21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil fyrst þakka hv. sjútvn. fyrir góða afgreiðslu þessa máls og skal taka það fram um brtt, á þskj. 35, að jeg get fallist á þær. Jeg leit að vísu svo á, að undanþágan í fyrstu brtt. fælist í frv. sjálfu, en get gengið inn á það, að nefndin kunni að hafa rjett fyrir sjer.

Um 2. brtt. er ekkert að segja; hún er aðeins afleiðing af hinni.

Þriðju brtt. tel jeg til bóta. Það er rjett hjá háttv. nefnd, að betra er að takmarka heimildina við það, að menn hafi hjer fast aðsetur, þá er lögin ganga í gildi, og er þetta í anda frv. að öðru leyti.

Þá skal jeg minnast á þá spurningu, er hv. frsm. (JJós) beindi til stjórnarinnar um það, hvort eigi væri hægt að setja í reglugerð ákvæði um heilbrigðisvottorð og láta það varða landsvist. Jeg álít, að heimild til þessa sje í lögunum frá 1920, og eftir þessu frv. álít jeg, að heimilt sje að setja reglugerð um þetta efni, því að í 3. gr. frv. stendur, að atvinnumálaráðherra megi binda landsvist erlendra manna þeim skilyrðum og takmörkunum, sem hann telur þurfa vegna hagsmuna almennings eða ríkis. Af þessu leiðir það, að hann getur heimtað heilbrigðisvottorð af þeim, sem hjer vilja setjast að, og vona jeg, að hv. sjútvn. sjái, að ekki er nauðsynlegt að koma fram með brtt. við frv. um þetta atriði.

Þá eru brtt. hv. 5. landsk. (JBald) á þskj. 33, og verð jeg að segja um þá fyrri, að jeg tel hana ekki til bóta. Finst mjer hart að meina mönnum landsvist fyrir það, þótt þeir eigi að fá hjer fæði og húsnæði ókeypis, því að þar er aðeins um undantekningar að ræða. Englendingar, sem eru allra manna strangastir á þessu sviði, leyfa mönnum landsvist, þótt þeir fái fæði og húsnæði ókeypis. Og mjer er kunnugt um það, að það eru ekki fáar stúlkur, sem farið hafa hjeðan til Edinborgar til þess að læra málið og hafa fengið fæði og húsnæði fyrir vinnu sína, en ekkert kaup.

Seinni brtt. hv. 5. landsk. (JBald) get jeg alls ekki fylgt, því að það er of hart að gengið að láta lögin öðlast gildi þegar í stað, eða sama dag og konungur staðfestir þau. Jeg hefi gert ráð fyrir, að frv. fylgdi öðrum frv. frá þessu þingi og yrði þá líklega staðfest í júní. Stjórnin getur eigi ráðið neinu um það, hvenær það er komið í gegnum þingið. Það er líka venja um slík lög sem þessi, að veittur sje nokkur frestur þeim, sem lögin snerta mest. Það þykir lítil kurteisi milli þjóða að fyrirbjóða eitthvað með lögum fyrirvaralaust. Jeg tel, að fresturinn, sem veittur er með frv., sje hæfilegur, og vona, að hv. sjútvn. sje þar á sama máli.

Jeg held, að jeg þurfi þá ekki að segja meira um brtt., sem liggja fyrir, en endurtek að síðustu þakkir til hv. nefndar fyrir það, hve vel hún hefir tekið undir þetta mál.