17.03.1927
Neðri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Þórarinn Jónsson:

Jeg get verið fáorður um þau atriði, sem jeg þarf að drepa á, því að fáar athugasemdir hafa verið gerðar við það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni.

Hæstv. atvrh. vjek að því út af ræðu minni, að bera saman, hve mikið þetta sjerleyfi væri betra fyrir landið heldur en hitt, sem veitt var í fyrra, og sagði, að það munaði 41/2) milj. kr. Það, sem jeg tók fram um þetta, var almenns efnis, og það var ekki ástæðulaust, því að eftir því, sem um fleiri sjerleyfi er að ræða, því meiri ástæða er til þess að vera varkár í þeim efnum.

Þá var hæstv. atvrh. að tala um það, að tillag ríkissjóðs til þessa fyrirtækis væri ekki mikið á móts við það, sem við fengjum í aðra hönd. Jeg benti á það í fyrri ræðu minni, að svo mikið á að gera fyrir fjelagið með þessu sjerleyfisfrv., að það væri alveg nóg, enda þótt framlag ríkissjóðs væri dregið þar frá. Það er sýnilegt, að í samningunum hafa aðiljar viljað gera sem mest hvor fyrir annan — stjórnin vill láta fjelagið fá sjerleyfið og þykist ánægð með að fá járnbrautina í staðinn, enda þótt hún verði að leggja 2 milj. króna til hennar og taka til þess lán. Sjerleyfishafar látast vilja gera alt fyrir stjórnina til þess að reyna að draga inn lán á sjerleyfinu og sýnast hafa talið henni trú um, að þeir myndu leggja fje í járnbrautina, þó ekki yrði meira aðgert. En það vita allir, sem nokkuð hugsa um málið, að járnbrautin er hjer aukaatriði. Það er virkjunin, sem er aðalatriðið.

Þá er á hitt að líta, á það, hve miklar líkur eru til þess, að fjelagið, sem er hlutafjelag, fái nægilegt fje til þessarar virkjunar. Það er að vísu sýnilegt, að fjelaginu er mikið í mun að fá sjerleyfið, til þess að geta fengið peninga. En þá er spurningin sú: Hvaða peningamenn vilja leggja fje í fyrirtæki þetta, og hvað vilja þeir leggja mikið fram?

Samkvæmt frv. á fjelagið að greiða 5 kr. gjald af hverri nýttri hestorku eftir 10 ára tíma, eða 800 þús. kr. á ári. Það er mikið fje, sjerstaklega þegar þess er gætt, að margir peningamenn munu líta svo á, að það sje mikið efamál, hvort fyrirtækið geti borið sig með slíkum kostnaði, og bera þar fyrir sig reynsluna annarsstaðar.

Þá var það eitt atriði, sem sýndi trú hæstv. atvrh. á þessu máli, og að hún er öll bundin við járnbrautina. Hann sagði, að við fengjum með þessu 83 km. járnbraut, eiginlega fyrir ekki neitt, því að við mundum eignast hana, ef stöðvun yrði á virkjuninni. Þessi trú og skoðun hefir ekki aðeins komið fram hjá hæstv. atvrh., heldur einnig hjá hv. frsm., að ef virkjuninni yrði ekki haldið áfram, þá eignuðumst við járnbrautina fyrir sama sem ekki neitt. Þetta er nú svo ótrúlegt, að það er ekki berandi fram fyrir neinn mann. Jeg get alls ekki búist við því, að þeir, sem að fjelaginu standa, sjeu þeir aular, að þeir ætli sjer að leggja 5 milj. kr. í þennan járnbrautarspotta fyrir Íslendinga, og aðeins þeirra vegna. Nei, þeir leggja aldrei brautina, nema með því að fje fáist nægilegt til alls fyrirtækisins. Það er því eins og hver annar barnaskapur að telja frv. þetta til gildis.

Þá skal jeg snúa mjer að því, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði. Hann var að furða sig á brtt. okkar á þskj. 162, sjerstaklega brtt. við 9. gr. En þetta þurfti honum ekki að þykja neitt undarlegt, þar sem hann veit, að jeg hefi enga trú á því, að ríkissjóður reki járnbraut fyrir sinn kostnað. Eða hvernig heldur hann, að farið hefði, ef ríkissjóður hefði átt að starfrækja hjer járnbraut meðan á kolaverkfallinu stóð? Og jeg hefi ekki heldur trú á því, að hún beri sig í höndum fjelags eða einstaklinga.

Hv. þm. var mjer sammála um það, að viðsjárvert væri að veita mörg slík sjerleyfi sem þetta, og sagðist alls ekki vilja láta veita fleiri. Þetta sýnir það, að hann hefir enga trú á gildi járnbrautarinnar. Það má hann vita, að frá öðrum landshlutum geta komið samskonar sjerleyfisbeiðnir, bygðar á alveg eins rjettmætum grundvelli. Þeim vill hv. þm. engan gaum gefa; hann er aðeins að hugsa um sitt eigið hjerað, að það fái þessa samgöngubót á kostnað alls landsins.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) kom lítið að því, sem jeg hafði áður sagt, en hann gaf það í skyn, og meinti það víst til mín, að maður á sjávarbakka gæti ekki borið skyn á þetta mál. Jeg held, að hv. þm. hafi þarna orðið mismæli. Hann hefir víst meint manninn á Eyrarbakka. Hv. þm. er dómari og vill eflaust vera rjettdæmur, og af því leiðir, að hann verður að þekkja þann mann vel, sem hann dæmir. Hann kvað nú vera nákunnugur þessum manni á Eyrarbakka, sem svona er ástatt um, og ekki talið laust við, að hann sje „partiskur“ líka.

Þá sagði sami hv. þm. (MT), að það lýsti vantrausti á stjórninni hjá mjer að vera á móti þessu máli. Hann þurfti nú svo sem ekki að ganga í grafgötur um það; honum er það vel kunnugt, að á síðasta þingi treysti jeg stjórninni ekki til þess að fara með járnbrautarmálið. Og þótt jeg sje stuðningsmaður hæstv. stjórnar, þeirrar, sem nú er, þá hefi jeg þó hvorki selt henni nje neinni annari stjórn sannfæringu mína. Það skal jeg þó viðurkenna, að málið lítur nú öðruvísi út en í fyrra, en samt vorkenni jeg stjórninni, að hún skuli hafa tekið það upp á arma sína.

Hv. frsm. gerði þá athugasemd við ræðu mína í gær, að jeg hefði brotið þingsköpin með því að tala alment um málið. (KIJ: Nei, nei!). En það vita nú allir, að hjer í deildinni er talað alment um mál við allar umr. Honum þótti það óviðeigandi hjá mjer að geta þess til, að ríkissjóður yrði að leggja fram fyrsta fjeð til járnbrautarinnar. En frv. ber það ekki með sjer, að svo geti ekki farið. Stjórninni eru engar hömlur settar um það að leggja ekki fram þessar 2 milj. króna áður en fjelagið leggur nokkuð fram.

Það hefir verið talað um, að við hv. þm. N.-Þ. (BSv) tækjum aftur brtt. okkar. Það geri jeg ekki fyrir mitt leyti, og jeg skal lýsa yfir því, að ef þær brtt. verða ekki samþ., þá greiði jeg atkv. á móti frv.