20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

11. mál, útrýming fjárkláða

Pjetur Þórðarson:

Það er út af nokkrum ummælum við 2. umr. þessa máls, þar sem talað var um kláðaskýrslur þær, eða tvo dálítið mismunandi útdrætti úr þeim, er komu þá fram, að jeg vil gefa þá skýringu, að hvorugur þessi útdráttur gaf fulla skýringu á því, hvernig ástandið hefir verið þessi seinustu fimm ár. Jeg hefi tekið útdrætti þessa á tvennan hátt, annan líkt og búnaðarþingsnefndin gerði, en þó nokkuð öðruvísi, en hinn vil jeg leyfa mjer að lesa upp hjer:

Enginn kláði var seinustu 5 árin í 104 hreppum

— 4 — — 118 —

seinustu 3 árin í 124 hreppum

— 2 — 218 —

seinasta árið — 135 —

Auk þess var minkandi kláði seinustu 5 árin í 18 hreppum

Viðvarandi kláði seinustu 5 árin í 17 hreppum

Vaxandi kláði seinustu 5 árin í 29 hreppum.

Þessi útdráttur sýnir það, að árlega fjölgar þeim hreppum, þar sem enginn kláði er. Og þetta sýnir það líka, að kláðinn fer minkandi með þeirri aðferð, sem nú er höfð, þrifaböðunum. En til þess að geta sýnt þetta nákvæmlega, hefði maður þurft að vita, hve margar kláðakindur voru á hverjum tíma í hverjum hreppi, en skýrslurnar eru nú svo úr garði gerðar, að ekki er hægt að sjá á þeim, hvort kláðakindum á landinu hefir fækkað, eða hve mikið. Í mörgum hreppum er þess þó getið, að kláðinn fari minkandi eða sje horfinn með öllu.

Jeg ætla ekki að fara að ræða málið alment, heldur vil jeg gera grein fyrir því, hvernig jeg mun greiða atkv. um þær brtt., sem fram eru komnar, því jeg tel engan efa á því, að menn muni vita, hvernig jeg greiði atkv. um frv. sjálft. Jeg er á annari skoðun en hv. meðnefndarmenn mínir um brtt. þessar, sjerstaklegt till. á þskj. 380. Jeg tel sjálfsagt, að hv. deild gangi inn á það, að samþ. hana. Jeg er líka á því, að samþ. beri brtt. á þskj. 379, en tel það þó ekki eins áríðandi. Till. á þskj. 380 er í samræmi við frv. sjálft og fellur því vel inn í það. Má ef til vill þar um segja, að „því vitlausara, því betra“

Annars finst mjer, að hjer sje lagt mikið kapp á það, að styðja ekki bændur að því að útrýma kláðanum á þann hátt, sem þeim er geðfeldast og kostnaðarminst. Hjer eru það kaupstaðabúar, sem vilja ráða fyrir bændum í þessu efni og láta framkvæma útrýmingu kláðans á alt annan veg en bændur óska.

Jeg býst ekki við, að móti því verði spornað, að frv. nái fram að ganga, og skal því ekki orðlengja frekar um málið.