22.03.1927
Neðri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi komið fram með brtt. við frv., á þskj. 169, ásamt hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Brtt. fer fram á það, að lögin gangi í gildi 1. júlí í stað 1. október, eins og ætlast er til í frv. Eins og kunnugt er, þá kom fram brtt. um þetta atriði í hv. Ed., þess efnis, að lögin gengju í gildi þegar í stað, en sú brtt. var feld. Jeg var ekki viðstaddur umræðurnar í hv. Ed. og veit því ekki ástæðurnar fyrir því, að till. var feld þar. En jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stjórn hafi þótt nauðsynlegt að fá frest til þess að geta kynt lögin í nágrannalöndunum, áður en þau gengju í gildi. Jeg álít, að með till. okkar sje fresturinn gefinn svo ríflegur, að hann ætti að nægja. Málið er komið frá hv. Ed., og þó að frv. fari þangað aftur til einnar umr., þá ætti það að geta orðið að lögum eftir fáa daga. Það yrði þá um þriggja mánaða frestur frá því lögin væru samþykt og þangað til þau gengju í gildi, sem mætti nota til þess að kynna þau erlendis, Ástæðan fyrir því, að jeg fer fram á það, að lögin öðlist gildi 1. júlí, er sú, að mjer hafa borist óskir um það úr kjördæmi mínu, að þau gengju í gildi fyrir síldveiðitímann. Ef það er nauðsynlegt að fá þessi lög til þess að tryggja atvinnu innlendra verkamanna, þá er vitanlega sama nauðsyn á því nú í sumar og næsta sumar. Fólkið fer til verstöðvanna í atvinnuleit á vorin, hvort sem horfurnar með atvinnu eru góðar eða ekki, og ef fólkið er komið á annað borð, þá er betra, að það hafi atvinnu, en komi ekki aftur á haustin með tvær hendur tómar. En atvinnan er tekin af þessu fólki, ef útlendingar flytjast mjög inn í landið. Till. okkar stefnir að því, að þetta verði síður í sumar en ella. Það er hætt við því, að hæstv. stjórn þyki þessi tími fullstuttur. Þó er þessi till. aðgengilegri en till. í hv. Ed., og ætti hæstv. stjórn að geta gengið að þessari till., þó að hún hafi ekki getað gengið að till. í Ed.

Hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (SigurjJ), gat þess, að nefndin hefði ekki orðið sammála um að flytja brtt. á þskj. 167, um að bæta inn í 2. gr. frv. lið um það, að erlend vinnuhjú megi ráðast til sveitavinnu. Jeg get kannast við það, að það getur verið gott í ýmsum tilfellum að fá erlenda menn til sveitavinnu, en í 4. gr. frv. er nægileg heimild til þessa. Jeg býst við því, að ef svo bæri við, að þetta reyndist nauðsynlegt, þá mundi atvrh. veita leyfi til þess samkvæmt 4. gr. En jeg álít, að það sje ekki gætilegt að ákveða það svo í frv., að bændur megi flytja inn erlenda vinnumenn skilyrðislaust. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, þá hafa komið fram opinber mótmæli gegn innflutningi erlendra verkamanna, bygð á þeirri sýkingarhættu, sem af því gæti stafað, nefnilega að þeir gætu borið með sjer gin- og klaufaveiki. Jeg skal engan dóm leggja á það, hvort nokkuð sje að óttast í því efni. En hitt er víst, að veiki þessi er sá vágestur, að full ástæða er til að fara varlega. Háttv. frsm. (SigurjJ) gat þess, að ekki væri hægt að loka landinu fyrir erlendum ferðamönnum o. s. frv. En þetta er ekki sambærilegt. Hann hlýtur að sjá, að það stafar miklu meiri hætta af verkafólki, sem ef til vill fæst við að hirða skepnur, heldur en af ferðamönnum.

En auk þessa er einnig ástæða til að efast um það, að heppilegt sje fyrir þjóðina að flytja inn fólk í stórum stíl, enda geri jeg ráð fyrir, að það fólk, sem hingað flyttist í þessu skyni, yrði ekkert úrval. Jeg tel, að frá sjónarmiði sveitamanna sje það mjög varhugavert að samþykkja þessa tillögu, enda að mínu áliti óþarft, þar eð í 4. gr. frv. felst nægileg heimild til þess að flytja inn verkafólk til sveitavinnu, ef þess gerist brýn þörf. Það er sá munur á frv. og till., að með frv. er innflutningurinn háður eftirliti stjórnarinnar, og leyfi ekki veitt, nema það sje nauðsynlegt og hættulaust, en eftir till., þá er innflutningurinn eftirlitslaus, en það tel jeg mjög varasamt.