30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður og litlu við að bæta það, sem jeg sagði áður. Jeg vil þá hefja mál mitt með því að þakka þeim báðum hv. 2. þm. Rang. (EJ) og hv. 4. landsk. (MK) fyrir þann stuðning, er þeir hafa þegar veitt frv. þessu.

Að svo mæltu vil jeg snúa mjer að hv. 5. landsk. (JBald). Hann var með sömu tortryggnina í garð þessa máls, en ekki var hún á sterkari rökum reist en áður.

Hann þykist ekki geta sjeð, að sjerleyfið falli niður, ef fjelagið hefir ekki byrjað á járnbrautinni 1. maí 1929. Það stendur þó skýrum stöfum í 11. gr. frv., að „sjerleyfishafi skal hafa byrjað á lagningunni eigi síðar en 1. maí 1929“. (JBald: Og hvað svo?). Ja, hvað svo, — er þetta ekki svo skýrt, að það taki af öll tvímæli í þessu efni? Þá liggur við missir sjerleyfisins. Jeg veit, að hv. þingmaður skilur þetta og að hann er ekki að spyrja um þetta í þeim tilgangi, að hann búist við að fá frekari upplýsingar, heldur mun annað liggja hjer á bak við.

Þá var hann eitthvað að tala um það, að um veitingu slíkra sjerleyfa færi öðruvísi hjá stórþjóðunum en í okkar fámenni. Jeg veit ekki, hvað hann hefir fyrir sjer í þessu, en hitt er mjer kunnugt um, að t. d. í Noregi eru gefin út mörg sjerleyfi án þess að peningar sjeu fyrir hendi til þess að byrja á framkvæmdunum. Jeg er og hræddur um, að við þyrftum lengi að bíða eftir því, að menn fengjust til þess að leggja fje í stórfyrirtæki hjer, yrði þeim gert að skyldu að sýna það, að fje til framkvæmdanna væri lagt hjer inn í banka áður en leyfið yrði veitt.

Þá var hann að vitna í orð hæstv. fjrh., að hann hefði sagt í fyrra, að ríkissjóður gæti lagt fram þessar 21/2 milj. kr. til þess að byrja á brautarlagningunni. En því var aldrei lýst yfir, að peningar þessir væru í kassa. (JBald: Þetta eru árásir á embættisbróður hæstv. ráðh.). Hv. þm. sleit orð hæstv. forsrh. (JÞ) úr samhengi. Hann tók það einmitt fram, að vegna fjárhags ríkissjóðs mundi óhætt að ætla honum að leggja fram 21/2 milj. kr., en nefndi ekki hvenær. (Forsrh. JÞ: Þetta er alveg rjett eftir mjer haft).

Mjer finst, að hv. 5. landsk. vilji lítið gera fyrir þetta mál. Þó telur hann, að hjer sje bæði um stórt framfara- og nauðsynjamál að ræða, en vill þó ekkert fyrir það gera.

Þetta sjest best á því, er hann setur sig á þann háa hest að fella dóma yfir áliti vegamálastjóra um vegaviðhaldið framvegis. Hann segir með miklum þjósti, að ekkert muni sparast í vegaviðhaldi austur yfir fjall, þó að járnbraut verði lögð. Veit þá ekki hv. þm., hvað það er, sem mest slítur vegunum og gerir kostnaðinn við viðhaldið eins mikinn og nú er? Veit hann ekki, að það eru bílarnir, hlaðnir þungavöru, sem rista vegina sundur og skera bæði haust og vor? Þegar járnbraut væri komin, mundi hún annast um flutning á mestallri þungavöru, og þó að einhver umferð hjeldist um veginn, þá yrðu það mest ríðandi menn eða fólk í skemtibifreiðum.

Annars mætti spyrja hv. þm., hvað hann meini með því, að nauðsyn sje á, að járnbraut verði lögð, ef það er skoðun hans, að sama verði umferð um vegina eftir sem áður. Því ef það er í alvöru mælt hjá honum, að flutningar um vegina verði hinir sömu, þá er ekki forsvaranlegt af honum að halda því fram, að ríkið eigi að leggja brautina á sinn kostnað. Þetta um vegaviðhaldið var því illa og grálega mælt hjá honum og getur ekki verið sagt til annars en að blekkja aðra.

Annars þarf hann ekki að vera að ráðleggja stjórninni, hvernig hún eigi að fara að, ef frv. þetta verður að lögum. Ef koma ætti til minna kasta að veita sjerleyfið, þá mundi ekki standa á mjer að gefa það út, þó að fjelagið hefði ekki handbæra þá peninga, sem þarf til járnbrautarlagningarinnar.

Það er ekki rjett hjá honum, að ómögulegt sje að framkvæma virkjun Urriðafoss án járnbrautar. Það er mögulegt, en erfitt.

Þá spurði hann um, hvað mikið fje mundi þurfa til virkjunar Urriðafoss. Það hefir nú verið margtekið fram, að til þess að virkja allan fossinn mundi þurfa 40–50 milj. króna. En sennilega verður ekki öll vatnsorkan beisluð strax, heldur smátt og smátt, og þarf þá miklu minna fje í bili.