29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla að segja, áður en gengið er til atkv.

Þegar rætt er um flokkaskiftinguna hjer í þessu landi, þá er því haldið fram af einum sjerstökum stjórnmálaflokki, að aðalatriðið sje það, hvort efla skuli sveitamenninguna hjer eða draga úr henni. Nú stendur svo á, að þessi flokkur, næststærsti flokkur þingsins, Framsóknarflokkurinn, telur sig einkum vera málsvara bændanna í einu og öðru. Þegar rætt er við þessa menn um kjördæmaskiftinguna og þeim bent á, að kaupstaðirnir fái tiltölulega of lítið atkvæðamagn, þá hefir svarið verið, að það sje að vísu eigi rjettlátt, en þungamiðja þjóðlífsins liggi og eigi að liggja í sveitunum, og því verði svo búið að standa.

Frá sjónarmiði bænda er þetta rjett, og þess vegna lít jeg svo á, að það hljóti að vera hlutverk þessa flokks, sem telur sig vera bændaflokk, að halda í þá kjördæmaskipun, sem nú er, enda er þeim það hin mesta nauðsyn, ef þeir vilja halda áfram áhrifum sínum á löggjöf landsins, bændum í hag, eins og þeir a. m. k. á kjörfundum vilja vera láta. Í því frv., sem hjer liggur fyrir, er farið fram á það, að flytja þungamiðju þjóðlífsins úr sveit í kaupstað. — Hvað snertir vilja hjeraðsbúa sjálfra í þessum efnum, mun mega fullyrða, að það sje ekki helmingur kjósenda í hjeraðinu, sem óskar þessarar breytingar, heldur aðeins ca. 7–8 hundruð af ca. 3000 kjósendum kjördæmisins. — Jeg er ekki alveg viss um, að sumir hv. þm., sem greiddu atkv. með þessu frv. við síðustu umr., hafi gert sjer ljósa grein fyrir, hvað þeir voru að gera. Þar á jeg t. d. við hv. þm. Str. (TrÞ), sem jeg sje, að nú brosir.

Jeg álít þessa atkvgr., sem nú er að fara fram, mjög athugaverða, því eins og jeg benti á áðan, er hjer um það að ræða, hvort þungamiðja þjóðlífsins eigi að flytjast úr sveitum landsins til kaupstaðanna.