28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

32. mál, kosningar til Alþingis

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vildi aðeins spyrjast fyrir um það hjá hv. flm. þessarar brtt. á þskj. 109 (JG), hvort hann gæti ekki fallist á það, að koma með slíka brtt. við það frv., sem hjer kemur næst á eftir á dagskránni, um atkvgr. utan kjörstaðar kjósanda, því að mjer skilst, að þessi brtt. sje alls ekki afleiðing af færslu kjördagsins, svo að mjer finst háttv. þm. (JG) geti tekið brtt. sína aftur við þetta mál og flutt hana í því máli, sem er hjer næst á eftir, því að ef það mál nær ekki fram að ganga, þá er brtt. aðeins til hins verra hjer. (JG: Jeg geri ráð fyrir, að atkvæðin skiftist eins um þessa till., eins og það frv., sem hjer fer á eftir). Það þarf ekki að vera; bæði frv. fjalla um kosningar til Alþingis, og þá er sjálfsagt að setja ákvæðið inn í þau lögin, þar sem það á við. Jeg vildi aðeins mælast til þess, að það yrði ekki til að spilla fyrir því máli, sem hjer er um að ræða, því að þessi brtt. er í raun og veru alveg óskyld færslu kjördagsins.