07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

19. mál, varðskip ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer virðist af þessum brtt. hv. 1. minni hl. á þskj. 503, að ekki sje langt á milli álits hans og þess, sem stjórnin hefir lagt til með sínu frv. Mjer skilst, að aðalbreytingin sje aðeins fólgin í því, að launaákvæðin sjeu tekin upp í þetta frv., í staðinn fyrir, að um það hefir verið borið fram sjerstakt frv.

Annars ætla jeg að sneiða hjá þeim smábreytingum, er jeg tel ekki skifta miklu máli, en fara heldur nokkrum orðum um hinar, sem mjer virðast skifta máli og ekki til bóta, eins og t. d. á sjer stað um 5. brtt., þar sem lagt er til, að felt verði aftan af 5. grein frv., að siglingatími sýslunarmanna á varðeimskipunum skuli tekinn til greina sem siglingatími skráðra manna á öðrum eimskipum sömu stærðar í utanlandssiglingum. Þessi tvö orð „í utanlandssiglingum“ leggur 1. minni hl. til, að feld verði niður. En það finst mjer nauðsynlegt, að tekið sje fram, hvort þetta ákvæði eigi eingöngu við innanlandssiglingar eða nái einnig til utanlandssiglinga, af því að það eru mismunandi reglur, sem um þetta gilda hjá okkur, samkvæmt lögum um atvinnu við siglingar.

Þá finst mjer undarlegt að taka frv. frá öðru ráðuneyti og annari nefnd í þinginu og fella það inn í þetta frv. Við höfum haft þá reglu að hafa ákvæði um laun starfsmanna ríkisins í sjerstökum launalögum. Mjer skildist á hv. frsm. þessa hluta nefndarinnar (JörB), að þetta gæti rjettlæst af því, að lagt væri til, að launin yrðu að nokkru greidd úr landhelgissjóði. En þess ber að gæta, að launin eru greidd úr ríkissjóði, þó að landhelgissjóður leggi fram fast tillag á ári. Þess vegna er það ríkissjóður, sem gefur út reikninginn um rekstrarkostnað skipanna árlega. Annars þótti mjer vænt um að heyra það af vörum þessa hv. þm., að sá nefndarhluti, sem hann fylgir, hefir gengið inn á þá hugsun, sem í frv. felst.

Hæstv. forsrh. (JÞ) mun að gefnu tilefni taka til máls um það frv., sem hann hefir borið fram og 1. minni hl. háttv. nefndar vill fella inn í þetta frv., svo að jeg sleppi að fara inn á þá hlið málsins og held mjer að mestu við það frv., sem jeg hefi borið fram, þótt jeg hinsvegar verði að segja, að það sje ekki til neinna bóta að steypa báðum þessum frv. saman, og ekki ástæða til fyrir þennan hv. nefndarhluta að taka traustataki á launafrv. frá hv. fjhn., því að til hennar var því vísað og með það fyrir augum, að sú nefnd kæmi með álit um málið, en ekki hv. allshn.

Jeg skal ekki að svo stöddu fara frekar út í brtt. á þskj. 503. Þær sýnast miklar að vöxtunum, en eru það ekki, þegar þær eru nánar athugaðar. Hv. frsm. (JörB) gerði heldur ekki mikið úr þeim og sagðist fylgja málinu, hvað sem um þær yrði. Að því leyti get jeg þakkað þessum hv. nefndarhluta fyrir það, hvernig hann hefir tekið í málið.

En þar er öðru máli að gegna, er til minsta hl., hv. 4. þm. Reykv. (HjV), kemur. Hann fann frv. alt til foráttu og talaði móti því af miklum móði. Hann taldi upp marga galla á frv. og vitnaði óspart í siglingalögin. En þess ber að geta, að hjer horfir öðruvísi við en um aðra skipverja, af því að þessir starfsmenn varðskipanna eru jafnframt gerðir að sýslunarmönnum ríkisins. Hann fann einnig mjög að því, að ekki væri nægilega tryggilega um búið, að þessir menn gætu fengið endurgreitt úr lífeyrissjóði það, sem þeir hafa í hann látið, þegar þeir láta af starfi sínu og fara úr þjónustu ríkisins. Nú er það svo, að enginn embættis- eða sýslunarmaður á kröfu á endurgreiðslu úr lífeyrissjóði, nema því aðeins, að þeir láti af embætti sakir elli eða vanheilsu. En hjer er þó gerð sama undanþága frá lögunum og gerð hefir verið um símastúlkur, vegna þess hve oft þær skifta um stöðu. Þessir menn eru því að þessu leyti betur settir en allir aðrir starfsmenn ríkisins.

Hann benti á, að því fylgdi mikill rjettur að vera lögskráður skipverji samkvæmt siglingalögunum. En því er til að svara, að það er ekki svo lítill rjettur, sem þessir menn fá með því að verða sýslunarmenn ríkisins, þar sem sú venja er komin á að greiða t. d. sjúkum embættismönnum full laun að minsta kosti um þriggja mánaða tíma, og stundum lengur. Að vísu má segja, að ákvæði um þetta sje ekki í lögum, en þetta er orðin föst venja, sem óþarft er að gera ráð fyrir, að horfið verði frá. Að öðru leyti finst mjer ekki ástæða til að veita þessum mönnum meiri rjett en öðrum sýslunarmönnum.

Hv. sami þm. (HjV) var mikið að tala um utanlandssiglingar og vitnaði í rjett manna samkv. siglingalögum, ef þeir yrðu skildir eftir erlendis. En það er ekki venja að flytja sýslunarmenn ríkisins úr landi og skilja þá eftir erlendis. Slík fjarstæða sem þessi kemur víst engum til hugar nema hv. 4. þm. Reykv.

Þá var hann eitthvað að kvarta undan því, að ekkert ákvæði væri í frv., sem bannaði, að mönnum þessum væri misþyrmt eða látnir hafa ilt fæði. En um þetta er sama að segja og flestar aðfinningar hans, að engin slík ákvæði eru til í lögum um aðra sýslunarmenn ríkisins.

Þá var það sunnudagavinnan, og fanst honum óbærilegt, að engin ákvæði væru í frv., er skipuðu svo fyrir, að starfsmenn varðskipanna fengju aukaborgun fyrir að vinna á sunnudögum. En það er ekki siður að taka slíkt fram um starfsmenn ríkisins. Hjer er líka um tiltölulega ljett störf að ræða og minni vinnu á þessum skipum en t. d. verslunarskipum, sem sigla eftir fastri áætlun. Annars má fullyrða, að það verður engin ekla á því að fá menn á þessi skip, þó að launin sjeu ekki hærri. Það hafa margir komið til mín í atvinnuleit og sagst vilja fremur komast á þessi skip en önnur, af því að þeir líti svo á, að atvinnan væri tryggari en annarsstaðar.

Hann sagði, að þetta frv. væri ekki fram borið til þess að þessir menn fengju hærri laun eða betri kjör, heldur lægju einhverjar aðrar ástæður að baki. Og má það til sanns vegar færa, þó að ekki sjeu það sömu ástæðurnar og hv. 4. þm. Reykv. var að dylgja um. Frv. er fram komið eingöngu í þeim tilgangi að samræma kjör þessara manna við önnur lög, sem fyrir eru um sýslunarmenn ríkisins.

Því, sem hann sagði um sumarleyfi og landgönguleyfi þessara manna, er sama að svara og svo mörgu öðru, að það er ekki siður að heimila sýslunarmönnum sumarleyfi með lögum, þó að hinsvegar sje mjög oft gert að veita það, og mundi sama regla ná til þessara manna sem annara starfsmanna ríkisins.

Þá vildi hann halda því fram, að rjettara væri að semja um kaupgreiðslu og annað við stjettarfjelag sjómanna, en það virðist vera nokkuð hæpin ályktun, þegar tekið er tillit til, hve lengi hefir staðið á slíkum samningum á stundum. Það gæti þá farið svo, að skipin yrðu að liggja dögum eða mánuðum saman hjer við hafnargarðinn og fengjust ekki út hvað sem við lægi. Og þó að þetta kæmi helst fyrir á þeim tíma, sem íslensku togararnir lægju inni, þá gæti þó verið fullilt ástand að hefta strandgæsluskipin, því að erlendir togarar mundu þá gera sjer leik að því að vaða uppi innan landhelginnar.

Nei, aðalatriði þessa máls er að tryggja sem best landhelgisgæsluna, og það verður einmitt best gert með því að gera þessa starfsmenn á varðskipunum að sýslunarmönnum ríkisins, svo að þeir verði sem óháðastir öllum þeim bindandi reglum og ákvæðum, sem ríkja innan stjettarfjelagsskapar sjómanna. Að öðru leyti fann jeg ekki, að ræða þessa hv. þm. gæfi tilefni til andsvara. Jeg get þó minst á það, sem hann sagði um strandgæslu yfirleitt.

Hann tók nú aftur það, sem hann hafði áður sagt, um að skotið hefði verið til aðvörunar á togara í vetur við Öndverðanes. En út af aðfinslum hans um það, að yfirmennirnir á Óðni hefðu ekki mælt fjarlægð togaranna frá landi í hvert skifti, þá verð jeg að segja það, að jeg er viss um, að þeir vanans vegna geta mælt fjarlægðir talsvert nákvæmlega. Og jeg trúi miklu betur slíkri mælingu en staðhæfingu þessa hv. þm. um, að þeir hafi verið í landhelgi, því að hann hefir ekki einu sinni mælt fjarlægðina með auganu. Það er og auðsætt, að þó að strandvarnarskip sjái skip úti á hafi, þá er ekki nauðsynlegt að mæla það í hvert skifti, hvort þau eru í landhelgi eða ekki; slíkt má oftast sjá með fullri vissu. Hv. 4. þm. Reykv. getur því ekki gefið neinar reglur um það, hvenær þörf er á að mæla og hvenær ekki; því verða yfirmenn skinanna að ráða. Hv. þm. kvartaði undan því, að skipin lægju of mikið í höfn, en það kemur ekki vel heim við þá kvörtun hans, að hásetar gætu ekki fengið að koma í land. Skipin geta ekki altaf verið úti á sjó. Þau verða að koma við og við og taka vistir, kol og fá katlana hreinsaða. Þegar þetta er alt samanlagt, þá eru ekki margir dagar, sem Óðinn hefir legið inni að óþörfu. Þór þurfti að gera við í fyrra, en jeg býst við, að hv. þm. taki lítið tillit til þess, eftir annari sanngirni hans að dæma.

Okkar strandvarnarskip hafa altaf legið eins lítið á höfn og unt hefir verið, en það er annað mál, að skipin þurfa ekki ósjaldan að koma í höfn til þess að afla sjer vista og annara nauðsynja.