06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

11. mál, útrýming fjárkláða

Sveinn Ólafsson:

Hv. meiri hl. landbn. hefir hlotið ámæli fyrir það, að leggja á móti þessu frv., og fyrir að hafa horfið frá fyrri stefnu í málinu. Jeg fyrir mitt leyti vil færa meiri hl. nefndarinnar bestu þakkir fyrir að hafa tekið upp þessa stefnu í málinu; jeg veit, að hann hefir gert það eftir ítarlega athugun og nákvæma rannsókn. Jeg skal taka það fram sem mína skoðun, að jeg hefi enga trú á því, að betur mundi takast nú en síðast, þegar reynd var útrýmingarböðun, og jeg get lýst því yfir, að jeg get í flestum, ef ekki öllum atriðum undirskrifað það, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði um málið. Það þarf enginn að halda, að með svonefndri útrýmingarböðun verði síðasti kláðamaurinn drepinn, og meðan það tekst ekki, getur kláðinn altaf komið upp aftur.

Það hefir af sumum hv. stuðningsmönnum frv. verið talað um böðunarkák, sem enga þýðingu ætti að hafa. En þrifaböðunin, sem þeir nefna kák, hefir haft mjög mikla þýðingu, þegar óhlutdrægt er á litið. Jeg er í engum efa um það, að hún hefir hamlað mjög útbreiðslu og eflingu kláðans, jafnvel víða eytt honum, og mundi þó hafa gert það betur, ef hún hefði hvarvetna verið rækt með meiri nákvænmi. Jeg hygg, að í þessu efni sjeum við neyddir til að fara eftir reynslu annara fjárræktarþjóða, sem hafa átt við þennan sama húsdýrasjúkdóm að stríða, t. d. nágranna okkar, Skota. Skotum hefir aldrei tekist að útrýma kláðanum hjá sjer, en með þrifaböðum er honum þar haldið svo í skefjum, að hann gerir nú ekkert tjón. Þrifaböðunin orkar þessu í Skotlandi, og jeg tel það einnig sannað hjer af reynslunni, að með vandvirkni í þrifaböðun megi halda kláðanum niðri eða jafnvel eyða honum, en jafnframt eru þá almenn þrif fjárins fengin.

Það þýðir ekkert fyrir minni hl. að vera að gera lítið úr þrifaböðunum og kalla þær kák; þær eru búnar að vinna hylli. En útrýmingarböðun hefir líka reynst kák og hið sama mundi koma í ljós, ef reynt væri nú af nýju.

Það er vissulega rjett, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um það, að glæða áhuga manna á þrifaböðum, þar sem kláði enn er lítill. Þegar þrifabaðanir eru alment ræktar af vandvirkni, má vænta þess, að reynslan verði sama og hjá Skotum.

Um kostnaðinn við útrýmingarböðunina ætla jeg ekki að tala. Hann er að vísu mikill, og miklu meiri en áætlanirnar sýna. En stærsta atriðið í því máli er þó sú hætta fyrir fjenaðinn, sem endurtekinni böðun fylgir, einkum ef hittist á kuldatíð og hrakviðri. Sú áhætta verður ekki fyrirfram metin til peninga, og aldrei verður útrýmingin ugglaus.

Þetta vildi jeg sagt hafa til stuðnings áliti hv. meiri hl. landbn. og jeg mun, með fylstu sannfæringu, greiða atkv. á móti frv. á þskj. 11, en styðja frv. meiri hl.