26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer þótti leitt að heyra það, að háttv. þm. Str. (TrÞ) er andsnúinn frv., því að jeg hafði gert mjer von um, að hann yrði því meðmæltur. En það er nú öðru nær.

Hann sagði, að ekkert tryggilegt eftirlit gæti orðið með áburðarframleiðslunni samkv. frv. En ef við lítum á sjerleyfislögin, þá er það sýnilegt, að 11. gr. frv. tryggir það, að ríkisstjórn getur haft fullkomið eftirlit með framleiðslunni, ef hún vill.

Út af orðum hv. þm. um afurðasölu til landsmanna, þá vil jeg geta þess, að samkvæmt sjerleyfislögunum er hægt að krefjast þess að fá ákveðið magn af framleiðslunni fyrir lægra verð en almenningur á kost á. Jeg er þó ekki á móti því, að till. í þessa átt verði samþykt, en jeg felli mig betur við till. háttv. nefndar heldur en till. hv. þm. Str. Það verður altaf álitamál, hvað mikið á að taka í lögin sjálf og hve mikið í sjerleyfið. Hjer var farin sú leið að taka sem minst í lögin, en vísa til sjerleyfisins, eins og gert er í 11. gr. Þetta hefi jeg margskýrt.

Hv. þm. Str. sagðist vera á móti því að veita erlendu fjármagni inn í landið. Jeg held, að það sje ekki rjett að vera á móti því, hvernig sem á stendur. Peningarnir eiga að vinna okkur gagn, en þótt þeir vinni útlendingum jafnframt gagn, þá er það ekki næg ástæða til þess að vera á móti því, að þeim sje veitt inn í landið. Og jeg held, að þess verði langt að bíða eftir, að samtök bænda hjerlendis og erlendis verði svo sterk, að þau geti annað þessu verki, eins og hv. þm. Str. óskaði. Og ef við ættum að bíða eftir þeim, þá yrðum við að bíða lengi eftir þessari samgöngubót.

Háttv. 1. þm. Reykv. hefir nú komið hjer fram með brtt., sem á að vera til vara. Jeg veit satt að segja ekki, hvað hann meinar með henni, eða hvort það má skilja hann svo, að hann ætli sjer að greiða atkvæði með frv., ef þessi brtt. skyldi verða samþ. Jeg fæ ekki sjeð, að brtt. sje svo merkileg, að það skifti miklu máli, hvort hún er samþ. eða ekki.

Hv. þm. sagði um daginn, að útlendingunum væri heimilt að láta járnbrautina liggja ónotaða, ef þeim sýndist svo. Þetta er ekki rjett. í sjerleyfislögunum er ákvæði um það, að ef sjerleyfishafi hættir framkvæmdum, þá skuli setja eignir hans á uppboð, og ríkið hefir þá forkaupsrjett, þannig, að það getur gengið inn í hæsta boð, en þarf ekki að gera yfirboð.

Hv. þm. mintist á brtt. á þskj. 246 og áleit, að ekkert væri með henni unnið. En hann leit ekki á það, að álagningin má ekki fara fram úr 5% af vinslukostnaðinum og að 10 sinnum meira er lagt á tilbúinn áburð frá erlendum verksmiðjum.

Þá vil jeg minnast á sporvídd brautarinnar. Jeg hefi talað um þetta efni við vegamálastjóra, og hann hyggur, að það sje varlegra að setja ekkert ákvæði um þetta í lögin sjálf. Tvær sporvíddir gætu komið til greina, 1 meter eða sú sporvídd, sem getið er í till. háttv. 1. þm. Reykv. Metervídd er notuð á þeim brautum í Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð, þar sem ekki er mikil umferð, en breiðari brautir eru í Noregi og Englandi. Vegamálastjóri sagði, að það mundi hægt að fá mikið ódýrari teina handa 1 meter braut í þeim löndum, sem nota þá sporvídd, og þess vegna vill hann ekki, að í lögunum sje ákveðin nein sporvídd. En þótt þetta komi ekki í lögin, þá er ekki þar með sagt, að sporvíddin geti ekki orðið sú sama, sem hv. 1. þm. Reykv. vill. Það ræður mestu þar um, hvaðan bestu tilboðin geta komið um teinana.