21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), þykist ekki hafa komið auga á það, að meira hafi verið afkastað á togurunum, síðan hvíldartíminn var lögleiddur. En vitnisburður skipstjóranna, sem stjórnað hafa togurunum á þessu tímabili, er meira verður en hv. þm., sem í landi hefir setið. Þá sagði þessi háttv. þm., að öll þekking mín á þessum málum væri mjög á skotspónum. Það má vel vera, að svo sje að einhverju leyti, því að jeg hefi aldrei verið sjómaður, en fer hjer eftir samhljóða frásögn togaramanna og stjórnar Sjómannafjelagsins. En hans þekking á þessum málum er þá engu síður á skotspónum, því að hann hefir ekki svo mikið sem spurt þá, sem um vissu, hvernig vökulögin hafa reynst. Því eins og allir vita, hefir hann aldrei reynt þau sjálfur.

Þá sagði hann, að kröfurnar um 8 tíma hvíld væru einn angi af því, að heimta mikið kaup fyrir litla vinnu. En jeg tel 16 tíma samfleytta vinnu á sólarhring ekki litla vinnu, að minsta kosti vinna útgerðarstjórarnir ekki þann tíma í hinum þægilegu skrifstofum sínum, hve mikið sem er að gera. Þar vantar mikið á.

Það var með öllu rangt hjá hv. þm. (JÓl), að sjómennirnir sjálfir ljetu sjer ekki ant um þetta mál, því að það er einmitt flutt fyrir tilmæli þeirra, og frumkvæðið um þessa löggjöf er með öllu frá sjómönnunum sjálfum, eins og skiljanlegt er.

Þá þótti honum ekki mikið, þó að 406 hásetar hefðu undirskrifað áskorun um að flytja þetta frv. En ekki er hægt að ætlast til meira frá hásetum á Reykjavíkurtogurunum einum en að þeir undirskrifi allir, eins og þeir hafa hjer gert. Undirskrifta hefir alls ekki verið leitað á hinum togurunum, en vafalaust mundu allir hásetar á þeim undirskrifa slíkar áskoranir. Mjer finst alls ekki hægt að bera vinnu á togurunum saman við vinnu í sveit. Sextán tíma vinna í sveit þekkist aðeins í einstöku tilfelli, en þess ber að gæta, að hún er á alt annan veg. Hún er miklu hægari og henni fylgir ekki önnur eins vosbúð og sjóvinnunni. Auk þess sem það aðeins kemur fyrir dag og dag. Vinnuhörku eins og á sjer stað á togurum mundu húsbændur í sveit aldrei leyfa sjer, enda mundu þeir ekki fá fólk til þess. Þá geri jeg ekki ráð fyrir því, að margir fallist á það, að það sje sama, hvernig menn sofi, aðeins ef þeir sofa einhverntíma nóg. Eftir því á að vera sama, þó að menn vaki í einu aðra vikuna og sofi svo hina, eða vaki annað misserið og sofi hitt.

Loks gat hv. þm. þess, að bráðum yrði farið að banna mönnum að róa, nema öllum á sama tíma. Þetta býst jeg ekki við, að hann hefði sagt, ef honum hefði verið kunnugt um, að til eru sumstaðar fiskiveiðasamþyktir, t. d. í Vestmannaeyjum, um róðrartíma bátanna, sem að sjálfsögðu er farið eftir og reynist nauðsynlegt.

Að endingu vil jeg undirstrika það, að með þeirri styttingu á vinnutímanum, sem hjer er farið fram á, er alls ekki ætlast til, að minna verði afkastað, heldur þvert á móti. Er hjer því ekki um væntanlegt tap fyrir útgerðarfjelögin að ræða. Það er aðeins hin alkunna skammsýni reykvískra útgerðarmanna, sem veldur þessari mótstöðu gegn svo sjálfsögðum lögum til að vernda heilsu sjómannanna.