28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3441 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg held, að við frsm. meiri og minni hl. hefðum getað komið okkur saman um að taka ekki til máls, því að hv. þm. forðast eins og heitan eldinn að vera hjer inni í salnum, er rætt er um þetta mál. (KIJ: Já, það er alveg dæmalaust, hvernig mennirnir geta hagað sjer).

Á þinginu 1919 var það lögtekið, að fjárlagaþing skyldi háð árlega og kjörtímabilið sett 4 ár og þing á hverju ári, í stað 6 ára áður með 3 þingum. En þá hafði um nokkurra ára bil, eða frá 1911, verið háð þing á hverju ári. Fyrst ollu þessu breytingar á stjórnarskránni, en svo skall ófriðurinn á, en þá þótti það óhjákvæmilegt að hafa þing á hverju ári. Til þessara atburða, einkum þó þess ástands, er af ófriðnum leiddi, átti það rót eina að rekja, að till. komu fram um það á þinginu 1919, að reglulegt fjárlagaþing skyldi háð árlega. Þetta náði samþykki þings og þjóðar með þeim hætti, sem lög standa til um breytingar á stjórnarskránni. En nokkuð voru þó skiftar skoðanir um þessa breytingu. Á þinginu 1919 komu fram í báðum deildum till. um að breyta þessu þannig, að hin gömlu ákvæði um reglulegt þing annaðhvert ár hjeldust áfram. Var því haldið fram, að ekki væri rjett að draga þá ályktun af þeim atburðum, sem hefðu orðið þess valdandi, að þing hefði verið haldið á hverju ári þá um nokkurt skeið, að óhjákvæmilegt væri, að svo skyldi og vera framvegis. Það var og á það bent, að þó miklar breytingar hefðu orðið á atvinnuháttum landsmanna, þannig að framleiðsla, verslun og framfarir hefðu aukist mikið, þá væri það þó engan veginn svo, að breyting og aukning á löggjöfinni annaðhvert ár þyrftu nokkuð að standa í vegi aukinna framfara og aukinnar fjölbreytni atvinnulífsins. Einnig var því haldið fram, að slík breyting mundi auka mjög útgjöld ríkissjóðs, beint og óbeint, — beint með auknu þinghaldi og óbeint með því að opna fjárlög á hverju ári. Einnig var ekki mikið úr því gert, sem þá var mjög á lofti haldið af þeim, sem að stjórnarskrárbreytingunni stóðu, að með þinghaldi á hverju ári mundu þingin verða miklu styttri en ella.

Jeg held, að það megi nú nokkurnveginn með sanni segja, að þær ástæður, sem bæði jeg og þeir aðrir, sem stóðu á móti þessari breytingu á stjórnarskránni 1919, hjeldu þá fram, hafi nokkurnveginn ræst. Það verður ekki annað sjeð en að fullkomlega hefði verið hægt að fullnægja þörfum landsmanna með breytingum á löggjöfinni, þó þing hefði ekki verið haldið nema annaðhvert ár. Kostnaðurinn við þinghaldið hefir sem kunnugt er orðið geysimikill, og síst minni en áður; 1921 var hann 384 þús. kr., en færðist niður í 202 þús. kr. 1924. Um óbeina kostnaðinn, sem af því leiðir, að fjárlög eru opnuð árlega, er vitanlega hægt að segja það, að hann er geysimikill. Ákveðnar tölur er að vísu ekki hægt að telja fram því til sanninda. En hitt er víst, að eftir því, sem sá hugsunarháttur eykst, sem nú bólar orðið mikið á, og má benda á æðimarga staði í fjárlögum síðustu ára því til sönnunar, þó ekki sjeu nú nefndar allar umsóknirnar, sem þinginu berast árlega, — að menn í stað þess að sækja brauðið í skaut náttúrunnar, heimta fjárframlög úr ríkissjóði til allra hluta. Einkum gera þeir menn þetta, sem lifa í hugsjóna- og draumóraheimkynnum, sem litla eða enga stoð eiga í veruleikanum. Þess vegna er ekki hægt að komast framhjá því, að óbeini kostnaðurinn við þinghald á hverju ári hefir verið og mun verða mun meiri heldur en ef þing væri ekki háð nema annaðhvert ár.

Hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að þingin mundu verða lengri, ef þau væru ekki haldin nema annaðhvert ár. En jeg held, að ekki sje mikil ástæða til þess að óttast það. Þingin síðan 1919 hafa, svo sem kunnugt er, síst verið skemmri en þingin næstu þar á undan, þar sem fjárhagsáætlun var gerð til tveggja ára. Enda er það augljóst mál, að það er enginn geysimunur á því fyrir þingið að afgreiða fjárlög til eins eða tveggja árs, en hitt er vitanlegt, að það liggur nokkuð meira verk í undirbúningi fjárlagafrv., sem grípur yfir tveggja ára fjárhagstímabil, af hendi stjórnarinnar heldur en þegar ræða er um fjárlög fyrir eitt ár. En þess ber líka að gæta, að stjórnin hefir ólíkt betri tíma til þess að undirbúa fjárlagafrv. og önnur lagafrv., ef þing er ekki háð nema annaðhvert ár, en það út af fyrir sig ætti að verða til þess að skapa meiri festu og öryggi í löggjafarstarfinu, eins og bent er á í nál. minni hlutans. Einnig koma inn í þingið alveg jafnt þó þing sje háð á hverju ári ýms mál, sem eru þannig vaxin, að þau geta ekki náð samþykki, en veltast eigi að síður fyrir og valda töfum á afgreiðslu annara mála, og verða þannig til þess að lengja þingið.

Með þessu, sem jeg nú hefi sagt, virðast mjer vera leidd rök að því, að þeir, sem voru á móti þessari stjórnarskrárbreytingu á þinginu 1919, hafa getið sjer rjett til um það, hvernig fara mundi um þessa breytingu. Enda fór það svo, að þess var ekki langt að bíða, að það færu að heyrast óánægjuraddir með þetta fyrirkomulag meðal þjóðarinnar. Á þingunum 1923 og 1924 komu fram ýmsar till. til breytinga á stjórnarskránni, þar á meðal að hafa þing ekki nema annaðhvert ár, en þær breytingar náðu þá ekki samþykki. Annars er gangi þessa máls lýst í aths. við stjfrv., og þarf því ekki að fara nánar út í það hjer.

Nú á þessu þingi eru komnar fram ekki færri en 3 till. til breytinga á stjórnarskránni, ein frá hæstv. stjórn og tvær frá þm. í Nd. Stjfrv. hefir nú gengið í gegnum Ed. og liggur nú hjer fyrir til umræðu. Það má sjá af nál. meiri og minni hl. stjórnarskrárnefndarinnar, að nefndin hefir ekki getað komið sjer saman. Það sjest nú af nál., hvað það er, sem á milli ber, og auk þess hefir háttv. frsm. meiri hl. (JakM) gert grein fyrir skoðun meiri hlutans. Frá mínum bæjardyrum sjeð, þá tel jeg það æskilegast, að breytingar hæstv. stjórnar á stjórnarskránni næðu fram að ganga. Þó get jeg verið því samþykkur, að heimildin til þess, að ákveða megi með einföldum lögum, að reglulegt þing skuli háð á hverju ári, verði feld niður úr frv. Með því móti er það betur trygt, að ekki sje verið að hringla með þetta aftur og fram, þó jeg geri nú ekki ráð fyrir því, að þeir, sem hafa tilhneigingu í þá átt, verði í meiri hluta nú um alllangt skeið. Það má vel sjá fyrir löggjafarstarfinu með þinghaldi annaðhvert ár, og jeg tel enga ástæðu til þess að gera mönnum auðveldara fyrir með að breyta því, heldur láta slíkt hlíta ákvæðum stjórnarskrárinnar. Brtt. um þetta efni, að fella niður síðustu málsgrein 1. gr. frv., mun koma fram við 3. umr. Jeg veit ekki betur en að með því samkomulagi, sem náðist í nefndinni, þá væru allir nefndarmenn með þessari breytingu um þinghald annaðhvert ár. Því kemur mjer undarlega fyrir sjónir ein klausa í nál. meiri hl. En hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „En auk þess er það skilyrði fyrir fylgi meiri hluta nefndarinnar við frv., að enn frekari breytingar verði gerðar á þinghaldinu en stjórnarfrv. gerir, einnig í þeim tilgangi að draga úr þingkostnaðinum“. Hjer er vitanlega átt við þá breytingu að leggja niður landskjörið. Jeg vona, að hjer sje of mikið sagt, því það gæti svo farið, að með þessu væru brotnar allar brýr að því, að höfuðatriði þessa frv., þinghald annaðhvert ár, nái fram að ganga.

Þá hefi jeg gert grein fyrir fyrstu höfuðbreytingunni, sem felst í þessu frv. Er þá næst að minnast á þá breytinguna, sem stendur í mjög nánu sambandi við breytinguna um að halda reglulegt þing aðeins annaðhvert ár, það er breytingin á kjörtímabilinu, að það skuli vera 6 ár, í stað 4 nú, og kosið til þriggja þinga eins og áður var, meðan reglulegt þing var ekki háð nema annaðhvert ár og fjárhagstímabilið var 2 ár. Það er ekki að öllu leyti rjett, sem haldið hefir verið fram, að með því að ákveða kjörtímabilið eins og hjer er lagt til, þá sje þar með verið að draga valdið úr höndum kjósenda. Það er ekki rjettmætt að draga þá ályktun af þeim forsendum.

Samkvæmt þessu fyrirkomulagi, sem hjer er lagt til, taka hinir kjörnu þm. ekki þátt í löggjafarstörfum nema á 3 þingum á kjörtímabilinu, í stað þess, að þeir gera það nú á 4 þingum, en við þá tímalengd, sem ætluð er til löggjafarstarfsins á hverju kjörtímabili, verður vitanlega fyrst og fremst að miða, þegar talað er um vald kjósendanna hvað þetta snertir. Það má því með jafnmiklum rjetti segja, að vald kjósendanna sje aukið með þessari breytingu að því leyti, sem þá verða ekki nema 3 þing á kjörtímabilinu, í stað 4 nú, eins og að halda því fram, að það skerði rjett kjósendanna, að kjörtímabilið skuli ná yfir fleiri ár. Mjer finst því, að það megi a. m. k. líta svo á, að þetta vegi hvað upp á móti öðru. En úr þessu er í sjálfu sjer ekki svo mikið gerandi, að ástæða sje til að setja sig upp á móti breytingunni þess vegna. Ekki hvað síst þegar litið er á það, hvað þjóðir, sem hafa miklu þroskaðra þingræði en við, gera í þessu efni. í Englandi er þannig kosið til 6 eða 7 ára og í nágrannalöndum vorum til 4 ára og þing háð á hverju ári. Stafar það af því, að það er ekki talið heppilegt fyrir afgreiðslu þingmálanna, að altaf sje kosningaeldur uppi í landinu, þó að hinsvegar sje nauðsynlegt að hafa kosningar á hæfilegum fresti, til þess að menn fái tækifæri til þess að hugsa um þjóðmál. Þessi breyting verður því að teljast rjett.

Þá kem jeg að 3. höfuðbreytingu frv., um að kjörtímabil landsk. þm. er stytt í 6 ár úr 8 árum og að þingrof nái einnig til þeirra. Er því að því leyti, sem haldið er fram, að íhlutunarrjettur kjósenda sje skertur að því er snertir kjördæmakosna þm., þá má segja, að hann sje aukinn að því er snertir landsk. þm. með breytingu þessari. En jeg legg ekki mikið upp úr því. Hinsvegar tel jeg rjett að láta kosningu landsk. þm. fara fram um leið og hinna kjördæmakosnu. Það er ekki hægt að vekja alment áhuga manna á kosningum, þegar kjósa á aðeins 3 landsk. þm. í einu. Er því þetta fyrirkomulag heppilegra í alla staði; á þennan hátt nær sá áhugi og þátttaka, sem annars er hægt að vekja hjá kjósendum, einnig til þessara kosninga, og auk þess hefir það í för með sjer allmikinn sparnað fyrir ríkissjóð og allan almenning að sameina kosningarnar.

Þá kem jeg að 4. breytingunni, um það að fyrirbyggja, að þó að aðal- og varamaður á landskjörslista falli frá, þá þurfi að efna til nýrra kosninga. Þó að ætlast hafi verið til þess, þegar ákvæðið um þetta efni var sett í stjórnarskrána, að ekki skyldi efnt til nýrra kosninga, þegar svona stæði á, þá er orðalagið svo tvírætt, og út af því fjell á síðasta hausti úrskurður um það, að kosningar skyldu fara fram. Er því nauðsynlegt að taka upp í stjórnarskrána ákvæði, er girði fyrir þetta. Þá er og gert ráð fyrir því, að ákvæði þetta nái einnig til hinna hlutbundnu kosninga í Reykjavík, þannig að varamennirnir á hverjum lista komi til greina í stað þeirra, sem forfallast, meðan til vinst.

Þá er það enn ein brtt., sem máli skiftir og jeg hefi ekki minst á, en það er, að meiri hl. beggja deilda geti krafist aukaþings. Það getur vel verið, að þau atvik beri að höndum, að nauðsynlegt sje að hafa slíkt ákvæði í stjórnarskránni.

Hitt atriðið, sem felst í 3. málsgr. 1. gr., að heimilt sje að ákveða með einföldum lögum, að reglulegt Alþingi skuli háð árlega, álítur minni hl. að sje til spillis í frv. Þetta ákvæði á að vera háð hinum venjulegu ákvæðum stjórnarskrárinnar. Jeg hafði búist við, að brtt. um þetta kæmi fram frá nokkrum mönnum í meiri hlutanum, en svo hefir ekki orðið, og mun minni hl. því bera fram brtt. um það við 3. umr. að fella þetta niður úr frv.

Þá vil jeg geta þess, að jeg hygg, að það, sem jeg sagði um það ákvæði frv., að þing skuli háð annaðhvert ár, hafi annars frekar verið talað fyrir munn meiri hl. í meiri hl. í stjórnarskrárnefndinni heldur en það, sem hv. frsm. sagði um það efni, enda færði hann engin rök fram fyrir þeirri breytingu, sem ekki var heldur að vænta, þar sem hann sagðist engin slík rök hafa.

Þá kem jeg að brtt. hv. meiri hl. um það, að leggja niður landsk. þm. Jeg hefi þegar getið þess, að í nál. minni hl. er ekkert tekið af um það. nema minni hl. gæti verið því samþykkur í sjálfu sjer. En eins og málið horfir við nú, þá hefir minni hlutinn ekki sjeð sjer fært að vera með því að bera nú fram breytingu í þessa átt. Og eins og getið er í nál. minni hl., þá hefir samskonar brtt. verið feld í hv. Ed. með 10:4 atkv., og eftir því, sem jeg hefi hlerað um afstöðu hv. Ed., þá hefi jeg ekki orðið þess var, að þar hafi nokkur breyting á orðið síðan. Er jeg hræddur um, að það gæti orðið til þess að tefla afgreiðslu málsins á þessu þingi í tvísýnu, ef þetta ákvæði væri nú sett inn í frv. Af þessum ástæðum mun jeg greiða atkv. á móti till. Jeg tel það mikilsvert atriði að geta komið fram þeim breytingum á stjórnarskránni, sem í frv. felast og vitanlegt er um, að þjóðin æskir eftir. Það væri því ekki heppilegt fyrir góða afgreiðslu þessa máls að fara nú að setja inn í frv. hjer breytingu þá, er hv. meiri hl. ber fram og jeg nú hefi talað um. Sá ótti hefir ef til vill ekki við full rök að styðjast, að það mundi skapa málinu aldurtila nú á þessu þingi, þó þessi breyting yrði samþykt hjerna; en jeg tel þó, að með því sje óþarflega djarft teflt. Háttv. frsm. gerði lítið úr þessari ástæðu og taldi, að ekki mundi annað nje hættulegra ske en að hv. Ed. feldi þetta úr frv., og það yrði svo sent aftur til þessarar hv. deildar. Þetta getur vel verið. En þar sem það er sýnt, að það er með öllu tilgangslaust að vera að samþykkja þessa breytingu hjer, þar sem vissa er fyrir, að þetta nær ekki samþykki hv. Ed., en hinsvegar ekki ugglaust um, nema þetta gæti orðið málinu að falli, þá er það langöruggast fyrir greiðum framgangi frv. að setja þetta ákvæði ekki inn í frv.

En það gladdi mig, að mjer virtist það koma fram hjá hv. frsm. meiri hl., að meiri hlutinn mundi ekki snúast á móti frv., þó þessi brtt. yrði feld, hvort heldur það væri gert í þessari deild eða hv. Ed.

Háttv. frsm. gerði lítið úr því, sem sagt er í nál. minni hl., að þessi brtt. meiri hl. yrði til þess að ýta undir kröfurnar um breytingu á kjördæmaskipuninni í landinu. En jeg hygg, að þetta, ef það yrði samþykt, þá mundi það koma á daginn, að það yrði til þess að herða á kröfunum um breytingu á kjördæmaskipuninni, því frá sjónarmiði þeirra, sem vilja byggja kjördæmaskipunina á höfðatölunni einni, er þó töluverð bót að landskjörinu. Að öðru leyti er jeg sammála hv. frsm. meiri hl. um það, sem hann sagði um breytingu á kjördæmaskipuninni. Allar slíkar breytingar eru hættulegar, og tók hv. frsm. rjettilega fram, í hverju hættan liggur.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta meira að svo stöddu.