftirlit hafa, yfirleitt lítið að slíkum ferðum. Þetta getur því ekki verið nein ástæða í þessu sambandi.

Þá talaði hv. þm. um, að fræðslumálastjóri ætti að hafa eftirlit með unglingaskólunum. Jeg held, að aðalvinna hans við það eftirlit sje að taka þátt í styrkúthlutun handa þessum skólum. Samkvæmt framtali því á störfum fræðslumálastjóra, sem hv. þm. V.-Ísf. þuldi hjer áðan og jeg nú hefi minst á, væri það síður en svo árennilegt að koma þeim störfum svo fyrir sem jeg hefi nú gert tillögur um. En jeg hefi nú gert nokkra grein fyrir því, hvernig þetta framtal er, hvernig þar er í pottinn búið. En það hníga fleiri stoðir undir það, að ekki sje alt með feldu um þetta framtal. Dómur reynslunnar er alveg gagnstæður því, sem hv. þm. V.-Ísf. hefir haldið fram um þetta. Þessi hv. þm. hefir, eins og kunnugt er, gegnt þessu starfi um hríð ásamt sínu eigin embætti, og samtímis á hann sæti á þingi, en þó segir hann, að hann hafi ekki þurft að kaupa út, þrátt, fyrir alt þetta, nema tveggja tíma kenslu á dag.

Jeg fer svo ekki út í fleiri atriði í þessu máli. Hv. deild fellir sinn dóm um þetta. En jeg vil benda á það að lokum, að þegar talað er hjer á Alþingi um að sameina embætti, þá kveður altaf þetta sama við, að ekki megi hrófla við neinu, af því að embætti þau, sem um er að ræða, sjeu svo umfangsmikil, að það sje ógerningur að sameina störfin, því að hjer sje þó sannarlega um að ræða fullkomið starf. Það er altaf þetta ljón á veginum. Mig minnir t. d. ekki betur, þegar talað var um grískudósentinn, en að hann væri talinn fullkomið starf, og svo er um alt. Jeg vildi aðeins benda á þetta, til þess að menn hefðu það líka í huga, þegar greidd verða atkvæði um þessa brtt. mína.