28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3464 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Líndal:

Líklega eru það fáar þjóðir eða engar, sem jafnoft hafa borið fram brtt. á stjórnarskrá sinni og við Íslendingar höfum gert síðan við fengum hana fyrst árið 1874. Jeg kann ekki að telja öll þau þing, er haldin hafa verið síðan og haft hafa til meðferðar breytingar á stjórnarskránni. Þetta var afsakanlegt á meðan við áttum undir högg erlendrar þjóðar að sækja um endurheimt pólitískra rjettinda, en nú er það lítt afsakanlegt að gera slíkt nema að vel yfirveguðu máli og breyta því einu, sem reynslan hefir gefið bendingar um, að verið geti til varanlegra bóta. Jeg fyrir mitt leyti vil ógjarnan eiga þátt í neinum brtt., nema jeg sje sannfærður um, að þær sjeu til varanlegra hagsmuna þjóðinni í heild sinni.

Stjórnarskrármálið hefir venjulegast ekki verið flokksmál, eins og eðlilegt er, þegar full alvara fylgir máli. En því miður hefir það líka stundum verið notað til pólitískra æsinga, og flokkarnir hafa teygt það og togað á milli sín í pólitísku hagsmunaskyni og haft það að leiksoppi og kosningaagni. En slíkt athæfi er hverri þjóð til vanvirðu og sýnir átakanlegt þroskaleysi og alvöruskort um skipun þeirra mála, er mest er um vert. Það er glæpsamlegt athæfi að hafa stjórnarskrá þjóðar sinnar að fíflskaparmálum.

Þá vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um það stjórnarskrárfrv., sem hjer liggur fyrir. Jeg verð að játa, að mjer finst ekki mikið til um frv. stjórnarinnar. Mjer finst ekki laust við, að þar sje tekið með annari hendinni sem gefið er með hinni. Það, sem einkum á að gefa, er fækkun þinga, en sú gjöf er að mínu viti að nokkru leyti tekin aftur með ákvæðinu um það, að fjölga megi þingunum aftur með einföldum lögum, jafnvel á næsta þingi eftir að hin nýja stjórnarskrá gengur í gildi. Jeg hafði trú á því, áður en jeg eignaðist sæti hjer á þinginu, að við mundum geta komist af með fjárlagaþing annaðhvert ár. En jeg vil hreinskilnislega játa, að jeg hefi nú minni trú en áður á því, að af með þetta verði komist, sjerstaklega meðan atvinnu- og fjármál eru í þeirri óreiðu, sem þau eru. Auk þessa stendur 1000 ára afmælishátíð Alþingis fyrir dyrum, og geri jeg ráð fyrir, að jafnframt hennar vegna verði naumast komist hjá að halda þing á hverju ári fram að þeim tíma. Þá tel jeg engan efa á því, að þingtíminn verði talsvert lengri, ef fjárlagaþing er aðeins haldið annaðhvert ár, og hefir það líka sína stóru ókosti. Þrátt fyrir þetta vil jeg gera tilraun til þess að fækka þingum, ef útilokað er, að hægt sje að hringla með þetta ákvæði með einföldum lögum fram og aftur, frá ári til árs, án þess að full reynsla fáist fyrir því, hvort af með þetta verði komist eða ekki. Yfirleitt er það stór ókostur á stjórnarskránni, hve mörgum atriðum má breyta í henni með einföldum lögum. Mikið er talað hjer um sparnað, og skal það síst lastað þegar hugur og alvara fylgir máli og sparað er af hagsýni og fyrirhyggju. En jeg álít, að ekki væri síður spor í sparnaðaráttina að fækka þingmönnum heldur en að fækka þingum. Ekki ganga störfin betur í þessari hv. deild, þótt hjer sjeu fleiri þm. en í Ed., og er ekki síður vandað til mála þar en hjer. Þetta segi jeg að hv. Nd. ólastaðri. Það er löngu viðurkendur sannleikur, að því ver dugi heimskra manna ráð, er þeir koma fleiri saman. En það vill einnig stundum verða svo, að ráð margra viturra manna koma ekki að jafngóðum notum og færri manna ráð, ef valinn maður og vitur skipar þar hvert rúm. Í samanburði við fólksfjölda höfum við án efa miklu fleiri þm. en nokkur önnur þjóð. Jeg lít svo á, að ef þm. væri fækkað, þá mundu þingin um leið verða styttri, minna af óþarfafrumvörpum og óþarfamælgi. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert á móti landskjöri, en sje heldur eigi neitt sjerstakt unnið við það, eftir þeirri reynslu, sem fengin er. En jeg sje ekki aðra leið greiðfærari til þess að fækka þm. en að fella það niður. En jeg verð að játa, að landskjörið hefir að ýmsu leyti brugðist vonum mínum. Jeg get ekki tekið undir með hv. 4. þm. Reykv., að flokkar eigi einir, eða að mestu leyti, að ráða framboði og vali þm. Þessi þjóð er oft furðanlega næm á það að velja hina rjettu menn á rjetta staði, þegar hún fær að vera sjálfráð. Tel jeg það til tjóns, en ekki til bóta, að pólitískir flokksforingjar ráði mestu um þingmannaval. Jeg tel það heldur alls engan kost, að þm. sjeu rígbundnir viðflokka sína. Jeg legg meira upp úr því, að hafa sjálfstæða skoðun á málunum, hvort sem flokknum líkar það betur eða ver. Nefndarálit meiri hl. er að einu leyti ógreinilega orðað. Þar sem sagt er, að það sje skilyrði fyrir fylgi meiri hluta nefndarinnar við frv., að enn frekari breytingar verði gerðar á þinghaldinu, þá ber að skilja þetta þannig, að meiri hluti meiri hlutans, eða með öðrum orðum meiri hl. þeirra, sem undir nefndarálitið hafa skrifað, geri þetta að skilyrði fyrir fylgi sínu, Jeg hygg, að þetta orðalag sje komið inn vegna þess, að við bjuggumst við, að fleiri gætu skrifað undir þetta nefndarálit en raun varð á. Jeg fyrir mitt leyti legg mikla áherslu á afnám landskjörsins, en jeg mun þó ekki gera þetta að skilyrði fyrir fylgi mínu við frv. Það er ekkert skilyrði frá minni hálfu, að þessu verði fylgt fram. Þá eru það ýms atriði önnur, sem jeg vil breyta, en jeg get gjarnan orðið við þeim tilmælum hæstv. forsrh. að koma ekki fram með brtt. mínar fyr en við 3. umr., ef þessari umr. verður lokið í dag.

Ein sú breyting, er jeg legg talsvert mikla áherslu á, er við 26. gr. Jeg vil afnema það ákvæði stjórnarskrárinnar, að tölu þm. megi breyta með lögum, og sama máli er að gegna um skipun deilda. Einkum legg jeg áherslu á þessa breytingu, ef tillaga okkar meiri hluta stjórnarskrárnefndarmanna um fækkun þingmanna um hina landskjörnu verður samþykt. — Þá er álitamál um það ákvæði 29. gr., að enginn hafi kosningarrjett nema hann hafi verið búsettur síðustu 5 ár hjer á landi. í mínum augum skiftir það að vísu ekki mjög miklu máli, þótt krafist sje svona langrar búsetu, en rjettlátt getur það þó naumast talist að svifta menn kosningarrjetti og kjörgengi í 5 ár fyrir þá sök eina, að þeir hafa orðið að taka sjer bústað utanlands um tíma.

31. grein vil jeg ekki heldur að hægt sje að breyta með einföldum lögum. Mínar ástæður eru þær, að margir góðir þm. geta ekki mætt á þingi nema suma tíma árs. Margir hafa þeim störfum að gegna, að þeir geta ekki mætt að sumrinu, og vil jeg ekki, að hægt sje með einföldum lögum að reka þá menn af þingi. Slíkt skipulag á stjórnarskránni er alveg óviðunandi, að harðsnúinn og illvígur pólitískur flokkur geti sparkað andstæðingum sínum sumum hverjum út úr þinginu, með því að breyta þingtímanum frá ári til árs.

Þá hefir nefndin gengið inn á að hafa kosningatímabilið 4 ár. Jeg vildi heldur hafa 6 ár; mjer þykir of lítið að kjósa aðeins til tveggja þinga, en þó vil jeg ekki láta málið stranda á þessu atriði.

Því verður ekki neitað, að vald stjórnarinnar eykst við fækkun þinganna. En það tel jeg engan skaða, heldur miklu fremur til bóta. Stjórnin hjer á landi er, að mínum dómi, oft og einatt of háð þinginu, hvað snertir þær ráðstafanir, sem hún ein á að bera ábyrgð á. Þinginu á að vera nóg að geta tekið í taumana og rekið stjórnina frá, þegar ástæða er til. Ákvæði 1. gr. stjórnarskrárfrv. um það, að meiri hluti þingmanna geti krafist aukaþings, þegar þörf þykir, er mikil rjettarbót, einkum í sambandi við fækkun þinganna. Ef það ákvæði er skynsamlega notað, getur stjórnin aldrei beitt gerræði og rangindum til lengdar.

Að öllu athuguðu vil jeg að lokum segja, að jeg legg ekki mikið upp úr fækkun þinga, ef ekki er tekið út það ákvæði úr stjórnarskránni, að þessu megi breyta með einföldum lögum. Aftur á móti legg jeg mikið upp úr fækkun þingmanna og held fast við það atriði.