08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg minnist þess ekki, að hafa talað um, að það væri nein goðgá að greiða atkv. með þessari rökstuddu dagskrá frá minni hl. nefndarinnar, en hitt er það, að jeg hefði óskað þess, að meiri hl. hv. deildar vildi greiða atkv. með frv. En það er eins og vant er hjá hv. þm. Str. (TrÞ), að hann veður annaðhvort í ökla eða eyra — það er aldrei meðalvegur til hjá honum. Hv. þm. sagðist vera með málinu. Það er nú gott að heyra, að menn eru með málinu, en þeir vilja bara ekkert fyrir það gera, en gera það, sem þeir geta, til þess að bregða fæti fyrir það.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þykir nú gott að geta borið fyrir sig hæstv. fjrh. (JÞ). En mig minnir hálfvegis, að í gær þætti honum ekki mikið varið í það, sem hann sagði áður, og hans aðfarir allar. Nú telur hann orð hans vera sem goðasvar. Annars vil jeg benda á, að þetta frv. er ekki flutt án samþykkis hæstv. fjrh. Öðruvísi gæti það ekki komið fram sem stjfrv.; svo að það er ekki til neins að vitna í það, að hæstv. fjrh. sje á móti þessu máli.

Hv. þm. sagði, að símalögin ætti að skilja þannig, að um símalagningar ætti að fara eftir till. landssímastjóra; en það er alveg rangt hjá honum. Landssímastjóri hefir hvað eftir annað haldið því fram við stjórnina, að hún ætti að leggja símalínur fyrir allan tekjuafgang símans. Stjórnin segir nei; það sje samkomulag, að láta þingið ráða, hversu mikil fjárhæð sje notuð til þess á hverju ári.

Jeg sje ekki, að þessar upplýsingar, sem hv. þm. Str. (TrÞ) var að gefa úr fjvn., komi neitt þessu máli við. Hann tók líka fram, að það væri ekki búið að taka neina ákvörðun um þessa hluti. Svo að hann getur alls ekki vitað, hvað verður ofan á. Jeg held það fari þá best á því, að vera ekki að tilkynna neinar umræður úr nefndinni, fyr en hann getur vitað úrslitin. — Annars get jeg ekki sjeð, hvað það kemur þessu máli við, hvort embættismenn fái hækkun launa sinna eða ekki.